Kvikmyndin Ljósvíkingar er einhver einlægasta kvikmynd sem boðið hefur verið upp á Íslandi. Söguþráðurinn er snjall og leikarar standa sig almennt vel. Björn Jörundur Friðbjörnsson er af öllum öðrum ólöstuðum stjarna myndarinnar. Hann leikur Hjalta, fyrrverandi sjóara sem tekst á hendur að reka veitingahús sem sérhæfir sig í fiskréttum. Rauða húsið á sér klárlega fyrirmynd í Tjöruhúsinu á Ísafirði og karakterum sem hafa komið við sögu þar.
Hjalti er óhefluð týpa sem hefur engan skilning á því að fólk vilji skipta um kyn eða laðist að eigin kyni. Það verður honum því mikið áfall þegar Björn, samstarfsmaður hans á veitingastaðnum og æskuvinur, kemur út úr skápnum sem transkona og kallar sig Birnu. Áður hafði sonur hans lýst því yfir að hann væri hommi. Stór hluti myndarinnar fjallar um þessa glímu Hjalta við eigin fordóma og skilningsleysi á margbreytileikann í mannlegu eðli. Björn Jörundur fer á kostum í því hlutverki. Við sem þekkjum til í þorpum úti á landi könnumst við týpuna. Gott hjartalag en litað fordómum er einkennið. Allir eru gagnkynhneigðir í þeirra einfalda lífi og það má lækna samkynhneigð. Leikur Björns Jörundar er einhver mesta snilld sem hefur sést í íslenskri bíómynd.
Ljósvíkingar inniheldur ást, drama og mannlegan breiskleika í bæjarfélagi á Íslandi. Auðvitað væri hægt að gagnrýna eitt og annað í myndinni ef maður nennti að elta ólar við tittlingaskít. Aðalatriðið er að myndin rígheldur áhorfandanum og hefur jafnframt þungan boðskap. Sagan gengur upp og hún er ekki síst til þess fallin að eyða fordómum í garð transfólks og samkynhneigðra. Saga Birnu, sem transkonan Arna Magnea Danks leikur, er rauði þráðurinn í myndinni. Arna kemst vel frá sínu og áhorfandinn fær samúð með henni og skilning á baráttu hennar. Eins og gerist eftir góða bíómynd þá tekur maður söguna með sér inn í gráan hversdaginn eftir að sýningu lýkur og hugsar sinn gang. Djöfull er þetta góð mynd.
Ljósvíkingar er stórsigur Vestfirðingsins Snævars Sölva Sölvason ekki síður en Björns Jörundar. Myndin mun væntanlega ná inn að hjartarótum Íslendinga og hjálpa fólki að skilja baráttu hinsegin fólks. Leikstjórinn er orðinn einn af þessum stóru í íslenskri kvikmyndagerð. Ljósvíkingar er mynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það verður spennandi að sjá hvað snlllingurinn Snævar tekur sér næst fyrir hendur. Honum eru flestir vegir færir.