Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Launaseðillinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Sólveig Auðar Hauksdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur.

Ætli launaseðillinn sé kominn, hugsa ég með sjálfri mér á meðan ég logga mig inn í tölvukerfið. Ég reyni í huganum að telja út hversu marga yfirvinnutíma ég vann á síðasta vaktatímabili á meðan kerfið leiðir mig í gegnum hverja valmyndina á fætur annarri. Ég vann allavega fjórar kvöldvaktir en ég var eitthvað lítið kölluð út helgina þarna um daginn. Launaseðillinn birtist á skjánum. Afturvirk launaleiðrétting frá og með 1. maí, 120 bakvaktatímar, 18 yfirvinnutímar, slatti af vaktaálagi. Ég næ manninum mínum hér um bil um þessi mánaðamót. Ef ég tek fáar vaktir eða fæ fá útköll er ég langt undir honum í útborguðum launum. Dagvinnulaunin mín eru ekki upp í nös á ketti. Það er yfirvinnan sem telur.

Ég er í 80% vinnu, auk bakvakta. Það er í raun meira en full vinna. Vinnuvikan mín er einhvers staðar á bilinu 32-56 tímar, allt eftir vaktabyrði og lengd og fjölda útkalla. Einungis innvígðir skilja vaktakerfið sem unnið er eftir á skurðstofunum. Það er, eins og svo margt annað í þessum lokaða heimi, utanaðkomandi aðilum hulin ráðgáta. Maðurinn minn þarf reglulega upprifjun í því hvaða bókstafir tákna hverskonar vakt í sameiginlega dagatalinu sem heldur fjölskyldulífinu á floti. Við erum svo heppin að hann getur ráðið vinnutíma sínum upp að vissu marki, mætt seint eða farið snemma, allt eftir því hvernig vaktirnar mínar raðast. Hann sér um að krakkarnir fari á réttum tíma í skólann og að yngsti fjölskyldumeðlimurinn sé rétt útbúinn í leikskólann, með rétta fylgihluti og klæddur í samræmi við litakóðann sem var tilkynntur í síðasta föstudagspósti. Ef við þurfum að mæta á foreldrafundi á vinnutíma eða fara með börnin til læknis tekur hann það að sér. Mamma þarf að vinna. Eða sofa eftir vakt.

„Hann er ekki á neinum ofurlaunum. Samt er það svo að ég þarf að vinna átján yfirvinnutíma, 120 bakvaktatíma og fjórar kvöldvaktir til að rétt slefa upp í dagvinnulaunin hans.“

Ég elska vinnuna mína, vildi hvergi annars staðar vera. Ef ég á að segja eins og er vil ég miklu frekar vera föst í aðgerð en að sinna þessu daglega amstri fjölskyldunnar og er þakklát fyrir að maðurinn minn skuli taka það að sér. Hann er grafískur hönnuður og vinnur á auglýsingastofu sem hefur innleitt styttri vinnuviku. Hann er ekki á neinum ofurlaunum. Samt er það svo að ég þarf að vinna átján yfirvinnutíma, 120 bakvaktatíma og fjórar kvöldvaktir til að rétt slefa upp í dagvinnulaunin hans. Ég næ honum í næsta mánuði. Ég er nefnilega komin með meira en 50 yfirvinnutíma á þessu tímabili sem er bara rétt hálfnað. Ég get kannski rifjað upp hvað börnin mín heita þegar ég er búin að jafna mig eftir þessa törn. Ætli það standi ekki einhvers staðar í Google Calendar?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -