„Þó ég sé karlmaður er ekki þar með sagt að ég sé góður í að skipta um ljósaperur,“ sagði hann með þungum undirtón; þó örlaði fyrir glotti á andliti hans.
Yfirmaðurinn, kona á sextugsaldri sem aldrei hafði verið við karlmann né kvenmann kennd, fölnaði við þessi orð starfsmannsins sem hafði verið undir hennar stjórn í tíu mánuði og tvær vikur.
Henni líkaði starfsmaðurinn vel en vissi aldrei hvernig hún ætti að tala við hann, hann var hvatvís og geislaði af sjálfstrausti og hún fann fyrir ókunnu kitli í maganum og ætlaði að fara að segja eitthvað við hann; en hún átti erfitt með að koma upp orði, var allt í einu orðin skrælþurr í munninum; þráði hreinlega glas af köldu vatni, jafnvel hvítvíni.
Varð síðan litið út um gluggann á snyrtilegri skrifstofu sinni, þetta fallega og hlýja síðdegi, og sagði með titrandi röddu og áður óþekktum tón:
„Mikið elska ég íslenska sumarið.“