Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Konur eiga líka að skrifa framtíðina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun

Eftir / Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur

Í mínu gamla starfi komst ég að því, eftir mikið kynningarátak þar sem tókst að fá fleiri nemendur í nám í tölvunarfræði en nokkru sinni fyrr, að einungis 11% nemendanna voru konur, á sama tíma og um 65% nemenda á háskólastigi voru konur. Jafnframt var öllum ljóst að mikill skortur væri á einstaklingum með menntun í tölvunarfræði.

Það þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu til að greina vandann. Stelpur sáu sig ekki í tæknigreinum vegna þess að þær voru þar ekki sýnilegar. Þumalputtaregla auglýsinga segir „þú birtir mynd af því sem þú auglýsir eftir“. Í auglýsingum fyrir tækninámið var bara auglýst eftir strákum. Þessu var snarlega breytt og byrjað að auglýsa eftir stelpum í tækninám.

Þá var hinn árlegi viðburður Stelpur og tækni settur á laggirnar, til að gera kvenkynsfyrirmyndir í tæknistörfum sýnilegar, í samstarfi háskólasamfélagsins og atvinnulífsins. Fyrsta árið tóku 50 stelpur þátt en árið 2018 voru þær um 850, bæði af höfuðborgarsvæðinu og af Norðurlandi.

Þegar stelpur fóru að sækja í tölvunarfræðinámið í meira mæli greindist annar vandi. Brottfall þeirra var meira en brottfall strákanna. Við athugun kom í ljós að þeim fannst þær ekki vera velkomnar í nemendahópnum. Því tóku nokkrar þeirra sig saman og stofnuðu nemendafélagið /sys/tur, til að vera stuðningsnet kvenna í tölvunarfræðinámi í HR. Þessi félagsskapur skipti gríðarlega miklu mál til að draga úr brottfalli kvenna í náminu og er staðan núna sú að fundi /sys/tra sækja stelpur og strákar svo til jöfnum höndum. Hlutfall kvenna í tölvunarfræði í HR var komið upp í tæp 30% árið 2018.

Ég er oft spurð að því hvers vegna þetta skipti máli, spurningar eins og hinar klassísku „má ekkert lengur“ og hvort það sé ekki bara í lagi ef stelpur vilja ekki læra tölvunarfræði. Stutta svarið mitt er þetta: Það er mikilvægt að stelpur og konur læri tæknigreinar, sérstaklega tölvunarfræði, vegna þess að framtíð okkar verður að miklu leyti skrifuð af tæknifólki, og konur þurfa að móta framtíðarsamfélag okkar til jafns við karla. Besta leiðin til að auka hagvöxt, hvar sem er í heiminum, er að mennta konur og styðja þær til atvinnuþátttöku utan heimilisins. Konur eru vannýtt auðlind í mörgum samfélögum og það skiptir máli að gera þeim kleift að nýta hæfileika sína á öllum sviðum og taka þátt í því að móta samfélag framtíðarinnar.

- Auglýsing -

Hvetjið stelpurnar ykkar til að leggja áherslu á stærðfræði og raungreinar í grunnskóla, hvetjið stjórnvöld til að koma forritunarnámi inn á námskrá grunn- og framhaldsskóla, og gerið sjálf allt sem þið getið til að vera breytingarafl í samfélaginu. Ég lofa að það er miklu meira gefandi en að horfa á Netflix.

Stelpur og tækni-dagurinn verður haldinn dagana 21. og 22. maí næstkomandi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – miðstöðvar um máltækni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -