- Auglýsing -
Valborg E. Gunnarsdóttir (1887 – 1969) hét kona ein á Fellsströnd í Dalasýslu. Við lýðveldisstofnunina 1944 neitaði hún að kjósa því hún yrði hvort eð er í minnihluta, hún vildi nefnilega hafa konungveldi á Íslandi, en ekki lýðræði. „Það er hættulegt að hafa ekki almennilegt æðstavald,“ sagði sú gamla. Seinna náðist lending í málinu þegar nágrannarnir gengu í ábyrgð fyrir forsetana, lofuðu að kjósa besta forsetaefnið á hverjum tíma. Það hafa menn svo staðið við, forsetarnir hafa staðið sig með prýði heilt yfir.
Þessi frásögn um Valborgu kom í hug minn á dögununum þegar það rann upp fyrir mér og fleirum að íslenska þjóðin nú um stundir er biskupslaus. Sigurbjörn heitinn Einarsson hefði ekki látið viðgangast það sem við upplifum, nefnilegaa að umboðslausir aðilar hummi einhver yfirborðskennda frasa þegar Úkrainska þjóðin berst í bökkum, þegar palestínska þjóðin sætir mannskæðum ofsóknum og nú síðast þegar allir Grindvíkingar eru á tímabundnum vergangi. Hann Sigurbjörn hefði sko messað kjark í fólkið á ögurstundum, en ekki gjálfrað innihaldslausa frasa í vindinn.
Það hefði verið gott að eiga dugmikinn biskup að nú, einhvern sem hefði þor og andlegan styrk til að tala kjark og huggun inn í erfiðar og dramatískar kringumstæður. Okkur vantar andlegt sameiningartákn. Klárlega.
Bágt er að vera biskupslaus, – hættulegt er það kannski ekki, en neyðarlegt og vandræðalegt er það. „Heimatilbúið vandamál,“ segja sumir. Kannski, en kannski er þetta bara eitt af hnignunareinkennum þjóðarinnar.
Séra Skírnir Garðarsson