Þriðjudagur 29. október, 2024
4.7 C
Reykjavik

Mjúkar línur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 1. tölublaði Vikunnar 2020.

Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir átti sér draum. Hún ætlaði að verða ballerína, komast að í erlendum dansskóla og dansa síðan fegurstu verk ballettsögunnar fyrir áhorfendur. Þegar líkami hennar fór að þroskast og mjúkar, ávalar línur að koma í ljós var hún fullviss um að það myndi spilla möguleikum sínum og hún fór að borða sífellt minna til að vera nógu grönn. En hvenær er manneskja grönn og hvenær horuð? Mörkin eru fljót að mást og verða óskýr þegar lífið snýst orðið um megrun. Í raun skiptir engu hvort það er draumurinn um að verða ballerína, fimleikastjarna, fyrirsæta eða bara flott kona sem rekur ungar stúlkur áfram afleiðingin er oft sú sama. Þær missa tökin og matur eða öllu heldur svelti verður að þráhyggju.

Í viðtalinu lýsir Katrín Þóra því einkar vel hvernig hungurtilfinningin var allsráðandi og allar hennar hugsanir snerust um mat. Samt gat hún ekki og mátti ekki borða. Á sama tíma og hún var að takast á við breytingar á líkama sínum var hún einnig að flytjast frá grunnskóla yfir í menntaskóla og þar voru líka gerðar aðrar kröfur. Námsmaðurinn sem skaraði fram úr í barnaskóla var kannski bara meðalnemandi þegar í framhaldsskólann var komið. Þar með hafði sá hluti af sjálfsmyndinni einnig riðlast. Katrínu Þóru fannst huggun í því að hafa þó að minnsta kosti stjórn á átinu. Hún gæti staðið sig þar þótt allt annað væri á hverfanda hveli.

Unga ballerínan var komin með anorexíu. En um leið og sjúkdómurinn náði sífellt sterkari tökum á henni hófst mikill blekkingarleikur. Hún vissi innst inni að hún væri á hættulegri braut og gerði þess vegna allt hvað hún gat til að halda þessu leyndu fyrir sínum nánustu. Það vildi henni hins vegar til happs að fjölskyldan áttaði sig á hvað var að gerast og gripið var inn í ferlið. Anorexía er flókinn sjúkdómur og margvíslegar orsakir liggja að baki. Áberandi er þó að það eru samviskusömu, metnaðarfullu og duglegu krakkarnir sem helst verða honum að bráð. Krafan um að allir líkamar séu spengilegir nær heljartökum á þeim og ef þau stunda íþróttir eða listgreinar þar sem grannur líkami er kostur skiptir þetta enn meira máli. Eitt besta andsvarið við sjúkdómum af þessu tagi væri ef samfélagsleg viðhorf breyttust. Ef ekki væru stöðugt gerðar kröfur um meiri og stærri afrek á öllum sviðum og einstaklingar fengju að njóta sín hver á sínum forsendum.

Fegurð er heillandi og ekkert undarlegt þótt mannfólk dáist að henni í hvaða myndum sem hún birtist. En fegurðin felst ekki í fullkomnun; mjúkar línur, stæltir skrokkar, búlduleit andlit, grannleitt fólk – allt hefur sinn sjarma. Þegar og ef það rennur upp fyrir okkur er stigið mikilvægt skref í átt að betra og umburðarlyndara samfélagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -