Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Af ást, sjónleysi og óskilgreindri, slímugri tilfinningu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Um daginn kveikti ég á sjónvarpinu og setti á þátt á Netflix sem ég hafði verið byrjuð að horfa á. Ég dró kærastann með í áhorfið undir því yfirskini að við gætum horft á þetta rétt á meðan við gerðum okkur andlega reiðubúin fyrir stórmynd kvöldsins. Þetta væri skemmtiefni, sjáðu til –  við gætum hlegið að þessu saman.

Fljótlega kom í ljós að kærastanum var ekki hlátur í huga. Reyndar sagði hann að aulahrollurinn og ógeðstilfinningin væri svo sterk að það væri ómögulegt að hafa gaman af þessu. Ég skemmti mér hins vegar konunglega við að horfa á hann krullast upp í sófanum, öskra annað slagið upp yfir sig og framkalla ýmis svipbrigði sem gátu einungis lýst einhverri blöndu af vanþóknun og klígju.

Þátturinn sem um ræðir er önnur þáttaröð af stefnumótaþáttunum Love is blind, sem nýlega kom á Netflix til þess að fylgja eftir gífurlegum vinsældum fyrri þáttaraðarinnar. Ef sú þáttaröð framkallaði hroll, hysterísk hlátursköst og einhverja óskilgreinda, slímuga tilfinningu þá get ég staðfest að þið hafið ekkert séð enn – það er að segja ef þið eruð ekki byrjuð á þeirri nýju.

Það sem fær mig til að horfa á þetta fyrirbæri er einhver blanda af forvitni, félagsfræðilegum áhuga og svo þessu klassíska raunveruleikasjónvarps-syndrómi; að sogast inn í atburðarás þar sem „venjulegt fólk“ (oftast ekkert svo ægilega venjulegt, en fer eflaust eftir mælikvarða) tekur þátt í einhvers konar tilraun og ber um leið líf sitt, sjálf og tilfinningar á borð fyrir alheiminn að sjá. Það er eitthvað svo ótrúlega sturlað.

Svo kann ég ágætlega að meta það að þátttakendur í Love is Blind eru ekki allir á aldrinum 20 til 24 ára. Þarna eru flestir í kringum þrítugt, sumir yfir og aðrir undir. Þarna er því einhver von til að allavega sumir þátttakendur hafi lifað eitthvað, verið í samböndum áður og viti svona nokkurn veginn hverju þeir leita að. Einhver von sagði ég – ekki að það væri tryggt. Enda þarf það líklega ekki að koma á óvart að sumir þarna virðast ekki hafa hugmynd um hvað sambönd eru og lifa í einhvers konar ævintýraheimi, eða hafa kannski bara of mikinn áhuga á sjálfum sér til þess að tilfinningar, hugsanir og líðan annarra sé að taka of mikið pláss í kollinum á þeim.

Þótt ekki verði annað sagt en að fólkið í þættinum falli að bandarískum fegurðarstöðlum, er það þó að vissu leyti hressandi að þarna falla ekki allir líkamar í sama mótið. Það sem í mínu tilfelli dregur mig þó helst að þættinum er þessi óvenjulega, félagsfræðilega og tilraunakennda uppsetning. Dögum saman eiga þátttakendur einungis samskipti í gegnum vegg – þau fá ekki sjá hvert annað berum augum fyrr en tilvonandi makar hafa þegar læst sér saman og gefið hin og þessi loforðin um ódauðlega ást, tryggð að eilífu, börn, buru og svo framvegis. Eftir það fá þau mánuð til þess að gera upp við sig hvort gengið verði upp að altarinu og hin sykursætu orð „I do“ falli af vörum. Hvað gæti klikkað?

- Auglýsing -

Ég er í eðli mínu ef til vill með of svart hjarta, en ég fæ mig eiginlega ekki til þess að trúa á ást sem kviknar yfir nokkurra daga tímabil í gegnum vegg. Nú þarf ég auðvitað strax að viðurkenna að vissulega hafa tvenn hjón úr fyrri þáttaröðinni haldist saman fram til dagsins í dag – svo ekki er þetta alveg vonlaust. Og eins og áður sagði er tilraunin í þessu, félagsfræðin, virkilega áhugaverð.

En skemmtilegast er líklega að setja þáttinn á, kærastanum að óvörum, og fylgjast með honum krullast upp úr aumingjahrolli þar til ég þarf að strauja hann til að koma honum í samt lag.

 

- Auglýsing -

Þessi pistill birtist í nýjasta helgarblaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -