Laugardagur 26. október, 2024
4 C
Reykjavik

Blóðsugan frá Düsseldorf: „Þið munið heyra af mörgum óhugnanlegum hlutum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hann framdi sitt fyrsta morð árið 1913, það er fyrsta morðið sem hægt var að staðfesta. Þann 25. maí, það ár, braust hann inn í krá í Mülheim am Rhein. Þar rakst hann á níu ára gamla, sofandi stúlku. Hann kyrkti stúlkuna og skar síðan á háls og fékk, að eigin sögn, sáðlát þegar blóðið draup úr sárinu á gólfið. Daginn eftir fór hann á krá, sem var gegnt morðstaðnum, í þeim tilgangi einum að hlusta á fólk ræða ódæðið. Hann bætti um betur og fór iðulega á næstu vikum að gröf stúlkunnar og sagði síðar, við yfirheyrslur, að hann hefði sjálfkrafa haft sáðlát þegar hann fór höndum um moldina á gröfinni. Með ódæðum sínum ávann hann sér viðurnefnið Blóðsugan í Düsseldorf.

Peter Kürten fæddist árið 1883 í Mülheim í Ruhr-héraði í Þýskalandi. Fjölskylda hans var afar fátæk og heimilislífið einkenndist af ofbeldi. Peter var elstur þrettán barna foreldra sinna, en tvö þeirra féllu frá á unga aldri. Foreldrar Peters voru báðir áfengissjúklingar og faðir hans gekk oft í skrokk á móður hans og reyndar börnunum öllum. Það sem karlinn stundaði einnig oft þegar hann var drukkinn var að neyða eiginkonu sína og börnin öll til að safnast saman. Síðan skipaði hann eiginkonu sinni að afklæðast að hafa við hann kynmök að börnunum ásjáandi.

Árið 1897 var faðir Peters dæmdur til eins og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að hafa ítrekað nauðgað elstu dóttur sinni, sem þá var þrettán ára. Skömmu síðar skildu þau hjónin að borði og sæng, síðar skildu þau endanlega og eiginkonan giftist á ný og flutti til Düsseldorf.

Gekk ekki heill til skógar

Uppeldisaðferðir föður Peters settu eðlilega mark sitt á Peter og þess var ekki langt að bíða að hann tæki föður sinn sér til fyrirmyndar. Peter var ekki hár í loftinu þegar hann byrjaði að níðast kynferðislega á systrum sínum. Árið 1888 reyndi Peter að drekkja einum leikfélaga sinna, en sjálfur fullyrti hann að hann hefði aðeins níu ára að aldri framið sín fyrstu morð þegar hann drekkti tveimur leikfélögum sínum. Að eigin sögn hrinti hann ósyndum leikfélaga sínum af fleka sem þeir léku sér á. Þegar annar leikfélagi Peters reyndi að bjarga hinum, hélt Peter höfði hans undir vatnsyfirborðinu og báðir drengirnir drukknuðu. Yfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að um óhapp hefði verið að ræða.

Hvort sem sú niðurstaða var rétt eða ekki var ljóst að Peter gekk ekki heill til skógar hvað geðheilsu áhrærði. Eitt sinn þegar hann rifjaði upp afrek sín frá unglingsárunum sagði hann: „Ég komst að því hve mikillar ánægju ég fann til við að reyna að kyrkja stúlku sem ég hafði tekið með mér út í skóg.“

Þar sem Peter var elstur sona Kürten-hjónanna bitnaði ofbeldishneigð föður hans mest á honum og oft og tíðum neitaði Peter að fara heim að skóla loknum. Hann var ágætis námsmaður en vissulega varð árangur hans á því sviði takmarkaður, ekki síst vegna heimilisaðstæðna.

- Auglýsing -

Kemst á bragðið

Peter hljópst oft að heiman og var stundum fjarverandi svo dögum og jafnvel vikum skipti. Stórum hluta þess tíma eyddi hann í félagsskap smáglæpa- og utangarðsmanna. Þannig endaði hann á stigu glæpa og afbrota, sem til að byrja með var hans leið til að sjá sér farborða.

Árið 1892 vingaðist Peter við hundafangara sem bjó í sama húsi og hann. Svo fór að Peter fylgdi þessum hundafanfara í leiðöngrum hans. Hundafangarinn var ekki vandaður pappír og stundaði það að kvelja og drepa þau dýr sem hann fangaði. Peter sjálfur komst svo á bragðið og tók virkan þátt í að kvelja dýrin.

Árið 1895 myndaði Peter einhvers konar samband með stúlku á hans aldri. Þótt stúlkan leyfði Peter að afklæða hana og snerta, þá streittist hún gegn öllum tilraunum hans til samræðis. Til að fá kynferðislega útrás riðlaðist Peter á rollum, svínum og geitum og sagði síðar að mestu upplyftinguna hefði hann fengið ef hann stakk skepnurnar í sömu andrá og hann fékk fullnægingu. Eftir að hann komst á bragðið hóf hann í auknum mæli að stinga og skera skepnur í þeim tilgangi. Að eigin sögn lét hann af þessum sið þegar hann var gripinn glóðvolgur við að stinga svín.

- Auglýsing -

Á meðal þess sem Peter fullyrti síðar var að hann hefði í nóvember 1899 „nælt sér í 18 ára stúlku við Allee-stræti“ og talið hana á að koma með honum í Hof-garðinn. Hann sagðist hafa haft við hana samræði þar áður en hann kyrkti hana með berum höndum.

Engin gögn hafa fundist sem styðja þessa fullyrðingu Peters.

Fyrsti dómurinn

Peter fékk sinn fyrsta dóm í október árið 1900, en þá var hann sakfelldur fyrir sitt lítið af hverju; svik og pretti, morðtilraun með skotvopni og þjófnað. Hann fékk fjögurra ára dóm sem hann afplánaði í Derendorf. Hann losnaði úr grjótinu sumarið 1904 og var kvaddur í herinn. Hann gerðist liðhlaupi fljótlega í kjölfarið og stundaði íkveikjur um tíma. Þegar hann var gripinn sagði hann að hann hefði haft kynferðislega ánægju af íkveikjunum, en einnig að hann hefði vonast til að einhverjir sofandi flækingar yrðu eldsvoðunum að bráð.

Herdómstóll dæmdi Peter fyrir liðhlaup auk þess sem hann var dæmdur fyrir íkveikjur, þjófnaði og fleira. Hann afplánaði í fangelsi í Münster frá 1905 til 1913, stærstan hlutann í einangrun vegna óhlýðni.

Árið 1913 framdi Peter framdi sitt fyrsta sannanlega morð árið 1913. Þann 25. maí, það ár, braust Peter inn í krá í Mülheim am Rhein. Þar rakst hann á níu ára gamla, sofandi stúlku, Christine Klein, dóttur bareigandans. Hann kyrkti stúlkuna og skar síðan á háls og fékk, að eigin sögn, sáðlát þegar blóðið draup úr sárinu á gólfið.

Daginn eftir fór hann á krá, sem var gegnt morðstaðnum, í þeim tilgangi einum að hlusta á fólk ræða ódæðið. Hann bætti um betur og fór iðulega á næstu vikum að gröf Christine Klein og sagði síðar, við yfirheyrslur, að hann hefði sjálfkrafa haft sáðlát þegar hann fór höndum um moldina á gröfinni.

Tveimur mánuðum síðar braust Peter inn á heimili í Düsseldorf. Þar hnaut hann um sofandi, 17 ára stúlku, Gertrud Franken. Peter tók um háls stúlkunnar og herti að. Þegar blóð fór að spýtast út um munn hennar hafði hann sáðlát. Hann yfirgaf síðan vettvanginn. Gertrud lifði árásina af, en grunur féll aldrei á Peter í því máli, ekki frekar en í máli Christine Klein.

Fangelsisvist

Aftur á móti var Peter handtekinn nokkrum dögum síðar fyrir íkveikjur og innbrot. Hann fékk sex ára dóm. Dómurinn var síðar lengdur um tvö ár vegna óhlýðni og slæmrar hegðunar. Dóminn afplánaði Peter í herfangelsi í bænum Brieg.

Árið 1921 losnaði hann úr grjótinu, flutti til Altenburg og gekk í það heilaga. Um tíma virtist sem eiginkona og heimilislíf róuðu huga hans, en það var lognið á undan storminum. Hugur hans leitaði til Düsseldorf og 1925 flutti hann þangað og var að mati flestra sem til þekktu hæglætismaður með meinleysislegt áhugamál, sem var fuglaskoðun. Hann birtist fólki sem snyrtilegur og yfirmáta kurteis maður.

En Düsseldorf varð vettvangur ógnarverka sem gerðu Peter ódauðlegan í sögu borgarinnar. Hann hlaut viðurnefnið Blóðsugan í Düsseldorf og segir sagan að hann hafi haft sérstaka ánægju af því að láta blóð fórnarlambanna spýtast upp í munn sinn og kyngja því.

Árið 1929 hélt Peter Kürten íbúum Düsseldorf í heljargreipum ótta, en enginn vissi á honum deili. Næstum vikulega fannst nýtt lík, sundurskorið eða barið til dauða, og hafði fórnarlambinu jafnvel verið kynferðislega misþyrmt.

Flest voru fórnarlömbin ungar konur, en karlmenn og börn var einnig að finna á meðal þeirra. Áttunda febrúar 1929 er talið að ógnaræðið hafi hafist. Þá réðist Kürten á unga konu og misþyrmdi henni hrottalega. Einnig misþyrmdi hann kynferðislega átta ára stúlku og myrti síðan. Hann stakk hana þrettán sinnum, hellti yfir hana lampaolíu og bar eld að.

Óviðráðanlegt morðæði

Tæpri viku síðar myrti hann miðaldra vélvirkja með því að stinga hann tuttugu sinnum með hnífi, en síðan tók hann sér hlé frá ódæðum í um fimm mánuði. En síðla ágústmánaðar er engu líkara en þorsti hans í fórnarlömb hafi verið óviðráðanlegur. Þann 21. ágúst stakk hann þrjár manneskjur, tveimur dögum síðar myrti hann tvær systur, fimm og fjórtán ára. Daginn eftir að hann myrti systurnar stakk hann enn eina konu til bana.

Engu líkara er en Peter hafi öðlast einhverja fullnægju við morðin sem hann framdi í ágúst, því í september lét hann sér nægja eitt einstakt ódæði. En Peter kastaði ekki höndunum til þess, því um var að ræða þjónustustúlku sem honum hafði tekist að lokka út í skóg sem var rétt fyrir utan Düsseldorf. Eftir að hafa nauðgað stúlkunni barði hann hana til bana með hamri.

Peter virðist hafa haft mikið dálæti á hamri sem vopni og í október réðst hann á tvær konur með hamarinn reiddan á loft. Lögreglan stóð ráðþrota gagnvart ódæðunum sem héldu borginni í ógnargreipum. Fórnarlömbin voru af margvíslegum toga og aðferðirnar ólíkar og á tímabili hélt lögreglan að um fleiri en einn ódæðismann væri að ræða. Lögreglan fékk ekki færri en níu hundruð þúsund nöfn hugsanlegs morðingja í þeim vísbendingum sem rigndi yfir hana.

„Já, ef ég hefði haft tækifæri til hefði ég stundað fjöldamorð – það hefði líkst hamförum.“

En hvorki gekk né rak í leitinni að Blóðsugunni frá Düsseldorf, eins og hið óþekkta skrímsli var, þegar þar var komið sögu, kallað í fjölmiðlum. Peter Kürten lét ekki deigan síga og 7. nóvember myrti hann fimm ára stúlku með því að kyrkja hana og stakk hana síðan þrjátíu og sex sinnum með skærum. Til að fullkomna óhugnaðinn sendi Peter kort til dagblaðs í Düsseldorf og sýndi kortið hvar litla stúlkan var grafin.

Fjöldi líkamsárása

Morð Peters á ungu telpunni í nóvember var hans síðasta. En frá febrúar 1930 fram í mars sama ár stóð hann að baki fjölda árása með hamri, sem ekki leiddu til dauða fórnarlambanna. Í maí sama ár gaf hann sig á tal við unga konu, Maríu Budlick. Samtal þeirra leiddi til þess að hann fór með hana heim til sín, en síðan út í Grafenbergerskóg. Þegar í skóginn var komið nauðgaði hann Maríu en, einhverra hluta vegna, leyfði Peter henni að halda lífi. María Budlick vísaði lögreglunni á heimili Peters, en þar greip lögreglan í tómt.

Um skeið tókst Peter að forðast lögregluna, en um síðir viðurkenndi hann ódæði sín fyrir eiginkonunni og sagði henni að hafa samband við lögregluna. Peter Kürten var handtekinn þann 24. maí 1930. Fyrir framan lögregluna stóð maður sem geislaði af hógværð og kurteisi, maður sem heilli borg hafði staðið ógn af um fimmtán mánaða skeið. Kaldrifjaður morðingi sem hafði sent lögreglunni vingjarnlega skrifuð bréf þar sem vísað var á lík fórnarlamba og hafði valdið því að mæður bönnuðu börnum sínum að leika úti og að fólk óttaðist að vera á ferli eftir að rökkva tók. Maður með þrjátíu ára glæpaferil að baki.

Í varðhaldi játaði Peter sök í máli Maríu Budlick og auk þess játaði hann á sig fjölda morða. Allt í allt játaði hann á sig sjötíu og níu glæpi. „Þið munið heyra af mörgum óhugnanlegum hlutum,“ sagði hann við þá sem yfirheyrðu hann. Hann upplýsti lögregluna um að honum líkaði vel að drepa, „því fleira fólk, því betra. Já, ef ég hefði haft tækifæri til hefði ég stundað fjöldamorð – það hefði líkst hamförum.“

Dauðadómur

Á hverju kvöldi hafði Peter leitað fórnarlamba og fundið til kynferðislegrar fullnægju við morðin. Talið er að PeterKürten hafi haft yfir þrjátíu mannslíf á samviskunni, en þegar upp var staðið var hann ákærður fyrir níu morð og sjö morðtilraunir. Réttarhöldin yfir honum hófust í apríl 1930 og til að byrja með lýsti hann sig saklausan af ákæruatriðunum. En eftir nokkrar vikur venti hann sínu kvæði í kross og játaði sekt sína. Peter var dæmdur til dauða.

Þýsk yfirvöld úrskurðuðu að Peter Kürten væri geðveikur og gekk sá úrskurður þvert á álit margra bestu geðlækna landsins. Peter Kürten tjáði lögskipuðum læknum að aðaltilgangur ódæða hans væri „…að ráðast gegn þrúgandi samfélagi“. Hann neitaði ekki að hafa kynferðislega misnotað fórnarlömbin, en það hefði ekki verið aðalmálið. Þessi vitnisburður gengur í bága við niðurstöðu læknis að nafni Karl Berg. Berg tók fjölda viðtala við Peter Kürten á meðan hann beið aftökunnar og sagði Peter aðalástæðu morðanna hafa verið af kynferðislegum toga og eingöngu leit að kynferðislegri fullnægju. Misjafn fjöldi hnífsstungna á fórnarlömbunum var til kominn vegna þess að stundum tók það lengri tíma að fá fullnægingu. Peter sagði að blóð væri órjúfanlegur hluti af kynferðislegri örvun.

Peter Kürten var tekin af lífi í Köln 2. júlí 1931. Rétt áður en blað fallaxarinnar sneiddi af honum höfuðið varpaði hann fram sinni síðustu spurningu: „Segið mér, eftir að höfuðið skilur við búkinn, mun ég samt geta heyrt, þótt ekki sé nema andartak, hljóðið þegar blóð mitt spýtist úr strjúpanum?… það yrði nú ánægja til að binda endi á alla ánægju.“

Vísindamenn reyndu árið 1931 að útskýra persónuleika og hegðun Peters Kürten með því að rannsaka heila hans. Hauskúpa Blóðsugunnar frá Düsseldorf er til sýnis á Ripley‘s-safninu í Wisconsin.

Hlusta má á stikklu úr þættinum með því að smella hér. Þá má hlusta á allan þáttinn sem og aðra sakamálaþætti með því að kaupa áskrift hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -