Sunnudagur 19. janúar, 2025
0.7 C
Reykjavik

Náttúrunnar vegna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur/ Henry Alexander Henrysson, heimspekingur

Það þyrmdi aðeins yfir mig á síðastliðinn laugardag. Ég sat sem gestur á aðalfundi Landverndar og horfði á dagskrá fundarins sem varpað var upp á skjá. Þar stóð nafn mitt og að ég myndi halda hugvekju. Fundurinn var ljómandi skemmtilegur og það þyrmdi svo sannarlega ekki yfir mig vegna hans. Fjarri því. Það sem truflaði mig var hvernig orðið hugvekja tengist í huga mínum því þegar – í minningunni – karlmenn við aldur héldu manni frá því að horfa á Húsið á sléttunni. Sunnudagshugvekjan var ekki vinsælasti dagskrárliðurinn fyrir ungt fólk í þá daga. Sú hugsun læddist að mér að ég væri kannski kominn í það hlutverk að halda fólki frá öllu áhugaverða efninu. Í minningunni var það hlutverk hugvekjunnar.

Nú veit ég lítið um hvernig mér tókst til á laugardaginn, en ég reyndi að nota tækifærið fyrst mér var boðið að vera með hugvekju og skilja viðstadda eftir með tiltekið verkefni í huga sér. Sumt sem ég sagði hafði komið fram áður í pistli sem ég skrifaði fyrir ársrit Landverndar og vildi ég gjarnan prjóna örlítið við það sem þar hafði komið fram.

Á undanförnum árum hefur hér á Íslandi, sem betur fer, verið aukinn þungi í umræðunni um hvort vernda eigi land þrátt fyrir að aðrir hagsmunir kalli á nýtingu þess. Hvaða rök hafa komið fram til stuðnings þess að verndarsjónarmið ættu að hafa betur? Hér á Íslandi hef ég fyrst og fremst heyrt rök af tvennu tagi: Að okkur beri að geyma landið fyrir komandi kynslóðir og að verðmæti landsins sé meira ósnortið. Varðandi þetta seinna atriði er oft gripið til þess að tengja það við mögulegar tekjur af ferðamönnum, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir.

Hér hef ég lítið rými til að fara yfir það hvers vegna ég tel að slík rök – sem ég vil kalla mannhverf rök – eigi ekki vera þungamiðja náttúrverndar. Maður getur ekki fært rök fyrir réttindum eins fyrirbæris með því að útskýra ýtrustu hagsmuni annars fyrirbæris. Það sem ég tel að hljóti að þurfa að koma til er sýn sem horfir á náttúrulegar heildir sem handhafa einhvers konar réttinda – ekki ósvipað því hvernig dýr hafa fengið meiri siðferðilegan sess á undanförnum árum og dýravelferð hefur vaxið fiskur um hrygg (þótt vissulega sé hún skammt á veg komin). Vandamálið er – sem aftur var aðalatriði máls mín á aðalfundinum – hvernig, og í ljósi hvers, við getum sagt að tiltekið fyrirbæri sé náttúruleg heild sem á sér einhvern rétt. Dýr eru augljóslega slíkar heildir en hvað með öll þau ótal fyrirbæri sem verndarumræða hefur farið fram um á undaförnum árum? Er foss slík heild, getur skógur talist það, er hálendi Íslands stök náttúruleg heild?

Hugsum okkur landsvæði eða náttúrulegt fyrirbæri sem ágreiningur er uppi um hvort vernda eigi. Og ímyndum okkur að almennt samþykki sé fyrir því að mannhverf rök gangi ekki og betra sé að láta umræðuna snúast um að tiltekið fyrirbæri eigi sér tilverurétt. Hver ákveður þá hvaða fyrirbæri telst vera slík náttúruleg heild? Duga hér menningarleg rök? Skiptir máli hvort þau tengjast þjóðtrú eða að um þau hafi verið samin kvæði? Eða skiptir öllu hvort náttúruunnendur hafi tekið svæði upp á sína arma og birt af þeim aðlaðandi myndir? Er kannski málið hvort mögulegar framkvæmdir misbjóði okkur, eru það góð rök að við finnum til með landinu?

- Auglýsing -

Mér þykir ofangreindar leiðir um menningu, fegurð og tilfinningar færa okkur í tiltekna átt sem ég er nokkuð efins um. Til að mynda finnst mér við ennþá föst í nokkuð mannhverfu viðhorfi. Og að lokum endum við með sama vandamál og áður. Smekkur okkar og hagsmunir ráða þá í raun öllu um hvað okkur finnst þess virði að vernda.

Hugvekja mín átti að skilja viðstadda eftir með tiltekið verkefni. Hvernig getum við í framtíðinni unnið rökræður um hvaða náttúrulegu fyrirbæri okkur ber að vernda? Þá á ég við á forsendum fyrirbæranna sjálfra en ekki í ljósi þess hvernig við deilum hagsmunum með tilvist þeirra? Í stuttu máli held ég að það sé einfaldlega verkefni náttúruverndar næstu ára að skapa þann fræðilega grundvöll sem þarf til þess að skapa, þróa og fága slíkar rökfærslur.

Persónulega held ég að fyrirmyndina sé að finna í þeirri náttúruspeki sem kom fram við upphaf vestrænnar hugsunar. Þá dugðu goðsögulegar skýringar fólki ekki lengur og það leyfði sér þess í stað að fylgjast með náttúrinni sem því kraftaverki sem hún er. Uppgufun úr hafi og innyfli froska voru ævintýri fyrir hvern þann sem leyfði sér að skoða það sem fyrir augu bar. Fyrsta spurningin var ávallt hvað af þessu er raunverulegt, hver er innsti kjarni tiltekins fyrirbæris? Löngu seinna töpuðum við þessari fræðilegu nálgun. Með því að endurvekja slíkan hugsunarhátt getum við kannski farið að flokka það sem fyrir augu ber og þannig ákveða hvaða fyrirbæri það eru sem ekki ber að veita vernd og virðingu.

- Auglýsing -

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -