Föstudagur 25. október, 2024
3 C
Reykjavik

Af hverju þori ég ekki að vera hamingjusamur?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hafið þið upplifað hamingju svo stóra og mikilfenglega að þið grátið?

Ég hef það.

Ekki því ég dúxaði í námi, vann bikar eða fékk vinnuna sem mig langaði að fá. Sumt af þessu er vissulega eitthvað sem má vera stoltur af og ég er það alveg. En engin yfirþyrmandi hamingja. Þetta segir voða margt um hvernig við eða allavega ég nálgast hamingjuna.

Þegar ég græt af hamingju er það þegar ég sé aðra ná markmiðum sínum, hlaupa í mark, finna ást í lífi sínu. Eða þegar ég heyri magnaða tónlist, þegar ég dansa, þegar ég heyri fugla syngja og greinar sveiflast í vindinum. Nú eða þegar ég er staddur á ferðalagi og virði fyrir mér náttúru eða annað mannfólk aðhafast eitthvað framandi. Hamingjan er þarna inn í aðgerðum sem eru í núinu eða þegar ég samgleðst. 

Ekki skrítið að ég vel mér þá starfsgrein að þjálfa, að kenna, að leiðbeina, að hjálpa, að ferðast.

Þarna liggur mín hamingja.

- Auglýsing -

En einu velti ég þó fyrir mér með hamingjugráturinn. Ég held að innst inn tengist hann einnig ótta. Óttinn felst í endanleika hamingjunnar og endanleika augnabliksins.

Við hugsum það ekki dagsdaglega að hvert augnablik sé sérstakt þó það sé það vissulega. Af og til sjáum við tilvitnanir frá markþjálfum og sálfræðingum um að lífið sé núna og erum minnt á það. Við grípum það í eina sekúndu en höldum svo áfram að brjóta saman þvottinn, skutla í skólann, svara tölvupóstinum á ‘autopilot’. Ekki í augnablikinu né í neinni sérstakri hamingju. Svo erum við örmagna og hefjum leitina að hamingjunni. Leitum rosa mikið og jafnvel langt út fyrir landsteinana.

Ég hef alveg verið þar trúið mér. Oft á lífsleiðinni er ég í flækju eins og hver annar.

- Auglýsing -

Þegar ég held að hamingjan sé flókin og gleymi því að hún er einföld. Eða því ég er hræddur við hana?

Er svo hræddur við að öðlast hana til þess eins að missa hana aftur.

En er ekki betra að hafa öðlast hana og misst frekar en að upplifa hana aldrei. Á ég frekar að vera alltaf uppspenntur, leitandi og hræddur. Bara þangað til ég dey?

Þegar við upplifum missi þá er það eins og að fá blauta tusku í andlitið. Vaknaðu! Taktu eftir! Núna! Ekki á morgun! Sérstaklega ef missirinn kom algjörlega eins og þruma úr heiðskíru lofti. En í raun eru endalok lífsins alltaf skyndileg. Erum við nokkurntíma alveg undirbúin og með það á hreinu nákvæmlega hvenær það verður? Nei, það er ekki hægt.

Lífið er sorglegt. Það er það. Að því leyti að líf okkar er stöðugt dvínandi frá því að við fæðumst. Það er minna eftir af því í dag en var í gær.

Í stað þess að láta það hræða okkur frá því að vera hamingjusöm á hverjum degi ættum við nýta þann ótta sem drifkraft í að vera akkúrat það. Að vera vakandi og eftirtektarsöm fyrir hamingjunni sem einfaldlega er af því við erum.

Grátum þegar við sjáum barn brosa í fyrsta sinn, það er alveg hreint ótrúlega fallegt. Það má opna á allar tilfinningarásir gagnvart þessum litlum hlutum. Brosa, hlæja, gráta. Bæði því við erum hamingjusöm yfir því að vera hamingjusöm og því við vitum að það mun ekki endast.

Það mun alltaf ríkja þessi blanda. Yin og yang. Hamingja, sorg. Lífið, dauðinn. Í raun sami hluturinn.

Þið finnið kannski fyrir aukinni pressu við að lesa þetta að þurfa að þá að hrinda öllu í framkvæmd núna strax í dag. En það er ekki það sem ég á við. Því ég er viss um að við séum öll á okkar tíma, á réttum tíma. Með þá orku og aðföng sem við búum við hverju sinni erum við akkúrat þar sem við eigum að vera. Þess vegna getum við verið hamingjusöm, sama hvað.

Eða?

Aukanótur höfundar: Augljóslega lesist þetta ekki eins gagnvart þeim sem hafa ekkert og hafa verið rænd tilverurétti sínum í stríði eða þjóðarmorði enda tel ég það nokkuð ljóst að mínar hugvekjur séu miðaðar að okkur í hinum vestræna, verndaða, forréttindaheimi.

Þó tel ég að okkur ber skylda til að halda vonar- og hamingjuneista á lofti. Minna á sjálfræði og rétt okkar allra til að öðlast gott líf. 

Með því að lifa samviskusamlega með hamingju okkar og okkar nánasta fólks sem leiðarljós verða til félagsleg mengi þar sem samkennd og hamingja eru leiðandi öfl. Ég trúi því að út frá hamingju verði til réttsýni, skýrleiki, lausnir og ákvarðanir sem stuðla áfram að hamingju allra. Það er því raunverulega sorglegt að hugsa til þess að óhamingja og hatur séu að miklu leyti hinu ráðandi öfl víðsvegar um heiminn í dag. Stríð og þjóðar- og barnamorð verða ekki til eða látin viðgangast út frá hamingjusömum einstaklingum. Það er nokkuð ljóst. 

Kannski erum við sem tegund bara dæmd til þess að vera hrædd við eigin hamingju þannig við reynum eins og við getum að skemma fyrir okkur sjálfum og öðrum í leiðinni?

Friðrik Agni Árnason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -