Laugardagur 4. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Margar hendur vinna létt verk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 28. tölublaði Vikunnar

„Hins vegar skil ég ekki af hverju er ekki alla vega hægt að hjálpa því fólki sem er búið að leggja það á sig að koma hingað sjálft,“ segir Jasmina Crnac í forsíðuviðtali Vikunnar að þessu sinni.

Mikið er ég sammála henni. Ég get ekki með nokkru móti séð neina skynsemi í því að vísa héðan manneskjum sem hafa lagt á sig langt og strangt ferðalag til að öðlast öryggi á Íslandi. Fólk sem er tilbúið til að vinna erfið og sóðaleg störf nokkuð sem innfæddir fúlsa við, vill læra íslensku, blandast samfélaginu og sýna þakklæti sitt í verki. Við höfum góða reynslu af að taka við flóttamönnum.

Margir þeirra hafa auðgað samfélagið hvort sem þeir hafa komið frá Ungverjalandi, Víetnam eða öðrum heimshornum. Hér vantar alltaf hendur, frjóa hugi og meira líf. Höfum það hugfast að margar hendur vinna létt verk og því fleiri sem hér borga skatta þess auðveldara verður að halda uppi því velferðarkerfi sem við öll viljum hafa. Það er auður í fjölbreytninni, nýsköpun og verðmæt menningaráhrif.

Allir hafa gott af því að setja sig í spor annarra af og til, opna hjarta sitt og sýna meðlíðan. Flóttamenn og innflytjendur veita okkur gullið tækifæri til þess.

„Hún sýnir líka hvernig mannsandinn getur sigrast á aðstæðum sínum…“

Saga Jasminu Crnac er áhrifamikil og sorgleg. Hún sýnir hversu hræðilega mannfólkið getur farið hvert með annað, sýnir varnarleysi og skelfingu fjölskyldu sem býr við ógnir án þess að hafa nokkuð gert til að eiga slíkt skilið. Hún sýnir líka hvernig mannsandinn getur sigrast á aðstæðum sínum, fundið eitthvað jákvætt og gott þótt ekkert slíkt sé í raun að finna í umhverfinu. Jasmina flúði inn í heim bóka. Ég gerði það líka þegar ég var barn, ekki vegna þess að ég byggi við ógn heldur vegna þess að mér fannst heillandi að kynnast annars konar heimum.

- Auglýsing -

Þegar ég las frásögn hennar langaði mig að rétta út höndina og snerta þessa litlu stelpu sem útbjó frumstætt ljós til að geta lesið á kvöldin og segja henni að svona hefði ég kúrt undir hlýrri sæng með vasaljós. Pabbi og mamma sátu frammi og spjölluðu og allt í kringum mig var kyrrð.

Hún vissi ekki hvort hún fengi að borða daginn eftir, ég var södd og sæl, hún átti ekki föt að klæðast og skó að ganga í, ég átti allt, hún vissi ekki hvort aftur myndi heimur hennar snúast á hvolf en ég var örugg um að eiga mér framtíð. Samt áttum við þetta sameiginlegt, að gleyma okkur í orðum merkra rithöfunda og njóta þess að taka þátt í sorgum og sigrum söguhetjanna.

Nú er þessi unga kona Íslendingur og mikið ofboðslega er ég ánægð með það. Ísland er heldur betur heppið að hafa Jasminu Crnac hér og væri það ekki stórkostlegt ef á næstu dögum opnaði ráðherra arma sína og segði við fjölskyldurnar tvær sem hér bíða milli vonar og ótta: „Velkomin heim.“

- Auglýsing -

Sjá einnig: „Næsta dag voru nágrannarnir horfnir og sáust aldrei meir“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -