Menningarlífið hefur tekið stakkaskiptum í faraldrinum, en erum við loksins farin að sjá líf glæðast á ný innan menningar- og listaheimsins? Og þó! Ein af mörgum afleiðingum faraldursins hefur verið takmarkað aðgengi að hinni ýmsu afþreyingu, listum og viðburðum og er fólk farið að þyrsta í aukið menningarlíf.
Það er hægt að segja að við höfum orðið fyrir nokkurs konar „menningarsjokki” í heimsfaraldrinum og þurft að aðlaga okkur breyttum heimi. Sennilega hefur það aldrei verið eins skýrt eins og nú hvað listir og skapandi greinar hafa mikla þýðingu fyrir mannlífið og þá ekki síður fyrir efnahaginn og atvinnumálin.
Skapandi greinar ýta af stað nýsköpun og glæða hagkerfið lífi, auk þess sem þær geta stuðlað að fjölmörgum öðrum leiðum til jákvæðra samfélagslegra áhrifa eins og vellíðan og bættri heilsu, menntun, þátttöku fólks o.s.frv. Vonandi verður ekki langt í það að listamenn fái aftur sitt sviðsljós, en það hefur verið erfitt að finna hvaða leið sé best að fara í heimsfaraldri þegar kemur að skapandi greinum vegna óhefðbundins vinnutíma og fjölbreytileika starfa í greininni.
Það verður spennandi að fylgjast með hvernig tekst til við að endurlífga menningarlífið í takt við nýja heimsmynd, því þó svo að ekki hafi verið hægt að fjölmenna á viðburði, kraumar listagleðin undir niðri og bíður þess að fá heyrast og sjást.