Davíð Már Sigurðsson skrifar
Skólamál hafa verið á dagskrá, eða svona hér um bil. Þau fá yfirleitt sviðsljós í kringum kjarabaráttu kennara. Eitt af helstu bitbeinunum er hvað þetta er ofboðslega dýrt. Hlutir sem hafa borið á góma í því samhengi tengjast grunnskólunum. Bent hefur verið á lækkun kennsluskyldu, yfirgengilegum undirbúningstíma, fjölda kennara á hvern nemanda og allur sá djass….
Kennsla og undirbúningur samofin. Óundirbúinn kennari kennir ekki neitt. Hann er í mesta lagi í yfirsetu og þá getum við alveg eins kallað það barnapössun. Væri kannski best að einkavæða alveg og þá geta þeir sem vilja bara barnapössun, afþreyingu eða bara geymslupláss borgað minna. Þá myndu þeir sem vilja menntun fyrir sín börn borgað meira. Það væri samt ansi fljótt að vinda upp á sig. Auka stéttaskiptingu og fleira í þeim dúr.
Aftur á móti er rétt að of mikill tími kennara er varið í eitthvað annað en að kenna. Aukinn tími sem felst í agastjórnun, foreldrasamskiptum, teymisfundum yfirferð verkefna, námsefnisgerð og skráningu svona til að nefna það helsta. Það hlýtur að skaða framleiðni ef við gefum okkur það að framleiðni jafngildi því að kenna og mennta börn. Það má setja spurningarmerki við þær kröfur um þjónustu sem skólakerfið á að veita því aukið þjónustustig veldur auknum kostnaði. Þessu þarf fólk að átta sig á. Myndi hið opinbera þá vilja draga úr þjónustu og láta þá sem vilja hana
greiða aukalega, og kennarar sjái þá eingöngu um kennslu og undirbúning. Þar mætti spara.
Fjölgun starfsfólks innan skólans, og þá auknum launakostnaði má einnig vísa til rekstraraðila. Eftir að sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna jókst þessi fjöldi. Er það ekki eins og að skjóta sig í fótinn og kenna byssunni um. Skólaliðar, stuðningfulltrúar, skólasálfræðingar, þroskaþjálfar, námsráðgjafar, deildarstjórar, húsverðir, kokkar, túlkar og talmeinafræðingar kenna ekki, þó þeir sinni mikilvægum skyldum innan veggja skólans. Þessi fjölgun starfsfólks virðist hafa byrjað stuttu eftir að sveitarfélögin tóku við skipinu. Þá fyrst í kjölfar einsetningar skólanna, og síðar með tilkomu skóla án aðgreiningar. Ef til vill væri hægt að spara með því að tvísetja skóla aftur eða útvista annarri þjónustu en kennslu til einkaaðila. Þjónustuver í Indlandi sem sæi um samskipti?
Þá er list-og verkgreinakennslan frek á mannafla. Þar getur vissulega komið upp sú staða að inni í tíma séu færri en 15, en hvað ætlarðu að koma mörgum inn í smíða- eða heimilisfræðistofu? Mætti spara með því að hætta alfarið að bjóða upp á eitthvað annað en bóknám, það er jú lang ódýrasta rekstrarformið. Okkur vantar samt fleiri iðnaðarmenn, á að halda áfram að flytja þá bara inn?
Kennsluskyldan hefur á vissan hátt dregist saman. Núna hafa allir skyldu upp á 26 kennslustundir. Þegar nánar er skoðað þá fólst hagræðing í þessu nýja fyrirkomulagi. Samtímis lækkun kennsluskyldu var aldursafsláttur felldur úr gildi, sem sparaði launakostnað til eldri kennara með lægri kennsluskyldu. Það hlýtur að teljast vel sloppið í ljósi þess hve stór hluti kennara við störf er kominn til ára sinna, og væri þá að kenna mun minna en ella. Það liggur í augum uppi að þá þyrfti að ráða inn fleiri kennara, eða greiða meiri yfirvinnu, sem eykur launakostnað.
Mikill fjöldi kennara eru að detta á eftirlaun. Nýliðun stéttarinnar hefur einhverjum ástæðum verið í lamasessi síðasta áratug og gott betur. Það er áhyggjuefni því ef framboð á vinnuafli er dapurt er ekki samkeppni um störf kennara. Það leiðir af sér að fyrirtækin, eða skólarnir í þessu samhengi geta ekki valið um hæfustu umsækjendurna, heldur eru takmarkaðir við þá örfáu sem sækja um. Núverandi fyrirkomulag er ekki til þess fallið að þeir hæfustu veljist úr. Það býr til álag á þá sem fyrir eru, sem gæti valdið meiri veikindum. Og það kostar líka.
Höfundur er grunnskólakennari