Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Lífið í ljómandi litum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsgleði er öfundsverður eiginleiki. Hinir lífsglöðu virðast einhvern veginn alltaf sjá jákvæðar hliðar á öllum hlutum og eiga auðvelt með að takast á við hvern vanda. Þegar maður hittir óvenjulega hláturmildar og glaðlyndar manneskjur fyllist maður stundum öfund. Orkan og krafturinn geislar af þeim og það er eins og ekkert sé þeim ómögulegt. Einhverjir eru hugsanlega haldnir þeim ranghugmyndum að þetta fólk þurfi sjaldan eða aldrei að reyna neitt í lífinu. Að gleðin stafi af því að það hafi fengið svo mikinn byr í seglin og áfallalausa siglingu. En það er af og frá. Að stórum hluta er góða skapið val. Það er auðvelt að stoppa þegar eitthvað illt hendir og velta sér upp úr óheppninni og öllu því slæma sem hefur hent mann um ævina. Þá festast menn í hjólfarinu eins og bíll sem spólar og grefur sig stöðugt lengra niður. Sá sem velur jákvæðnina syrgir en gefur sorginni aðeins ákveðinn tíma hvern dag.

Margrét Boðadóttir eða Gréta Boða er ein þessara lífsglöðu, kraftmiklu manneskja. Það er sama hvar og hvenær maður rekst á Chanel-drottninguna, alltaf mætir manni geislandi bros og glaðleg kveðja. Hún hefur þann frábæra hæfileika að geta notið stundarinnar á meðan hún varir. Allt þetta vissi ég þegar við ákváðum að fá Grétu í forsíðuviðtal hér á Vikunni en hitt vissi ég ekki að hún er alltaf tilbúin að taka þátt í ævintýrum, hvort sem það er að hátta og klæða Ladda fyrir sýningar á Íslandi eða farða kvikmyndaleikara við frumstæðar aðstæður á Grænlandi. Það er ábyggilega ekki á allra færi að ferðast langan veg með alls konar farartækjum, misþægilegum, til að koma sér fyrir í afskekktu þorpi með ekkert rennandi vatn, kamra í stað klósetta og útsýni til fljótandi ísjaka. Þegar ofan á allt bætist sú upplifun að óður maður vaði um skjótandi meðan dauðhrætt fólk felur sig undir borði hefðu nú margir sagt, hingað og ekki lengra. Gréta kláraði hins vegar verkefnið og á góðar minningar frá Grænlandi. Henni fannst hún meira að segja tengjast, eiga á einhvern hátt heima meðal þessa frumstæða fólks sem hún gat ekki einu sinni almennilega talað við. Já, er það ekki magnað?

„Í æðruleysi hennar og velvild gagnvart fólki og aðstæðum felst boðskapur, skilaboð um að allt sé yfirstíganlegt.“

Sumir, ég þar með talin, hefðu líklega tryllst og heimtað að vera umsvifalaust fluttir á vit siðmenningarinnar, eins langt frá þessari kamraveröld og mögulegt væri að komast. Ekki Gréta Boða. Í æðruleysi hennar og velvild gagnvart fólki og aðstæðum felst boðskapur, skilaboð um að allt sé yfirstíganlegt. Líka það þegar eiginmaðurinn greinist með hættulegt eitlakrabbamein, nokkuð sem talið var dauðadómur á þeim tíma. En hann sigraðist á sjúkdómnum og Gréta tók þeim lottóvinningi af verðskulduðu þakklæti. Og kannski er það lykillinn. Þegar öllu er á botninn hvolft er það ekki einmitt þakklætið sem er kjarni æðruleysisins?

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -