Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Meira vinnur vit en strit

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Batnandi manni er best að lifa segir máltækið og það er svo sannarlega rétt. Kauði hefur lofað bót og betrun og allir í kringum hann trúa að nú komi bæði viljinn og verkið. Það eiga jú allir skilið annað tækifæri ekki satt? Nýlega steig Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, fram í fjölmiðlum og sagði að borgin ætlaði að umbylta undirbúningi framkvæmda. Þetta kom í kjölfar þess að Ásmundur Helgason, eigandi Gráa kattarins, hóf að kvarta undan framkvæmdum á Hverfisgötu. Framkvæmdum sem þegar hafa kostað lokanir og gjaldþrot fyrirtækja við götuna. En þessu ber virkilega að fagna. Hugsanlega eigum við aldrei eftir að ergja okkur á öðru braggamáli og ekki heyra af framúrkeyrslu hjá stofnunum á borð við Sorpu.

Vonandi boðar þetta umbyltingar hjá fleiri framkvæmdaaðilum en hinu opinbera. Það hefur verið plagsiður hér á landi að engar áætlanir standast nokkurn tíma. Verktakar gera tilboð í verk og virðast ævinlega vanreikna. Þeir hefja vinnu og alltaf kemur eitthvað þeim í opna skjöldu. Í stað þess að hafa borð fyrir báru og gera ráð fyrir við tilboðsgerðina að óvæntir erfiðleikar banki upp á gera menn svo naumar fjárhagsáætlanir að ekkert má út af bregða. Hafa þeir aldrei heyrt að meira vinnur vit en strit?

Við Hverfisgötu gefast veitingamenn upp eftir að gatan hefur verið sundurgrafin þremur mánuðum lengur en til stóð en hvað með einstaklinga? Fólk sem stendur uppi með undirritaða og fullkomlega löglega kaupsamninga í höndunum en verður samt að borga meira til að fá afhentar íbúðir sínar? Hópur eldri borgara var í þessum sporum nýlega og eigendur íbúða í Gerplustræti 2-4 í Mosfellsbæ hafa beðið í átján mánuði eftir afhendingu. Margir þeirra á leigumarkaði með tilheyrandi kostnaði vegna þessa dráttar á verklokum en aðrir svo heppnir að hafa fengið inni hjá ættingjum. Engin óskastaða en betri en að borga okurleigu. Nú hefur þetta fólk fengið að vita að til þess að hægt verði að klára húsið þurfa þeir að borga enn meira. Kaupsamningurinn þeirra er í raun verðlaust og marklaust plagg. Verktakinn varð gjaldþrota og óljóst hver skuldastaða framkvæmdanna er.

„Það virðist einu gilda hvort um er að ræða almenning eða einstaklinga, eina úrræðið er alltaf að halda áfram að borga og borga meira til að tapa ekki öllu því sem þegar hefur verið lagt í lönguvitleysuna.“

Nú væri fróðlegt að vita hvort verktakafyrirtæki erlendis hafi sama háttinn á. Geta þeir gert tilboð í verk og bætt síðan stöðugt við kostnaði vegna þess að þeir vanreiknuðu eða sáu ekki fyrir ákveðna verkhluta? Mega þeir draga skil á verkum von úr viti án eftirkasta eða afleiðinga? Hvað með það þegar menn fara á hausinn? Víða eru teknar út tryggingar fyrir verklokum og verkkaupar geta gengið að þeim. Eru slíkar tryggingar ekki tíðkaðar hér og sé svo hvers vegna situr venjulegt fólk alltaf uppi með skaðann? Það virðist einu gilda hvort um er að ræða almenning eða einstaklinga, eina úrræðið er alltaf að halda áfram að borga og borga meira til að tapa ekki öllu því sem þegar hefur verið lagt í lönguvitleysuna. Já, batnandi mönnum er best að lifa og ef umbylting borgarinnar boðar betri tíð og ábyrgari vinnubrögð við framkvæmdir á Íslandi ber sannarlega að fagna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -