Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Af brotum og bótum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allt frá vormánuðum þessa árs hefur þriðja MeToo-bylgjan skekið samfélagið og umræðan er oft og tíðum hatrömm. Ýmsir hafa átt erfitt með að kyngja því þegar þjóðþekktir einstaklingar; menn sem margir voru ef til vill með á einhvers konar stalli, hafa verið sakaðir um kynferðisbrot.

Einhvers staðar á leiðinni bárust bætur til brotaþola í tal og síðan þá hefur mátt merkja ýmsar rangfærslur á sveimi hvað þær varðar. Stundum virðist ákveðnum einstaklingum þykja handtækt að nota þá staðreynd að einhver hafi farið fram á bætur vegna meints brots til þess að gera viðkomandi tortryggilegan.

Háværastar urðu þessar raddir líklega þegar í ljós kom að fótboltamaður nokkur í karlalandsliðinu hafði verið sakaður um ofbeldisbrot gegn tveimur ungum konum árið 2017. Þær höfðu kært hann, en málinu var síðan til lykta leitt með sáttum þannig að hann greiddi hvorri um sig eina og hálfa milljón í skaðabætur, auk þess að leggja þrjár milljónir inn á Stígamót. Þá sögðu raddirnar eitthvað á borð við:

Þær græddu bara á þessu.

Heppilegt að þurfa ekki að fara fyrir dóm og geta bara fengið peninginn.

Þetta var það sem þær voru að vonast eftir.

- Auglýsing -

Enda ægilega fínt að fá eina og hálfa milljón í vasann, ekki satt?

 

Skipta peningarnir máli?

Skoðum þetta aðeins nánar.

- Auglýsing -

Til hvers eru bætur? Í ofbeldisbrotamálum eru tvenns konar bætur. Skaðabætur og miskabætur. Skaðabótum er ætlað að bæta beint fjárhagslegt tjón sem brotaþoli verður fyrir vegna brotsins, til dæmis vegna læknis- og lyfjakostnaðar, vinnutaps, tjóns á fatnaði eða hlutum og þess háttar. Miskabótum er fremur ætlað að bæta óáþreifanlegt tjón; það andlega tjón sem hlýst af ofbeldisbrotum og eftirköstum þess. Þetta getur vissulega verið snúið að meta og ofangreindar raddir nýta þá gjarnan tækifærið og spyrja: Er nokkuð hægt að setja verðmiða á andlegt tjón? Peningar skipta ekki máli ef þú verður sannarlega fyrir sálartjóni, er það?

En þetta er ekki svo einfalt. Í nútímasamfélagi kostar nefnilega töluverðar fjárhæðir að verða fyrir sálartjóni. Það er ekki bara sú læknishjálp sem þú þarft á að halda í beinu framhaldi af brotinu og áfallinu – heldur sú hjálp sem þú gætir hugsanlega þurft að greiða fyrir í mörg ár á eftir. Algengt verð á einum sálfræðitíma í dag er í kringum 15.000-17.000 krónur. Það kostar líka að missa vinnuna vegna andlegra kvilla og áfallastreituröskunar. Það kostar að þurfa á endurhæfingu að halda, að búa við skerta starfsgetu og svo mætti lengi telja. Ein og hálf milljón er ekki sérlega há upphæð í stóra samhenginu.

 

Ólgusjór réttarkerfisins

Dómsmál eru flókin, erfið og taka yfirleitt mjög langan tíma. Þau koma í kjölfar lögreglurannsóknar, ef ákveðið er að gefa út ákæru á annað borð, sem sömuleiðis tekur oft tíma sinn. Allan þennan tíma velkist meintur brotaþoli um í óvissu. Réttarhöld í ofbeldismálum taka mjög á andlega og það getur farið afar illa með sálartetrið að þurfa sífellt að rifja upp og jafnvel svara fyrir atburð sem veldur manni miklum sársauka. Það er vissulega erfitt að ímynda sér hvenær fólk kysi að fara í gegnum slíka reynslu ef rík ástæða væri ekki fyrir hendi, en hér verður ekki farið nánar út í þá sálma.

Kynferðisbrotamál eru sérlega flókin í dómskerfinu og það getur verið erfitt að sanna sök meints geranda þannig að hún sé hafin yfir allan vafa. Þess vegna eru mörg kynferðisbrotamál sem ef til vill enda með sýknu, jafnvel þó að meintur gerandi sé ekki endilega saklaus. Nú, ef sá ákærði er dæmdur sekur eru brotaþola yfirleitt dæmdar einhverjar bætur. En þýðir það að brotaþoli fái bæturnar? Hreint ekki.

Þarna komum við nefnilega að ákveðinni brotalöm í kerfinu. Ríkisábyrgð á skaða- og miskabótum í svona málum er afar þröng og ef ríkið yfirhöfuð ábyrgist eitthvað þá er sú upphæð ekki í hærra lagi.

Lög um greiðslur ríkissjóðs á bótum til brotaþola afbrota gengu í gildi árið 1996. Ríkisábyrgðarupphæðirnar eru ýmsum skilyrðum háðar og geta hæstar orðið 1.200.000 krónur. Í þessu samhengi er rétt að minna aftur á kostnað í kringum það að verða fyrir brotum sem þessum og verð á sálfræðitíma.

Séu brotaþola dæmdar hærri bætur þarf hann sjálfur að sækja mismuninn til geranda og brotaþoli þarf að rukka upphæðina úr höndum geranda síns, ef hann greiðir kröfuna ekki á tilskildum tíma. Það er því ekki erfitt að sjá hvers vegna ótal bótakröfur í kynferðisbrotamálum hafa aldrei verið greiddar.

Þar með er heldur ekki erfitt að ímynda sér hvers vegna sumir gætu mögulega hugsað sér að láta reyna á sáttaleið, sé meintur gerandi tilbúinn til þess, og þiggja bætur án þess að leggja á sig þá andlegu, öryggisbeltislausu rússíbanareið að fara í gegnum kæruferli og eftir atvikum dómsmál.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -