Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Landsréttarklúðrið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun

Eftir / Helgu Völu Helgadóttur

Fyrir nærri tveimur mánuðum síðan kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm sinn í Landsréttarmálinu. Áður hafði héraðsdómur, Landsréttur og Hæstiréttur fjallað um embættisfærslur Sigríðar Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, við skipan Landsréttardómara og var niðurstaðan ávallt sú að hún hefði brotið lög við þessa framkvæmd. Í hvert sinn sem dómur féll virtist hún ósammála niðurstöðunni og svo virðist sem henni hafi tekist að sannfæra samráðherra sína í ríkisstjórn og stjórnarþingmenn um að allir þrír dómstólarnir færu villur vegar. Þetta kom berlega í ljós þann 12. mars sl. þegar dómur Mannréttindadómstólsins var kveðinn upp. Niðurstaðan kom forsætisráðherra sem og öðrum ráðherrum fullkomlega á óvart og er viðkvæðið enn að skiptar skoðanir séu á þessu öllu. Því miður virðist ríkisstjórnin ekkert hafa undirbúið sig undir það að svona gæti farið. Þeir sem rekið hafa mál fyrir dómi vita að þrátt fyrir að vera með algjörlega unnið mál, að eigin mati, verður alltaf að vera viðbúinn annarri niðurstöðu. En gert er gert og það þurfti að bregðast við til að koma íslensku réttarkerfi til bjargar. Þeir fjórir dómarar sem handvaldir voru inn í réttinn sitja nú verklausir enda hefur Mannréttindadómstóllinn kveðið upp úr með það að dómstóllinn sé ekki sjálfstæður og óvilhallur sitji þeir í réttinum.

Í vikunni sögðust forsætisráðherra og starfandi dómsmálaráðherra ekkert ætla að aðhafast að sinni til að koma Landsrétti til aðstoðar. Gekk starfandi dómsmálaráðherra svo langt í viðtali að nánast hneykslast á þeim fjórum dómurum sem ekki sinna dómstörfum sökum vanhæfis, enda hafi Hæstiréttur ekki sagt að ólögmæti skipunar hefði áhrif á störf þeirra við réttinn. Það er eins og ríkisstjórnin sé enn ekki búin að átta sig á því að við erum skuldbundin til að hlíta niðurstöðum Mannréttindadómstólsins sem sagði málsmeðferð hjá þessum fjórum dómurum ekki vera fyrir sjálfstæðum, óvilhöllum dómstól, sem er grundvallaratriði í réttarríkinu. Þau virðast álíta það gæfulegt að dómstólinn starfi eftir sem áður með þessa fjóra dómara svo hér ríki enn meiri glundroði þegar vinda þarf ofan af því sem gert hefur verið. Málskot til yfirdeildar er enn ekki farið af stað frá íslenskum stjórnvöldum. Panell yfirdeildar hittist á tveggja til þriggja mánaða fresti og einungis brot af umsóknum um málskot er samþykkt.

Það að skiptar skoðanir kunni að vera um málið þýðir ekki að ríkisstjórn Íslands geti leyft sér að horfa eingöngu á þá skoðun sem henni hugnast, sér í lagi þegar þrjú dómstig á Íslandi sem og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp að lögbrot hafi átt sér stað við skipan dómaranna. Nú þarf ríkisstjórnin að hætta að þvælast fyrir og koma Landsrétti aftur til starfa með fullnægjandi hætti. Með töfum á málsmeðferð getur orðið óafturkræft tjón og því verða stjórnvöld að taka af skarið og fullmanna Landsrétt með starfandi dómurum án frekari tafar. Annað er óboðlegt.

Höfundur er þingmaður Samfylkingar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -