Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Andri lýtalæknir spyr: Hvernig líta brjóstin á þér út?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þetta er algerlega eðlileg spurning sem fylgir útliti og breytingum á útliti líkamans. Karlmenn velta fyrir sér sams konar spurningum, þó svo um annað líffæri sé yfirleitt að ræða. 

Líta má á brjóst sem gerð úr tveimur mismunandi tegundum af vef. Annars vegar höfum við húðumslagið (húðina utan um), sem getur verið stórt eða lítið. Og hins vegar höfum við innihaldið, þ.e. sjálfan brjóstvefinn. Hann er annars vegar gerður úr kirtilvef sem framleiðir mjólk og hins vegar fitu. Frá byrjun er yfirleitt gott samræmi milli umslags og innihalds, þ.e. við höfum húðumslag sem passar þokkalega fyrir það sem er innan í. Við þungun vex hins vegar innihaldið mjög mikið. Hversu mikið, fer eftir hlutfalli kirtilvefs og fitu. En alla vega, þá vex innihaldið alltaf mjög mikið. Og húðumslagið vex sömuleiðis með innihaldinu, það á engan annan kost. Og margar eru ánægðar á þessu stigi. Eftir fæðingu og brjóstagjöf verður hins vegar rýrnun (atrophy) á kirtilvefnum sem dregur sig þá verulega mikið saman. Brjóstin minnka því yfirleitt niður í að verða jafnvel minni en þau voru fyrir þungun. 

Mismunandi eiginleikar húðar

Það fer svo eftir eiginleikum húðarinnar hvort hún dragi sig saman yfir þetta minna innihald eða ekki. Það sem mestu máli skiptir í því sambandi er þykkt og teygjanleiki hennar. Ef mjög gróf flokkun er notuð og húðgerðum skipt upp í tvennt, þá má segja að öðru megin séu konur sem hafa tiltölulega þykka húð, sérstaklega leðurhúð. Þessi húð er ekkert sérstaklega teygjanleg, en hún hefur hins vegar þann eiginleika að draga sig vel saman, sama hvað er undir henni. Þetta eru brjóst sem geta stækkað og minnkað, án þess að síga og án þess að fram komi slit. Þessar konur geta verið þungaðar einhverju sinnum án þess að það sjáist á húðinni. Sumar hafa reyndar kannski fengið svolítið slit í kynþroskanum, en það er sjaldgæft að þau slit aukist á meðgöngu eða við hormónabreytingar yfir höfuð.

Í annan stað eru konur sem hafa miklum mun þynnri húð. Þær hafa oft fengið slit á rassinn, og jafnvel magann og brjóstin strax í kynþroskanum. Brjóstin eru stundum farin að hanga áður en þær verða tvítugar. Eftir meðgöngu þegar innihaldið í brjóstunum minnkar, dregur húðin sig mjög lítið saman. Brjóstin verða því lítil, tóm og sigin. Ekki virðist skipta máli hversu stór þau eru, stærri brjóst af þessari tegund hanga ekki endilega meira en minni brjóst. Og ekki skiptir neinu máli hvort þær nota góðan brjóstahaldara sem halda þeim uppi eða ekki. Þau hanga samt. Þessar konur fá oft mikla stækkun á brjóstum á meðgöngu og á sama tíma mikil slit á þau, á magann og jafnvel á fleiri staði. Og því miður er ekki hægt að gera neitt í fyrirbyggjandi tilgangi til að hindra þetta.

Það tekur reyndan lýtalækni einungis skamma stund með nokkrum spurningum og skoðun að sjá hvaða húðgerð viðkomandi er með.

- Auglýsing -

En er þá nokkuð við þessu að gera?

Það er því þannig að margar konur standa frammi fyrir því eftir þungun og brjóstagjöf að húðumslagið sé nokkrum númerum stærra en innihaldið þarf.

Ef þetta er staðan og konan vill fá til baka aðeins stinnari brjóst, líkt og hún hafði fyrir barneignir, er um þrjá kosti að ræða: Hægt er að fylla á (auka) innihaldið með sílikonpúða, hægt er að minnka umslagið með að gera brjóstalyftingu, eða gera bæði. 

- Auglýsing -

Ef brjóstin hanga mikið, þ.e. mjög stórt umslag miðað við innihald, þá þarf hlutfallslega stóran púða til að fylla það allt. Oft eru þetta það stórir púðar að konan vill ekki hafa þá og nennir ekki bera þá. Ef konan er ánægð með sjálfa stærð (rúmmál) brjóstanna en þykir þau hanga of mikið, má minnka umslagið með að gera brjóstalyftingu. Oftast er það hins vegar svo að blanda af báðu er það sem margar vilja. Þetta felur í sér sílikonpúða, sem getur verið fremur lítill, og brjóstalyftingu ofan á það. Þannig er hægt að ráða með nokkuð nákvæmum hætti hæð, breidd og hversu langt brjóstið á að standa út. 

Það er mikilvægt að gera þetta fyrst þegar konan er búin að eiga öll börn sem hún ætlar að eiga. Ef þetta er gert og konan á eina meðgöngu eftir, má reikna með að brjóstin fari að hanga á sama hátt eftir hana, þó þau séu ekki jafn tóm.

Þáttur, þessu tengdur, sem aldrei er hægt að stjórna, er hversu mikið, ef eitthvað, brjóstin sigi aftur eftir aðgerð. Öll brjóst sem hengd eru upp eða stækkuð með púða síga eitthvað eftir á. Það er mismunandi hversu mikið þau gera þetta. Sum síga næstum ekkert, meðan önnur síga klárlega meira en hvorki konan eða lýtaskurðlæknirinn vilja. Sama hvers konar brjóstahaldari er notaður, eða hversu mikið, þá getur hann ekki komið í veg fyrir að brjóstin sigi. Þetta er algerlega bundið við genin sem konan hefur.

Æ, þessi gen…

Ekki er hægt að undirstrika nægilega mikið að útlit brjóstanna eftir þungun og brjóstagjöf fer að langmestu leyti eftir því hvaða gen konan hefur. Það eru genin sem stjórna því hversu mikinn kirtilvef hún hefur í brjóstunum miðað við fitu. Það eru genin sem stjórna því hversu mikið sá kirtilvefur vex á meðgöngu. Það eru genin sem stjórna því hversu mikið hann dregst saman eftir að brjóstagjöf er lokið. Það eru genin sem stjórna því hvort brjóst haldi sér í stærðinni eða minnki, sama hvort barninu sé gefið brjóst eða ekki. Það eru genin sem stjórna því hversu mikið húðin dregst saman eftir að innihaldið minnkar. Þessu er ekki hægt að breyta, en það þýðir ekki að ómögulegt sé að leiðrétta ástandið og gera brjóstin jafn fín, eða jafnvel fínni, en þau voru fyrir barneignir.

Genin og náttúran stýra flestu í sambandi við útlit okkar. Það eru þau sem stjórna því hvernig húðin lítur út, hvernig hárið lítur út og hvernig nefið lítur út. Hvernig líkaminn bregst við líkamsþjálfun. Hversu hröð brennslan er og tilhneigingunni til að við söfnum á okkur orkuforða í formi fitu eða vöðvamassa. Það eru þau sem stjórna hvort við höfum slit á rassinum, maganum eða brjóstunum eftir kynþroskann. Bæði hjá konum og körlum. 

Hvernig líkaminn bregst við auknum þroska (aldri) og hvaða áhrif það hefur á útlitið og starfsemi er efni í annan pistil.

Andri Már Þórarinsson

Lýtaskurðlæknir

www.aesthetica.expert

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -