Miðvikudagur 11. desember, 2024
6.8 C
Reykjavik

Allt þetta fólk!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Eftir Auði Jónsdóttur:
Fyrir fjórum árum flutti ég heim í brotlendingu hjónabands eftir að hafa verið intróvertinn sem ég er að miklu leyti, stóran hluta hjónabandsins í útlöndum að skrifa og hjóla og blanda lauslega geði við góðkunningja og ókunnuga. Um leið skall á mig alda af allskonar fólki, óteljandi vinum og kunningjum úr ólíkum áttum, og ég varð eins mikið út á við og ég hafði verið inn á við árum saman. Skyndilega ofurfélagslynd og menningarsjokkið var meira en að flytja í aðra heimsálfu. Allskonar fólk þyrptist að mér með líf sitt og sögur, svo margir sjálfir í upplausn, og af því ég var sjálf opinberlega í upplausn var ég eins og suga fyrir ólíkar manneskjur sem vildu tengja eða miðla sinni lífsreynslu, vera með mér í því sem ég væri að lifa til að skilja sitt betur, detta inn í fjörið sem tilvera mín var orðin. Í staðinn öðlast ég innsýn í svo margt sem ég hafði verið blind á áður.
Upplausn
Þetta ýktist upp úr öllu valdi eftir að ég skrifaði Tilfinningabyltinguna, örmagna tilraun við að reyna að skilja þetta allt. Allt fór í upplausn, allar skoðanir mínar, lífsýn, elementin. Ég speglaði mig í fólki sem ég hefði aldrei speglað mig í áður, jafnvel verið of forpokuð til að tengja við, en allt í einu tengdi ég við manneskjur úr öðruvísi umhverfi, í þrá eftir öllu framandi – á annan hátt en útlönd. Og ég átti endalaus áhugaverð samtöl sem tendruðu nýja sýn og hugmyndir, um leið og djúpa sjálfsvinnu í öllu rótinu og fúttinu. Ég galopnaði fyrir öllu nýju. Og áttaði mig á að við eigum mörg líf í lífinu, þannig að það getur jaðrað við óraunveruleikakennd.
Ég skildi eftir gamla lífið mitt, níu ár í útlöndum þar sem allt annað skipti máli, útlenskir kollegar og útgefendur, fallega lifað fólk í gettóum, allar sögurnar sem maður upplifði í mannlífinu, öðruvísi fjölmiðlar, flæðiði sem fylgir því að vera innflytjandi að upplifa allt upp á nýtt. Allt í einu innflytjandi í eigin landi, svo ný og hrá að gamlir vinir þekktu mig varla lengur fyrir sömu manneskju, skildu ekki allir hvað ég væri að pæla og ég skildi það heldur ekki alveg sjálf.
Ný íbúð
Þessu skrýtna upplausnartímabili lauk fyrir nokkrum mánuðum, ég flutti í nýja íbúð, henti megninu af gamla dótinu mínu og hreinsaði til í kringum mig á margskonar hátt, kjarnaði mig aftur til að eignast aftur alfarið líf mitt fyrir sjálfa mig og son minn. Eftir þetta tímabil leið mér svolítið eins og ég hefði sofið hjá þúsund manneskjum, þær smakkað á mér og ég á þeim.
Síðan þá er ég búin að hlusta endalaust á Hildi Guðna og labba berfætt um heima hjá mér. En líka gert svo margt skemmtilegt, en nú með hjúp utan um sjálfa mig.
Í gærkvöldi fór ég á gamlar æskuslóðir, í afmæli upp í Mosfellsdal, og kvöldið var svo fallegt að ég rölti úr veislunni, sem var algjört ævintýri undir beru lofti, með kaffi í pappaglasi og spjallaði við hestana, gamalkunnug fjöllin og minningarnar í sjálfri mér um heim sem var einu sinni algjör, veröldin í Mosfellsdal, en núna eins fjarlægur og bók sem ég las í barnæsku. Samt undirstaðan, einhvern veginn, og ég lagðist í grasið og fannst ég hafa farið í langt, óskiljanlegt ferðalag.
Kannski hófst þetta ferðalag þegar ég var barn og allt varð óskiljanlegt, eftir erfiða atburði, samt í svo fallegu og sérstöku umhverfi, gefandi á sama hátt og það var krefjandi, þannig að það hefur tekið allt líf mitt að skilja þennan flókna heim, sem var þá, þarna. Eitthvað svo sárt, eitthvað svo fallegt, eitthvað svo öðruvísi, svo stórt. Og allt í einu var ekkert nema sól og fegurð í dalnum, allt svo stillt, ómurinn af einhverju dýrmætu. Og ég aftur orðin alvarlega einræna stelpan sem ég var einu sinni. Stigin út úr veislunni. En með veislu í farangrinum. Ég fann fyrir sorg og létti, einhverju óáþreifanlega mögnuðu. Lífið er svo skrýtið ferðalag. Og svona texti hljómar sjálfhverfur.
Altumlykjandi sól
En svo er það okkar að sjá ferðalagið, lífið. Söguna, skilin, allt þetta sem gefur lífi okkar merkingu. Leyfa sér að sjá það sem birtist og lifa það. Leyfa sér að upplifa skáldsöguna líf sitt. Merkinguna sem við ljáum því. Þá, allt í einu, er stilla, altumlykjandi sól, fuglasöngur og allur heimurinn inni í sjálfum manni opnast. Nægur, þú þarft ekki meira. Því sama hversu marga maður talar við, tengist, sefur hjá, elskar, lendir í togstreitu við eða hjálpar og allt og allt, þá er maður, þegar upp er staðið, einn. Í einnar manneskju ævintýri. Hugarheimi sínum.
Auður Jónsdóttir er rithöfundur. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -