Föstudagur 24. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Óður til hversdagsleikans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir / Sólveigu Jónsdóttur

Mörg jólalög flokkast undir það sem á fagmáli kallast steiktar tónsmíðar. Ég hef átt í snörpum deilum sem jafnan hafa endað með handalögmálum um hvort textinn er „upp á stól stendur mín kanna“ eða „upp á hól stend ég og kanna.“ Niðurstaðan úr þessu er að sjálfsögðu gjörsamlega augljós.

Það fer ekki vel fyrir Andrési, sem greinilega er með athyglisbrest, og hlýtur þau örlög að verða einhverskonar mannfórn. Og talandi um takmarkaða athygli þá hef ég aldrei náð því hvað það er nákvæmlega sem Helgi Björnsson ekki nennir í aðdraganda jóla. Mér detta í hug svona 800 hlutir sem ég nenni ekki að gera í desember en ég hef ekki heyrt hann nefna einn einasta þeirra.

Flestir eru sammála um að hjól heyri til sumargjafa. Jólahjól er þar af leiðandi ákveðin árstíðarskekkja þó svo að ég neyðist til að viðurkenna að þetta er sú melódía sem þvingar mig í stuð þegar allt er að bresta á, ég sveipa mig í silfurpappír og læt mér líka það þegar Hilmarsson hækkar sig.

Mér finnast jólin alveg fín, sérstaklega eftir að börn komu til sögunnar. En ég er ekki jólabarn. Ég er hversdagsleikabarn. Mér finnst hversdagsleikinn frábær. Ég eiginlega elska hann í öllum sínum fyrirsjáanlega, undursamlega einfaldleika. En það vantar sárlega lög um hversdagsleikann. Svona alvöru, ekkert-að-frétta hversdagsleika. Það er búið að semja nóg um ástina og það að finna sjálfan sig.

Mig langar að láta leika fyrir mig lög um hvað það er gaman að vinna 100 krónur í Happaþrennu. Að skríða upp í rúm með brakandi hreinum sængurfötum. Fyrsta sopann af fyrsta kaffibolla dagsins. Um augnablikið þegar þú uppgötvar að það er til ein aukarúlla af klósettpappír svo þú sleppur við að þurfa að nota gamlar afmælisservíettur með Transformers fram að næstu búðarferð.

- Auglýsing -

Jólin koma og jólin fara. Ég sendi því landsmönnum öllum hugheilar óskir um gleðilegan hversdagsleika.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -