Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Mun hatrið sigra?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á Vesturlöndum stigmagnast nú áhyggjur af uppgangi öfgahópa sem kynda undir hatursorðræðu og hvetja til ofbeldis einkum gegn minnihlutahópum. Bandaríska alríkislögreglan hefur lýst yfir áhyggjum af ástandinu. Evrópulögreglan líka. Og eftir voðaverknaðinn í Christchurch á Nýja-Sjálandi, þar sem öfgaþjóðernissinni myrti 50 múslima með köldu blóði og særði aðra 50, hafa stjórnvöld í Ástralíu í hyggju að setja á lög sem gera samfélagsmiðla ábyrga fyrir efni sem birtist frá öfgasamtökum á miðlum þeirra. Með setningu laganna vonast þau til að koma í veg fyrir að hægt sé að beita samfélagsmiðlum til að hvetja fólk til ódæðisverka.

Í ljósi þessa skýtur það skökku við að nú skuli liggja fyrir Alþingi Íslands frumvarp sem miðar að því að þrengja ákvæði í hegningarlögum um hatursorðræðu. Breyting sem hefur þær afleiðingar að erfiðara verður að dæma menn fyrir hatursorðræðu í garð annarra nema slík tjáning þyki beinlínis „til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“. Sem m.ö.o. hefur þær afleiðingar að ekki verður lengur refsivert að lítillækka og níða minnihlutahópa á Íslandi.

Í því umróti og þeirri óvissu sem hefur umlukið Ísland og helstu atvinnugreinar þjóðarinnar síðustu vikur og mánuði má segja að þetta mál hafi ekki farið sérstaklega hátt í almennri umræðu, nánast fallið undir radarinn, ef svo má að orði komast. Ýmis mannréttindasamtök hafa þó sett sig upp á móti frumvarpinu og bent á hvernig breytingin á umræddum lögum muni verða til þess að vega að öryggi þeirra hópa sem ákvæði laganna er einmitt ætlað að vernda. Að með þessari breytingu sé í raun verið að gefa veiðileyfi á hópa sem eru í viðkvæmri stöðu í samfélaginu.

Þá klóra sér ýmsir í hausnum yfir því að frumvarp sem leyfir aukna haturstjáningu skuli dúkka upp í kjölfar þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft fjölda hatursglæpa til rannsóknar.

„Í ljósi þessa skýtur það skökku við að nú skuli liggja fyrir Alþingi Íslands frumvarp sem miðar að því að þrengja ákvæði í hegningarlögum um hatursorðræðu.“

En furðulegast þykir þó sumum sú staðreynd að þetta frumvarp skuli koma úr ranni núverandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórnar sem segist ekki aðeins hafa mannréttindi í hávegum heldur tekur fram í eigin stjórnarsáttmála að hún ætli að setja Ísland í fararbrodd þegar kemur að réttindum ýmissa minnihlutahópa. Hvernig þrenging ákvæðis um hatursorðræðu kemur heim og saman við þetta markmið hennar er nefnilega ekki bara erfitt að sjá, það er með öllu óskiljanlegt. Enda gefur augaleið að mannréttindi og svigrúm til hatursorðræðu eiga enga samleið.

Það verður því áhugavert að sjá hvernig Allsherjar- og menntamálanefnd, sem hefur frumvarpið nú til skoðunar, bregst við. Hvort hún komi til með hallast að þeim tvískinnungshætti sem því miður virðist hafa loðað við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli, eða hafni frumvarpinu og sýni þar með að vilji íslenskra stjórnmálamanna til að virða mannréttindi er annað og meira en orðin tóm.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -