Laugardagur 4. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Krafan um fullkomnun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 40. tölublaði Vikunnar

Mikið væri gaman að eiga fallegt heimili, alltaf vel þrifið að sjálfsögðu, hlýðin og góð börn, heimabakaðar kökur í frystikistunni og vera á blússandi ferð upp metorðastigann í vinnunni. Nú og þá auðvitað vera ævinlega í vel pressuðum fötum með fullkomið hár og förðun. Við vitum öll innst inni að þetta er ekki hægt, að minnsta kosti ekki án hjálpar.

Það er alveg sama hversu vel við skipuleggjum okkur og hve hart við leggjum að okkur, fullkomnun er ekki raunhæft markmið. Samt kraumar alltaf undir niðri þessi nagandi óvissa, hún Gunna er alltaf svo flott á Instagram, Sigga í næsta húsi virðist hafa það svo ofboðslega gott og geta allt, nú eða stjörnurnar úti í heimi, fallegar, geislandi og með hlutina í hendi sér. Við horfum á skínandi umgjörðina og förum að efast. Þetta hlýtur að vera satt, sjáið bara myndirnar. Af hverju get ég ekki það sama?

Ekki hjálpar heldur að allt frá frumbernsku er okkur kennt að keppa við aðra. Siggi verður að vera betri í fótbolta en Nonni, Anna skotharðari handboltakona en Hanna, Dísa betri námsmaður en Jói og þar fram eftir götunum. Við höfum tölur, vigtir, mæla og umsagnir til að tryggja að einhver sé dæmdur minna virði en hinn.

Samfélagið er gegnsýrt af þessu. Bíllinn þinn, húsið þitt, launin þín, fötin þín, útlit þitt, eiginlega allt nema mannkostir þínir segja til um hversu mikils virði þú ert. Það er ekki undarlegt að þetta þjóðfélag sé að keyra sig um koll af streitu. Kulnun verður sífellt algengari og alger uppgjöf. Margt ungt fólk sér ekki aðra leið út en að deyfa sig með fíkniefni eða kveðja þetta líf.

Hugsanlega er ég harðorð og já, það vottar ekki fyrir bjartsýni í þessum skrifum en mér finnst að í sumum tilfellum þurfi einfaldlega að mála hlutina dökkum litum.

- Auglýsing -

Helga Hrönn Óladóttir fékk heiftarlegt ofnæmi af streitu. Kastið var svo slæmt að hún var lögð inn á gjörgæslu og átti erfitt með andardrátt. Hún hafði gert sitt besta til að halda ótal boltum á lofti og bætti sífellt í þar til hið óhjákvæmilega gerðist. Líkaminn gat ekki meira. Í dag er hún umdæmisstjóri Streituskólans á Akureyri, já, við erum komin í það mikil óefni að kenna þarf fólki að takast á við streitu, og aldrei verið hamingjusamari. Hún kann orðið þá list að leita jafnvægis og er búin að draga sig út úr kapphlaupinu. Meðal góðra ráða sem hún gefur fólki er; sættu þig við að ekki sé allt fullkomið, sættu þig við þínar takmarkanir og einbeittu þér að því sem þú hefur stjórn á. Frábær ráð og fyrsta skrefið að því að finna til þakklætis fyrir að vera það sem þú ert og eiga alla möguleika á að skapa dásamlegt líf.

Sjá einnig: Endaði á gjörgæslu vegna streitu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -