Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Andri lýtalæknir – Leiðarvísir um fitusog

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fitusog (liposuction á ensku) er aðgerð sem fjarlægir umfram fitu sem finnst milli húðar og vöðvalags á ákveðnum svæðum likamans. Þetta er ein vinsælasta fegrunaraðgerðin sem lýtalæknar framkvæma, en aðferðinni er einnig beitt í ýmsum aðgerðum innan uppbyggjandi lýtaaðgerða sem framkvæmdar eru á sjúkrahúsum og teljast þá ekki fegrunaraðgerðir. 

Hægt er að fitusjúga frá mörgum svæðum líkamans, en algengast eru kviðurinn, mjaðmir, læri, upphandleggir og haka (undir kjálkabörðum). Þetta er ekki aðgerð sem kemur í stað þyngdartaps, heldur er hægt að nota hana til að bæta hlutföll og línur ásamt því að meðhöndla takmörkuð svæði þar sem fitan vill bara ekki hverfa þrátt fyrir hollt mataræði og mikla hreyfingu.

Margar tegundir af fitusogi eru til, margar tegundir af tækjum, sem öll eiga sammerkt að vera hönnuð til að auka nákvæmni lýtalæknisins þegar fitan er numin á brott. Allir framleiðendur halda því fram að einmitt þeirra tæki sé bæði þægilegast og best.

En sama hvaða aðferð er notuð er ýmislegt sameiginlegt með þeim.

  1. Alltaf þarf að sprauta miklu af sérstakri saltvatnslausn sem inniheldur staðdeyfilyf og adrenalín sem dregur saman æðar. Þetta er gert til að minnka líkurnar á blæðingu eftir aðgerðina.
  2. Holnálar (kanylur), sem eru mjó rör í ýmsum grófleikum/fínleikum, er stungið inn í fitulagið og fitan er sogin gegnum þær eftir að lýtalæknirinn hefur gert nokkur 4mm göt í húðina með skurðhníf.
  3. Lofttæmi er til staðar í einhverri mynd, annað hvort frá sérstöku lofttæmistæki, eða gert með stórum sprautum.
  4. Sjúklingurinn þarf að nota einhvers konar þrýstiplagg eftir aðgerðina til að halda niðri bjúg og bólgu, yfirleitt í nokkrar vikur.

Kostir / möguleikar fitusogs

Fitusog getur hjálpað til við að fjarlægja umframfitu frá ákveðnum svæðum líkamans, sem getur bætt útlínur og hlutföll hans. Margir eiga við að stríða takmörkuð svæði á líkamanum þar sem virðist ómögulegt að losna við einhvern kepp, þó svo allt hafi verið reynt til þess. Eftir aðgerð eiga margir auðveldara með að kaupa þá tegund fata sem þeir/þær vilja og sumir finna við þetta meira sjálfstraust. 

- Auglýsing -

Oft er hægt að meðhöndla fituna sem sogin er, meðhöndla hana á sérstakan hátt og sprauta henni svo aftur inn þar sem einstaklingurinn vill hafa meiri fyllingu. Algengasta dæmið eru konur sem vilja losna við vef frá kviðnum, en vilja fá aukna fyllingu í brjóstin. Þessu til viðbótar er að verða meira og meira er um að fitunni sé sprautað á aðra og viðkvæmari staði, svo sem í andlit. Þetta er hins vegar verulega umdeilt, vegna þess að fitufyllingin er varanleg og ekki hægt að losna við hana aftur, þrátt fyrir að andlitið breytist með aldrinum. Það er því þannig að eitthvað sem lítur frábærlega út árið sem þetta er gert, getur litið óaðlaðandi og einkennilegt út einhverjum árum síðar. Fitan nefnilega hagar sér eins hvar svo sem hún er á líkamanum. Ef einhver sem til dæmis hefur fengið fitu í varirnar þyngist talsvert, þá stækka varirnar sömuleiðis. Til að minnka þær aftur þarf skurðaðgerð sem skilur eftir sig slæm ör. Auðvelt er að finna dæmi um þetta víðs vegar um internetið án mikillar leitar. 

Mögulegir fylgikvillar:

Fitusog er tiltölulega örugg aðferð, en hún getur haft svolitla áhættu í för með sér, þar á meðal:

- Auglýsing -
  1. Blæðing. Í árdaga þessarar aðferðar, fyrir ca. 40 árum voru stórar blæðingar talsvert vandamál. Jafnvel svo stórar að drep kom í húðina ofan við. Þegar hins vegar var farið að sprauta inn miklu magni af deyfivökva sem dregur saman æðar, hefur þetta vandamál næstum horfið.
  2. Sýkingar eru fremur sjaldgæfar. Þegar þær koma upp þá er það næstum eingöngu í einhverju af litlu götunum í húðina sem skurðlæknirinn hefur gert. Þær er auðvelt að meðhöndla með sýklalyfjum. Gríðarlega sjaldgæft er að það komi fram djúp sýking, þ.e. djúpt innan við húðina, þó slíkt sé ekki óþekkt.
  3. Seroma. Seroma er samsöfnun á sáravökva í svæðinu sem hefur verið meðhöndlað. Þetta er bjúgur, sem veldur því að árangurinn lætur á sér standa hvað varðar útlitið. Af þessu þarf þó ekki að hafa áhyggjur, líkaminn sér um vökvann og sýgur hann upp smám saman. Mikilvægt er þó að bera þrýstiplaggið sitt þar til þetta er horfið.
  4. Drep. Með drepi er verið að meina að húðin yfir fitusogssvæðinu missir blóðflæðið og drepst þannig að það þurfi að fjarlægja hana. Þetta er fylgikvilli sem stendur um í bókum, en finnst sennilega eingöngu þar, en ekki í alvörunni nú til dags.

Hver er góður kandidat fyrir fitusog?

Fitusog er aldrei hægt að nota til að léttast. Vandamál einstaklingsins þurfa að vera bundin við ákveðið svæði en ekki allan líkamann. Bestu kandidatarnir eru því:

  1. Fólk með réttar og raunhæfar væntingar til aðgerðarinnar.
  2. Þrjósk svæði eða keppir með fitu sem ekki gengur að ná burt með mataræði og líkamsrækt
  3. Að húðin yfir svæðinu sé af góðum gæðum, vel teygjanleg og hefur mikla eiginleika að geta dregið sig saman eftir að búið er að tæma fituna sem er undir
  4. Eðlilegur þyngdarstuðull og þyngd sem ekki hefur breyst lengi
  5. Engir alvarlegir sjúkdómar til staðar
  6. Geta til að halda sömu þyngd eða léttast aðeins í hið minnsta heilt ár

Gangur aðgerðarinnar

  1. Fitusog er yfirleitt gert í svæfingu, en einstaka sinnum í staðdeyfingu með slævingu. Aðgerðin tekur venjulega 1-2 klukkustundir, háð því hversu mörg svæði á að meðhöndla og hvort sprauta eigi inn fitunni annars staðar
  2. Meðan á aðgerðinni stendur gerir skurðlæknirinn nokkra 4mm skurði í húðina utan við svæðið sem á að sjúga og leggur svo inn langa granna holnál sem er notuð til að fylla allan fituvefinn með deyfilausn sem dregur saman æðar
  3. Eftir þetta er valin réttur sverleiki á fitusogsholnálinni, sem er stungið inn og hún er svo hreyfð fram og aftur um það svæði sem á að meðhöndla. Yfirleitt er notaður fleiri en einn sverleiki. Holnálin er svo tengd við lofttæmistæki sem svo fjarlægir fituna.
  4. Eftir að hæfilegt magn fitu hefur verið fjarlægt er litlu skurðunum svo lokað með einstökum saumum.
  5. Áður en sjúklingurinn vaknar er hún/hann klædd/ur í þrýstiplagg sem á að bera allan sólarhringinn í ca. þrjár vikur og að degi til í þrjár vikur í viðbót. Þrýstiplaggið heldur burtu bólgu og bjúg, er yfirleitt góð verkjastilling og hjálpar vefnum að gróa.
  6. Nær undantekningarlaust getur sjúklingurinn farið heim fáeinum tímum eftir aðgerð. Hins vegar er mælt með að taka sér frí úr vinnu 1-2 vikur eftir á, og geyma alla líkamlega áreynslu þar til um 4 vikur hafa liðið. Eftir þann tíma ætti viðkomandi að vera fær í flestan sjó.

En árangurinn þá?

Strax eftir aðgerðina sést lítill munur miðað við áður. Jafnvel getur svæðið virst þykkara en áður. Þetta er vegna bólgu og bjúgs í svæðinu, og hefur ekkert að gera með hversu mikið eða lítið hefur verið sogið.

Fyrsta bólgan sest að talsverðu leyti á ca. 3 vikum, og það er í fyrsta lagi þá sem hægt er að gera sér einhverja svolitla mynd af því sem hefur gerst. Það er ekki fyrr en eftir um 3 mánuði að hægt er að sá niðurstöðurnar, en endanlegar niðurstöður sjást í fyrsta lagi eftir eitt ár, þ.e. þegar allur örvefur hefur þroskast.

Árangurinn er yfirleitt til framtíðar, að því gefnu að einstaklingurinn haldi nokkurn vegin sömu þyngd. Ef liðið hafa hins vegar einhver ár þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því þó einhver kíló bætist á. Krítíski tíminn eru fyrstu 2 árin.

Hvað með kostnaðinn?

Kostnaður við aðgerðina fer eftir hversu mörg svæði á að meðhöndla. Gróft reiknað þá greiða sjúklingar fullt fyrir fyrsta svæðið, en helming fyrir hin. Svo bætist við kostnaður ef sía þarf og spinna niður fituna til að geta sprautað henni inn annars staðar, en tækjabúnaðurinn við það er nokkuð flókinn. Flestar lýtalæknastofur bjóða upp á fjármögnun ef þess er óskað.

Andri Már Þórarinsson, MD, PhD
Lýtaskurðlæknir

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -