Föstudagur 22. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Öskrin, gráturinn og afneitunin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 36. tölublaði Mannlífs

 

Í bókinni um hvarf Madeleine McCann lýsir Kate McCann þeirri angist sem hún upplifði þegar hún uppgötvaði að dóttur hennar hafði verið rænt. Það er varla margt verra í heiminum en að vita ekki örlög barnsins síns og ég man enn þá tilfinningu sem fór um mig við lesturinn: ískaldur hrollur. Enn átakanlegra var þó að lesa um þær hugsanir sem sóttu á McCann í kjölfarið; óumflýjanlegar hugrenningar um grimmar fullorðinshendur fara um lítinn líkama fjögurra ára dóttur hennar.

Í 36. tölublaði Mannlífs er finna umfjöllun um barnaníðsefni. Hún byggir að stórum hluta á fréttum New York Times um hið gríðarmikla magn myndefnis á Netinu sem sýnir börn vera beitt kynferðislegu ofbeldi og pyntingum. Á ritstjórn miðilsins bandaríska hefur sú ákvörðun verið tekin að taka dæmi um þann hrylling sem ber fyrir augu þeirra sem berjast gegn óþverranum. Af tillitssemi við lesendur Mannlífs ákvað undirrituð að sleppa því að endurprenta þau, enda mögulega hægt að vekja tilætluð áhrif með því að vitna til orða þeirra sem sáu efnið: „Aðalhljóðið sem heyrist er barnið að öskra og gráta.“

En þarna liggur hundurinn grafinn. Eiga fjölmiðlar að veigra sér við að lýsa því ógeðslega ofbeldi sem fullorðið fólk beitir börn? Í dómum innanlands, og þar af leiðandi umfjöllun fjölmiðla, eru notuð snyrtilegar lýsingar; talað um káf og getnaðarlim sem var stungið í leggöng og svo framvegis. Ég þori að fullyrða að það sækir sjaldnast að mönnum kaldur hrollur við lestur íslenskra frétta um kynferðisbrot. Þær fjalla ekki um öskrin og tárin. Þær ná ekki að koma því til skila hvað raunverulega á sér stað þegar grimmar hendur fara um litla líkama.

Í umfjöllun New York Times er vikið að því sem ég kalla samfélagslega afneitun; þeirri staðreynd að við viljum helst ekki vita af þeirri hryllilegu meðferð sem sum börn sæta. Við heyrum eða lesum ljótar sögur, lokum augunum og hristum hausinn, og föðmum svo börnin okkar. Við viljum ekki hugsa til þess að það séu til börn sem upplifa aldrei ást og umhyggju. Að það séu til börn sem eru beitt ógeðslegu ofbeldi. Rænd sakleysinu. Og oftar en ekki af fólkinu sem stendur þeim næst. Fólkinu sem á að elska þau og vernda.

Það er auðvelt að ljúga því að sjálfum sér að þetta komi okkur ekki við hér á Íslandi. Svona hryllingur eigi sér ekki stað hér. „Á Íslandi misþyrmir enginn tveggja ára barni!“ En við megum ekki leyfa okkur það, ef ekki nema vegna þess að neytendur barnaníðsefnis eru alls staðar. Þar er Ísland engin undantekning. Á Íslandi er eftirspurn, sem aðrir koma til móts við með því að beita börn kynferðisofbeldi og pyntingum. Og hefur þú lesið frétt um íslenskan kynferðisbrotamann sem tók myndir af fórnarlambi sínu? Hefur þú velt því fyrir þér að í myrkum afkimum Internetsins hafi þeim verið skipt út fyrir myndir af öðru fórnarlambi?

- Auglýsing -

Fjölmiðlar hafa tekið ákvörðun um að hætta að tala um hlýnun jarðar; nú tölum við um hamfarahlýnun. Við tölum um kynleiðréttingu í stað kynskiptingar. Við lærum og þróumst. Kannski er kominn tími til að hætta að hlífa lesendum við því ofbeldi sem börn eru beitt. Kannski er kominn tími til að hlusta á öskrin og gráturinn. Minna hefur legið við.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -