Laugardagur 7. september, 2024
9.7 C
Reykjavik

Að forðast raunveruleikann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það birtist á laugardaginn var í Morgunblaðinu ritstjórnargrein undir fyrirsögninni: Lærdómur plágunnar.

Boðskapur greinarinnar er sá að við þurfum að leggja meira á okkur við að læra af Covid-19  faraldrinum og tek ég undir hann heilshugar.  Ég hef margsinnis hvatt stjórnvöld til þess að setja á fót farsóttarstofnun sem hefði því hlutverki að gegna að rýna í reynsluna af Covid-19 og farsóttum fyrri tíma og undirbúa okkur undir þær sem hljóta að koma. Kostnaður við slíka stofnun væri að öllum líkindum mikill en þó hverfandi miðað við þann, sem hlytist af því að verða að spinna viðbrögð við næsta faraldri af fingrum fram. Við urðum að gera það í Covid-19 og þótt miklu fleira hafi tekist vel, en höfundur ritstjórnargreinarinnar virðist halda, var margt sem við hefðum gert betur ef innviðir hefðu verið til staðar.

Tildrög ritstjórnargreinarinnar var fyrirlestur sem Matt nokkur Ridley flutti upp í Háskóla Íslands um Covid-19 faraldurinn og ritstjórinn telur að hafi verið afar fróðlegur. Ekki ætla ég að halda öðru fram enda komst ég ekki á fyrirlesturinn. Hitt er þó ljóst á ritstjórnargreininni að Matt virðist hafa lagt áherslu á kenningar um uppruna veirunnar sem eru ekki vísindalegar vegna þess að það er ekki hægt að afsanna þær. Þær eru einfaldlega tilgátur sem eru studdar mjög fátæklegum gögnum ef nokkrum.

Þær eru hins vegar, sumar þeirra býsna skemmtilegar og skyldi engan furða, vegna þess að þegar maður hefur engin gögn til þess að vísa veginn hefur maður frelsi til þess að fara í hvaða átt sem manni sýnist.

Svo er það hitt að við vitum ekki gjörla um uppruna einnar einustu veiru sem hefur lagst á menn og valdið faröldrum meðal annars vegna þess að veirur verða aldrei til í eitt skiptið fyrir öll.

Veirur halda áfram að endurskapast af völdum stökkbreytinga í erfðamengi þeirra og vals af hálfu umhverfisins sem í þessu tilfelli er allt sem gefur að líta í líkama mannsins. Þess vegna er það ekki furðulegt að vísindamenn sýni kenningum um uppruna veirunnar lítinn áhuga, þær eru ekki vísindalegar vegna þess að það er ekki hægt að afsanna þær.

- Auglýsing -

Í bók sinni Ákvarðað (Determined) setur Robert Sapolski fram þá kenningu að allt sem er í heiminum og allt sem gerist í heiminum eigi rætur sínar í öðru sem sé til staðar eða hafi verið eða sé að gerast eða hafi verið að gerast.

Samkvæmt þessari kenningu ættu að vera orsakatengsl milli litar fífilsins í garðinum mínum og stjórnmálaskoðana Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

Til þess að geta afsannað þessa kenningu þyrftum við að hafa gögn um allt sem er og allt sem hefur verið í heiminum og öflun slíkra gagna er langt utan seilingar og þess vegna er ekki hægt afsanna kenninguna.

- Auglýsing -

Þar af leiðandi fjallar þessi 500 blaðsíðna bók eftir frægan vísindamann ekki um vísindalega kenningu heldur skoðun sem er að öllum líkindum rétt en við fáum sjáfsagt aldrei að vita með vissu hvort svo sé.

Kenningar um uppruna Covid-19 er ekki hægt að afsanna vegna þess að stjórnvöld í Kína meina mönnum aðgang að þeim gögnum sem hægt væri að nýta við tilraunir til þess að afsanna þær. Þar af leiðandi hafa þær eins og stendur ekkert með vísindi að gera. Kínversk stjórnvöld haga sér gjarnan þannig að það er ógerlegt að spá fyrir um það hvers vegna þau veita ekki aðgang að þessum gögnum og vafasamt að draga þá ályktun að það sé vegna þess að gögnin bendi til þess að veiran eigi einhverjar rætur í kínverskri rannsóknarstofu.

Alræðisvald kínverska kommúnistaflokksins er ógeðfellt og illvirki hans mörg og ljót en Covid-19 faraldurinn er að öllum líkindum ekki eitt af þeim.

Það er hins vegar ljóst af lestri greinarinnar að ritstjórinn hikar ekki við að setja fram kenningar um faraldsfræði og heilbrigðisþjónustu á tímum Covid. Hann segir:

„Meðan á faraldrinum stóð komu ýmsar brotalamir í heilbrigðiskerfinu í ljós, þó fæstir vildu hafa orð á því  og hafi ekki gert síðan. Jafnvel einföld og samræmd söfnun tölfræði um greiningar, veikindi, sjúkrahúsinnlagnir, gjörgæslu og dauðdaga reyndist afar brotakennd“

Ef við föllumst á þá skilgreiningu að kenning sé eingöngu vísindaleg ef hægt er að afsanna hana og allar kenningar sem hægt sé að afsanna séu vísindalegar þá er þessi kenning ritstjórans vísindaleg vegna þess að það er auðvelt að afsanna hana.

Heilbrigðiskerfið okkar sem var búið að hökta í hálfgerðum lamasessi um nokkurt skeið mætti þeim áskorunum sem fylgdu faraldrinum af myndarskap. Embætti sóttvarnarlæknis aflaði kerfisbundið upplýsinga í rauntíma um greiningar, veikindi, sjúkrahúsinnlagnir, gjörgæslu og andlát. Þessar upplýsingar voru notaðar til þess að draga ályktanir um útbreiðslu veirunnar og veikinda sem voru síðan forsenda sóttvarnaraðgerða.

Þessi skráning var nákvæmari en annars staðar í heiminum og fól meðal annars í sér raðir níturbasa í erfðamengi veirunnar úr öllum sem greindust sem bauð upp á að draga ályktanir um það hvaðan veiran barst í einstaklinga og hvernig veiran stökkbreyttist með tímanum. Hvergi annars staðar í heiminum var veiran raðgreind að þessu marki. Það var einnig meiri skimun eftir veirunni meðal einkennalausra á Íslandi en í nokkru öðru landi í heiminum.

Öllum þessum margvíslegu gögnum var komið fyrir á þann máta að það var hægt að nýta þau saman og samtímis til þess að fylgjast með og bregðast við. Þessi gögn voru einnig notuð til þess að skrifa fyrstu greinarnar sem lýstu faraldsfræði sjúkdómsins í ljósi raða níturbasa í erfðamengi veirunnar og mótefnasvari gegn henni og birtust í virtasta læknisfræðitímariti heims.

Landspítalinn annaðist af prýði þá sem þurftu á innlögn að halda og opnaði göngudeild sem sinnti þeim sem voru minna veikir og heilsugæslan skipulagði ótrúlega bólusetningarherferð.

Eitt af því sem lagði af mörkum til þess að heilbrigðiskerfið reis undir væntingum er að Íslensk erfðagreining var um tíma endurskilgreind sem partur af heilbrigðiskerfinu og gat að miklu leyti séð um skimun, greiningu og raðgreiningu veirunnar og hugbúnaðarkerfi til þess að halda utan um mikið af þeim gögnum sem urðu til.

Eitt af því sem ég held að verði nauðsynlegur partur af viðbrögðum okkar við faröldrum framtíðarinnar er að faraldsfræðistofnun þegar hún er komin á legg geti kvatt til starfa alla þá aðila í samfélaginu sem gætu lagt af mörkum til þess að verja það.

Ég held að með þessum orðum sé ég búinn að afsanna kenningu ritstjórans um brotalamir heilbrigðiskerfisins á tímum Covid.

Ég á hinn bóginn algjörlega sammála honum um að við verðum leggjast undir feld og grafa eins djúpt og við getum ofan í þau gögn sem urðu til meðan á faraldrinum stóð, ekki bara um veiruna og sjúkdóminn sjálfan og viðbrögðin við þeim heldur líka afleiðingar viðbragðanna. Og síðan hitt að raunveruleikinn er oftast ósveigjanlegur og þrjóskur og þess vegna er skemmtilegast að setja saman kenningar sem verða ekki mátaðar við hann.

Kannski er það þess vegna sem bækurnar hans Matt Ridley eru svona skemmtilegar og seljast vel.

Kári Stefánsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -