Þessi pistill er hluti af því efni sem glataðist þegar brotist var inn á skrifstofu Mannlífs og gögnum eytt. Hann er því endurbirtur.
15.01.2022
Umhverfið er sannarlega ekki eins og ég þekkti það hér, fyrir meira en tveimur árum. Þá var það nánast á mörkunum að mæta í Leifsstöð tveimur tímum fyrir brottför – svo mikil örtröð var farin að myndast á flugvellinum nánast í hvert einasta sinn sem leiðin lá út fyrir landsteinana.
Nú er þetta draugahús. Ég þarf ekki einu sinni að hafa fyrir því að finna út hvar deskið mitt er – það er bara innritun í gangi fyrir eina vél. Vélina sem flýgur fyrir Wizz Air til Búdapest. Eftir að hafa framvísað skínandi bólusetningarvottorði er ég klár í slaginn.
Fríhöfnin er ekki mikið líflegri. Hinn goðsagnakenndi, Instagram-ofnotaði Loksins bar, er meira að segja lokaður. Umhverfis hann eru strengd svört bankabönd. Það er af sem áður var. Hér finnur þú ekkert nema svarta sanda svo langt sem augað eygir.
Jah, nema reyndar tollfrjálsu verslunina. Hún er á sínum stað. Þangað arka ég umsvifalaust og kaupi mér agnarlítið sjampó og næringu; því auðvitað hefur mér enn ekki tekist að fjárfesta í litlum ferðasjampóglösum sem ég get hellt í fyrir hverja utanlandsferð, eins og skynsamir ferðamenn gera. Ég er ekki skynsamur ferðamaður. Ekki einu sinni þótt ég hafi fengið meira en tvö ár til að undirbúa næstu utanlandsferð. Mér til varnar vissi ég ekkert að það myndi líða svona langur tími – ekki frekar en nokkuð annað okkar.
Í fríhöfninni kaupi ég líka „party-size“ poka af M&M peanut butter. Ég segi sjálfri mér að það sé til að taka með heim – ef ske kynni að sælgætið væri ekki til í heimkomu-höfninni. Það gerðist síðast og var alveg bagalegt. Ég er varla komin í sætið mitt í flugvélinni þegar ég er búin að opna pokann og byrjuð að gæða mér á marglitri dásemdinni. Sjáum til með sjálfsstjórnina næstu daga. Reyndar er líklega illa séð að vera stanslaust að gæða sér á hnetusmjörssúkkulaðikúlum þegar maður er í tannmeðferð. En ég veit náttúrlega ekki enn þá hvað verður gert við mig.
Vel á minnst – þetta er fyrsta utanlandsferðin mín í meira en tvö ár og ég er að fara til Búdapest að láta athuga í mér tennurnar. Það geri ég til þess að geta fjallað um tannlæknastofur í þessari borg í Austur-Evrópu, sem Íslendingar eru farnir að flykkjast til í stórum stíl, nákvæmlega í þessum sama tilgangi. Ég er mitt eigið tilraunadýr. Ef ég gæti sagt sjálfri mér fyrir rúmum tveimur árum frá þessari þróun mála er ég ekki alveg viss um hvað fortíðar-ég hefði sagt.
Það vill svo merkilega til að einmitt meðan ég er úti, er Evrópumeistaramót í handbolta haldið í sömu borg. Ekki nóg með það, heldur keppir íslenska landsliðið að minnsta kosti tvo leiki þessa sömu viku. Það hefur því atvikast þannig að ég er líka að fara á landsleiki. Tvo. Hér er ágætt að taka það fram að ég er ein. Algjörlega laus við ferðafélaga. Ég ætla því að arka á tvo landsleiki í íþróttahöll með hópi af íslenskum stuðningsmönnum, algjörlega án þess að þekkja neinn. Það er nýtt. Fortíðar-ég hefði líklega ekki átt von á því heldur.
Það ætti því ef til vill ekki að koma á óvart að flugvélin er full af íslenskum stuðningsmönnum. Fólki í landsliðstreyjum. Stæltum gaurum sem drekka mikið á leiðinni, hlæja hátt og reyna við flugfreyjurnar. Ég er ekki fyrr sest niður í þrönga sætaröðina en einhver sem gengur framhjá mér leysir vind og mér finnst eins og hið daunilla innyflaloft hafi hæft mig í andlitið. Ah já, ferðalög. Þau voru alltaf yndisleg. Velkomin um borð.
Blaðamaður tekur fram að ferðin er farin í samstarfi við Íslensku Klíníkina í Búdapest.