Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Magnaðar sögur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allir eiga sína sögu. Sorgir, basl, sigrar og gleði móta og þroska manneskjuna. Hvernig hún vinnur úr því sem hendir hana skilgreinir síðan hvaða mark hún setur á veröldina. Ég trúi því að mikilvægt sé að miðla sögum, ekki bara vegna þess að krassandi fyrirsagnir vekja athygli okkar, heldur vegna þess að merkileg saga manneskju getur vakið okkur til umhugsunar, opnað augu okkar fyrir því að við erum ekki ein um erfiða reynslu og síðast en ekki síst hjálpað okkur að finna leiðina út úr vanlíðaninni og skapað grundvöll fyrir aukinni vellíðan og hamingju. Það er líka mjög mikilvægt að átta sig á og finna að hvergi er að finna fullkomleika, og slétt og fellt yfirborð getur hulið stríðan straum undir niðri. Þótt blaðamennska og leikhús séu ólík eigum við Sólveig Guðmundsdóttir það þó sameiginlegt að skynja og skilja kynngimagn áhrifamikillar sögu. Hún steig nýlega á svið í verkinu Er ég mamma mín? en það er byggt á lífi móður höfundarins og leikstjórans Maríu Reyndal.

„Þótt blaðamennska og leikhús séu ólík eigum við Sólveig Guðmundsdóttir það þó sameiginlegt að skynja og skilja kynngimagn áhrifamikillar sögu.“

Áhorfendur brugðust líka mjög sterkt við því sem þeir sáu á sviðinu og augljóst að margir gátu speglað sig í og tengt við söguna. Þetta er í annað sinn sem Sólveig fær að reyna slíkt. Þegar hún lék Sóleyju Rós ræstitækni í samnefndri sýningu var það sama uppi á teningnum. Þar byggðu, hún og María, á lífi hvunndagshetju á Akureyri og í ljós kom að ótal konur höfðu misst barn á meðgöngu og aldrei fengið að syrgja. „Til eru fræ sem fengu þennan dóm að falla í jörð og verða aldrei blóm.“ Of lengi hefur vantað skilning á að hægt er að syrgja vonir og væntingar, drauma sem aldrei rætast. Í huga dreymandans er draumurinn lifandi þótt hann raungerist aldrei og það er sárt. Að sama skapi getur kostað einstaklinga mikið að standa með sjálfum sér, gera kröfu um að fá að vera nákvæmlega eins og þeir eru. Stundum höndlar samfélagið það ekki og stundum einstaklingar. Þannig fór fyrir móður Maríu, þegar hún á miðjum aldri ákvað að mennta sig og sækjast eftir meira sjálfstæði. Eiginmaðurinn var ekki undir breytingarnar búinn og hjónabandið sprakk. Nóra gekk ekki út af Dúkkuheimilinu heldur flúði Þorvaldur Helmer fremur en að endurskoða sínar fastmótuðu skoðanir.

Já, er það ekki magnað hversu listin og veruleikinn kallast alltaf á? Hvernig sögurnar okkar geta orðið að uppsprettu þekkingar, skilnings og aukinnar samlíðunar manna á milli? Einmitt af þeirri ástæðu fannst mér svo áríðandi að koma sögu Rúnu, systur Sólveigar, á framfæri. Rúna var beitt ofbeldi af sambýlismanni sínum en þegar hún reyndi að losa sig út úr aðstæðum og leitaði réttlætis hjá þar til bærum yfirvöldum klúðraði starfsfólk lögreglu og saksóknara málum svo rækilega að ofbeldismaðurinn gengur laus, hefur komist upp með voðaverk sín og getur haldið áfram að níðast á konum. En að sagan sé opinber, að hún hafi verið sögð getur breytt gangi sögu ofbeldismannsins. Höldum því áfram að segja sögur í blöðum, á sviði, í sjónvarpi, útvarpi og við kaffiborðið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -