Leiðari úr 32 tbl. Vikunnar 2020
„Því meira sem ég kynnist mönnunum því vænna þykir mér um hundinn minn,“ er haft eftir Friðriki mikla Prússakeisara. Að vísu er svipuð eða nákvæmlega sama tilvitnun höfð eftir ýmsum öðrum andans manneskjum og hafa meðal annarra verið nefnd til sögu Mark Twain, Madame de Sévigné, Madame Roland, Alphonse de Lamartine, Alphonse Toussene og Thomas Carlyle. Kannski hafa þau öll reifað eitthvað þessu líkt en þegar upp er staðið skiptir kannski minnstu hver setti þessa hugsun í orð fyrstur manna. Það er nefnilega alveg víst að hún lýsir mjög vel sambandi hunds og manns, þessum þræði eða taug sem tengir saman eigandann og dýrið. Hér er auðvitað verið að segja okkur að manneskjurnar séu breyskar og ekki alltaf treystandi en að tryggð hundsins bregðist ekki.
Og hundar eru dásamlegar skepnur. Þeir gefa ótrúlega mikið af sér og hafa öðlast sess í samfélagi og hugum manna sem ekkert annað dýr hefur. Heiðrún Villa þekkir það flestum betur. Hún hefur sérhæft sig í hundaþjálfun og allt frá barnsæsku átt í einstöku sambandi við dýr. Æska hennar var lituð af alkóhólisma og erfiðum aðstæðum og hjá dýrunum fann hún skjól og öryggi. Að hennar mati eru hundar kennarar og heilarar og þeir spegla eigendur sína. Ef eitthvað er að hjá fólki kemur það fram í viðmóti og hegðun hundsins. Til þess að þjálfa hann þarf að heila eigandann og kenna honum réttu tökin.
Þetta er auðvitað rétt. Við vitum að hið sama á við um barnauppeldi. Börnin endurspegla líðan foreldranna og ástandið á heimilinu. Þau læra það sem fyrir þeim er haft, skynja um leið ef eitthvað fer úrskeiðis og drekka í sig áhrifin af líðan hinna fullorðnu. Hið sama má segja um hunda. Þeir leitast við að geðjast eigandanum en eru líka fljótir að sýna margvísleg hegðunarvandamál fái þeir ekki skýr skilaboð um hvað hann vill. Hundar gefa okkur skilyrðislausa ást, rétt eins og börnin. Þeir geta fyrirgefið ótrúlega margt en spegla líka allt það sem miður fer í lífi okkar. Heiðrún Villa segist hafa þroskast og unnið úr erfiðri reynslu í vinnu sinni með hundum.
Það er því ekki undarlegt að hún segi að hundar séu kennarar og heilarar. Þeir geti virkað sem hvati á eigandann að leita inn á við, finna og leysa úr því sem er að hjá þeim. Tilfinningarnar verði stundum eins og hvirfilbylur innra með manni og enginn ræður við slíkt náttúruafl. Eina ráðið er að leyfa storminum að ganga yfir og vinna síðan úr eyðleggingunni sem hann skilur eftir sig. Að einbeita sér að því að gefa af sér, dýri eða annarri manneskju, er besta lækningin þegar þannig stendur á.
Sjá einnig: „Það sem gerist í æsku eltir mann ansi langt“