Laugardagur 28. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Múkkinn og mannskepnan

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ofstæki og hatur er ríkjandi í umræðunni á Íslandi. Slúðurberar hegða sér eins og leyniskyttur. Þeir læðast um í myrkrinu og hvísla nöfnum þeirra sem fordæma skal. Allt sem heitir lög og réttur er látið liggja á milli hluta. Fordæming einstaklinga er á þeim eina grunni að einhliða ásökun er borin fram. Hvíslið verður á almannavitorði og sá sem fyrir því verður er alræmdur og verður sniðgenginn í samfélaginu. Múgurinn ræðst á þann sem hvíslað er um og hakkar hann í sig. Á fjósbitanum sitja púkarnir og skrækja af gleði yfir öllum þeim sem hvíslið nær að taka niður.

Í mannheimum kemur hvíslið í stað fiskiúrgangsins

Fyrir áratugum síðan var sjómaður sem hafði af því yndi að maka blóði og fisklifur á fýl, öðru nafni múkka. Fuglinn sá er þekktur fyrir að geta ekki flogið ef hann sér ekki sjóinn. Hann á það til að missa flugið yfir bátum og skipum og lenda þá bjargarlaus á þilfarinu. Flestir hjálpuðu fuglinum að komast aftur í sjóinn. En svo var það þessi sem glímdi við þá ónáttúru að vilja sjá harmleik á hafinu. Hann makaði á fuglinn fiskislógi og henti honum svo fyrir borð og horfði á þegar hinir múkkarnir réðust á bróður sinn og bókstaflega átu hann lifandi. Þetta heitir kvalalosti og er fordæmt af öllu velþenkjandi fólki.

Í mannheimum kemur hvíslið í stað fiskiúrgangsins. Einstaklingurinn er ataður auri með einföldu hvísli. Engin kæra, engin ákæra og engin réttarhöld. Aðeins dómstóll götunnar. Dómur er kveðinn upp og allir þeir sem voga sér að lyfta hönd til varnar hinum fordæmda eru fordæmdir. Öfgarnar eru allsráðandi og allt er leyfilegt til að berja niður þá sem liggja undir grun um að hafa brotið á eða misboðið einhverjum kynferðislega. Svona er samfélagið okkar.

Við höfum mörg dæmi um það í dag að menn eru úthrópaðir og sniðgengnir eftir að hafa verið bornir sökum sem þó hafa ekki verið sannaðar. Mörg dæmi eru um að meintir gerendur séu sviptir lifibrauði sínu, án þess að þeir fái að verja sig. Stundum hafa meint fórnarlömb þeirra stigið fram og kært. Það er eðlileg framvinda og virðingarvert að fólk stígi fram í dagsljósið með sakir eða ávirðingar. Önnur mál virðast vera þannig að menn eru settir á kaldan klaka þótt ekki séu sakir þeirra sannaðar. Þá segir púkinn á fjósbitanum að einungis tvö prósent ljúgi til um sakir, hvernig svo sem sú tala er fundin. Það sé nauðsynlegur fórnarkostnaður að tveimur einstaklingum af hverjum 100 sé saklausum refsað harðlega með fordæmingu samfélagsins.

Það er fullkomlega eðlilegt að taka af hörku á kynferðisbrotum af öllu tagi. Það ber að fordæma barnaníðinga og refsa þeim með öllum tiltækum, lagalegum úrræðum. En það er lykilatriði að sekt fólks sé sönnuð og refsingin komi síðan til framkvæmda. Við megum ekki fallast á það að púkarnir á fjósbitum samfélagsins úthluti refsingu af geðþótta.

Stundum eru mál þannig vaxin að ekki tekst að sanna sakir. Þjófar sleppa, morðingjar sleppa og kynferðisbrotamenn sleppa. Það er nákvæmlega ekkert við því að gera annað en að efla rannsóknir og herða á lagarammanum. Allir eru saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. Á hinn bóginn er sjálfsagt að hjálpa eins og kostur er þeim sem eiga um sárt að binda. Fólk sem segir frá nauðgun eða misnotkun af slíku tagi á að fá hjálp frá samfélaginu, burtséð frá því hvort tekst að sanna sök. Aftökur án dóms og laga verða að tilheyra myrkri fortíð. Það er réttur hinna fordæmdu að málum þeirra ljúki með sekt eða sýknu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -