Einhver furðulegasta umræða seinni ára snýst um dagsetningu á væntanlegum ársfundi stjórnmálaflokks eins á skeri úti í Ballarhafi, flokks sem nú mælist með plús mínus 15 prósent fylgi. Þetta kemur í viðbót við endalausar bollaleggingar um hvar og hvenær megi kaupa brennivín, og einnig hvernig eigi að standa að kaupunum. Lítið er hins vegar talað um stefnumál flokksins áðurnefnda, önnur en áfengistengd, og fáir flokksmenn tjá sig um nokkurn hlut, nema þá helst einhver Brynjar, sá hinn sami og gerði gys að vöggustofunkrökkunum hér um árið.
Brynjar þennan hefi ég aldrei talað við en myndi alveg geta hugsað mér að láta þjóðkirkjuna skutla honum á bænalista sinn. Einu sinni rétt um eða eftir hrun létum við, þá starfandi prestar í úthverfi höfuðborgarsvæðisins, nokkra flokksbundna félaga Brynjars vita af að biðja ætti fyrir þeim á tilteknum sunnudegi, en það er reyndar gert hvert sinn sem messað er, fastur liður í almennu kirkjubæninni er að biðja fyrir löggjafaþingi og dómstólum landsins.
Eftir messuna sá ég ein þrjú „missed calls“ á símanum mínum, frá manni sem ekki hafði séð sér fært að koma í kirkjuna, og vildi ábyggilega þakka okkur fyrir hugulsemina. Ekki spyrt maður nú að hugulsemi hæstaréttardómaranna, en viðkomandi „miss call“ maður reyndist við eftirgrennslan á jáinu vera einhver Ólafur Börkur, sennilega flokksbróðir Brynjars.
Enn er ónefndur flokksbróðirinn Stefán Einar, sem nú vinnur hjá héraðsblaði einu sem ræður eignarhaldi á minningargreinum um fallna skerverja. Einar þessi ku vera prestlærður, en hefur valið sér bás í skjóli flokkssystkina sinna, og boðar fögnuð sinn þannigen. „Hollt er heimatrúboð“, sagði einhver einhverntíma.
Blessaðir drengirnir sem ég hef nefnt eiga það sameiginlegt að geisla af þakklæti, það sér maður ef maður googlar þá þremenningana, myndir af þeim eru alveg sérlega eftirtektarverðar. Bara svo skítt að maður skuli ekki hafa kynnst þessum drengjum. Þeir eru nefnilega holdgerfingar og nútíma útgáfur vitringanna þriggja sem um hefur verið ritað í fornum guðspjöllum. Æ sei nó more.
Að svo mæltu óska ég lesendum Mannlífs árs og friðar.
Skírnir Garðarsson, pastor emeritus.