Sá ævintýraljómi sem lék um Bonnie og Clyde í upphafi sameiginlegrar sögu þeirra máðist skjótt. Rómantíkin sem almenningur í Bandaríkjum kreppuáranna tengdi við þau fölnaði og eftir stóðu forhertir morðingjar. Það sem hófst sem ævintýri ungs ástfangins pars breyttist í flótta undan vörðum laganna og í kjölfarið hrúguðust líkin upp.
Bonnie Parker og Clyde Barrow voru alræmdir útlagar og bankaræningjar sem settu svip sinn á Bandaríkin upp úr 1930. Þau fóru vítt og breitt um miðfylki Bandaríkjanna og náðu athygli allrar þjóðarinnar með verkum sínum. Almenningur og fjölmiðlar fylgdust náið með ferli þeirra og þau urðu þekkt fyrir að ræna banka, þótt þau hafi í meira mæli gert atlögu að bensínstöðvum og smáverslunum. Almennt hefur verið álitið að Bonnie hafi verið fullgildur meðlimur í glæpagengi Clyde Barrows og því meðsek í öllum glæpum sem gengið framdi. Tveir meðlima gengisins, W.D. Jones og Ralph Fults, báru á sínum tíma vitni um að þeir hefðu aldrei séð Bonnie skjóta af byssu. Skuggi kreppunnar miklu lá yfir því samfélagi sem Bonnie og Clyde spruttu upp úr. Atvinnuleysi var mikið og fjöldi atvinnu- og heimilislausra neyddist til að setjast að í hreysahverfum. Framtíðarvonir véku fyrir áhyggjum af næstu máltíð. Því var kannski ekki að undra að almenningur dáðist að Bonnie og Clyde og í einhvern tíma urðu þau að ímynd nútíma Hróa hattar og nærvera Bonnie Parker var ekki til að skemma ímyndina. Talið er að gengið hafi á ferli sínum banað að minnsta kosti níu lögregluþjónum og nokkrum öðrum að auki.
Bonnie Parker fæddist 1. október 1910 í Rowena í Texas og ekki er mikið vitað um bernsku hennar. Hún var ágætlega pennafær og, líkt og aðrir unglingar, átti hún sér drauma. Hún var falleg stúlka og er talið að hún hefði getað orðið leikkona ef hún hefði viljað, en hún kastaði öllum draumum fyrir róða þegar hún giftist æskuástinni Roy Thornton. En Roy stóð ekki undir væntingum og átti það til að hverfa dögum saman og á endanum sparkaði Bonnie honum út, en hún skildi aldrei við hann. Átján ára og ein á báti vann Bonnie fyrir sér við framreiðslustörf. Ekki hvarflaði að henni á þeim tíma að handan við hornið lægju breytingar sem myndu hafa mikil áhrif á örlög hennar.
Clyde Barrow fæddist 24. mars 1909 í Ellis-sýslu í Texas. Skólaganga Clydes var gloppótt og áður en hann náði tvítugsaldri hafði hann verið handtekinn fjórum sinnum, en vegna skorts á sönnunum slapp hann með skrekkinn. Í janúar 1930 hittust Bonnie og Clyde fyrir tilviljun í Vestur-Dallas þar sem Bonnie var í heimsókn hjá vini sínum. Í ljós kom að Clyde þekkti vininn líka og tilviljun ein réð því að þar hittust þau í fyrsta sinn. Hvort um var að ræða ást við fyrstu sýn eða ekki kom hjónaband aldrei til greina; Bonnie var gift kona.
Fangelsi, frelsi og stutt stilla
Þær taugar sem mynduðust á milli þeirra styrktust hratt, en fyrr en varði ráku lögin fleyg á milli þeirra. Clyde var handtekinn og á endanum játaði hann á sig nokkur innbrot og bílþjófnað og var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar. Bonnie var ástfangin og heimsótti Clyde í grjótið á nánast hverjum degi. Í einni slíkri heimsókn, að beiðni Clydes, kom hún með skammbyssu og næstu nótt flúði Clyde, klefafélagi hans og einn að auki. Clyde og klefafélaginn komust ekki langt og fyrir uppátækið hlaut Clyde fjórtán ára dóm.
Clyde var ítrekað misþyrmt kynferðislega í fangelsinu, en hann svaraði fyrir sig og barði þann sem í hlut átti til bana með járnröri. Þetta var hans fyrsta morð, en félagi Clydes í fangelsinu, sem afplánaði lífstíðardóm, tók á sig sökina.
Til þess að komast hjá því að vinna erfiðisvinnu á ökrunum, eins og tíðkaðist þá, skar Clyde af sér tvær tær, eða fékk samfanga sinn til að gera það, og gekk haltur þaðan í frá. En það sem Clyde vissi ekki var að móðir hans hafði þá á bak við tjöldin samið um lausn hans úr fangelsinu og hann gekk frjáls maður út úr því 2. febrúar 1932, aðeins tveimur dögum eftir að hann skar af sér tærnar.
Þá var Clyde orðinn harðbrjósta og bitur glæpamaður og haft var eftir systur hans að hann hefði gerbreyst í fangelsinu. Samfangi hans, Ralph Fults að nafni, sagðist hafa fylgst með hvernig Clyde hefði „breyst úr skólastrák í skröltorm“.Clyde tókst að halda sér á mottunni í hálfan mánuð. Þá leitaði hann Bonnie uppi og þau lögðu upp í ferðalag – á stolnum bíl. Armur laganna er langur, en í þetta skipti náði hann taki á Bonnie en Clyde komst undan. Bonnie eyddi nokkrum mánuðum í fangelsi í Kaufman í Texas.
Krossgötur
Á meðan Bonnie var í fangelsi komst Clyde á bragðið. Hann rændi Sims-olíufélagið í Dallas og síðan skartgripaverslun. Eigandi skartgripabúðarinnar, John Bucher, dó þann dag. Clyde sagðist saklaus af því og sagði félaga sinn, Raymond Hamilton, vera ábyrgan. Sú yfirlýsing bar ekki árangur, og þaðan í frá var Clyde brennimerktur morðingi. Í kjölfar skartgriparánsins fylgdi röð bensínstöðvarána. Glæpaferill Clydes Barrow var hafinn fyrir alvöru.
Þegar Bonnie losnaði úr fangelsi tók hún sess sinn við hlið Clydes. Þann 5. ágúst skutu Clyde og Hamilton til bana tvo lögregluþjóna í Atoka í Oklahoma. Hvort sem það var af ásettu ráði eða tilviljun þá var Bonnie ekki með þeim í för þann örlagaríka dag. En almenningsálitið var að breytast. Bonnie og Clyde hættu að vera hetjur í augum almennings og rómantíkin sem hafði sveipað feril þeirra hvarf. Þau voru ekki lengur krakkar í uppreisn gegn kerfinu heldur kaldrifjaðir morðingjar. Þræðir tilveru Bonnie og Clydes byrjuðu að rakna upp og það sem í upphafi átti að verða ævintýraferð í gegnum miðvesturríkin hafði breyst í örvæntingarfullan flótta fyrir frelsi. Felustaðir þeirra og griðastaðir voru ekki lengur öruggir. Hamilton var handtekinn og dæmdur til 263 ára fangelsisvistar og lögreglan hafði tekið af sér silkihanskana. Slíkt hið sama mátti segja um Clyde Barrow og enn einn lögregluþjónninn lá í valnum.
Líkin hrannast upp
Í mars 1933 losnaði Buck, bróðir Clydes, úr fangelsi og skömmu síðar slógust Buck og eiginkona hans, Blanche, í hóp Clydes. Um skamma hríð tókst þeim að una í friði í Joplin í Missouri, en vegna misskilnings gerði lögreglan atlögu að húsinu sem óbermin héldu til í. Lögreglan hélt að þar væru til húsa bruggarar og í skotbardaganum féllu tveir lögregluþjónar. Við leit í húsinu fundust meðal annars filmur og á einni þeirra var mynd af Bonnie að reykja vindil. Sú mynd átti eftir að verða fræg.
En lánið virtist hafa yfirgefið Bonnie og Clyde. Á stolnum bíl óku þau út af brú sem var í smíðum. Bonnie klemmdist undir bílnum og fékk þriðju gráðu brunasár. Gengið leigði kofa í Platte í Missouri, en Bonnie var sárþjáð og þurfti læknisaðstoð. Apótekarinn sem þau leituðu til hafði samband við lögregluna og enn og aftur lenti Clyde-gengið í skotbardaga við verði laganna. Liðin var sú tíð að gengið kæmist áfallalaust úr slíkum uppákomum. Buck og Clyde fengu báðir skot í sig og Blanche fékk gler í augun, en þrátt fyrir það tókst þeim að flýja.
Buck og Blanche gripin
Þremur dögum síðar var lögreglan komin á sporið, en gengið var þá í felum í skóglendi fyrir utan Dexter í Iowa. Í óðagotinu sem fylgdi ók Clyde bíl þeirra á tréstubb og lögreglan hóf skothríð. Clyde fékk nokkur skot í sig, en tókst að bjarga sér og Bonnie og þau flúðu í gegnum kornakur. Buck og Blanche áttu ekki slíku láni að fagna. Þau voru bæði handtekin en Buck var helsærður og lést þremur dögum síðar. Blanche var send í ríkisfangelsið í Missouri.
Fram undan voru daprir mánuðir. Einn félaganna yfirgaf skötuhjúin og taldi sig hólpnari einan en í slagtogi með þeim. Eftir voru Bonnie, Clyde og Henry Methyin. Bonnie og Clyde lentu í fyrirsát lögreglunnar þegar þau ætluðu að heimsækja foreldra Clydes, en þrátt fyrir að vera skotin í fótleggina tókst þeim að komast undan. Þar sem þau voru bæði særð var ljóst að þau þyrftu liðsauka. Þau náðu sínum gamla félaga, Raymond Hamilton, og öðrum til úr fangelsi í Huntsville í Texas. Enn einn lögregluþjónn dó þann dag. Næstu mánuði var fjöldi banka rændur. Hvort sem það var með réttu eða röngu voru bankaránin skrifuð á gengi Clydes. Í mars 1934 yfirgaf Hamilton gengið, hann var síðar handtekinn og endaði í rafmagnsstólnum vegna morðs á fangaverði nóttina sem hann flúði frá Huntsville-fangelsinu.
Bonnie og vindillinn
Á páskasunnudag 1934 drápu Clyde og Methyun tvo lögregluþjóna sem höfðu stöðvað við bifreið þeirra. Lögreglumennirnir ætluðu víst aðeins að bjóða fram aðstoð sína. Fimm dögum síðar myrtu þeir lögregluvarðstjóra, Cal Campell að nafni, og rændu Commerce, lögreglustjóra Oklahoma, en slepptu honum nokkrum dögum síðar. Engu líkara var en Bonnie gæti ekki hugsað skýrt því hún lét Commerce lofa sér því að hann léti almenning vita að hún reykti ekki vindla. Frægasta myndin af henni fór greinilega meira fyrir brjóstið á henni en yfirvofandi dauði þeirra skötuhjúa. Lögreglan neytti allra leiða til að hafa hendur í hári þeirra. Vinir og fjölskyldur voru áreittar í tíma og ótíma og á endanum var leitað til Franks Hamer, liðsmanns U.S. Rangers. Hamer hlýtur að hafa haft lyktarskyn sporhunds því hann komst fljótt á slóðina og tapaði henni aldrei. Alla jafna var hann einum degi á eftir þeim, en eftirförin kostaði þrjá lögreglumenn lífið. Gengið leitaði hælis hjá Ivan, föður Henrys Methyin, og sagan segir að hann hafi sagt til þeirra í von um vægari dóm syni sínum til handa. Ivan sagði Hamer frá „pósthúsinu“ sem var í raun viðarplanki þar sem gengismeðlimir skildu eftir skilaboð sín á milli og til fjölskyldumeðlima, og ef Bonnie og Clyde væru í nágrenninu myndu þau án efa reyna að nálgast póst sinn.
Fyrirsát
Hamer kallaði nokkra vini sína til hjálpar og í skjóli nætur komu þeir sér fyrir og biðu parsins alræmda. Rúmlega níu næsta morgun óku Bonnie og Clyde inn í fyrirsát. Ekki er vitað hver félaga Hamers gekk í veg fyrir bílinn, neyddi þau til að stoppa og sagði þeim að gefast upp. Þegar Clyde teygði sig eftir byssu sinni hóf eftirreiðarsveitin skothríð og þegar upp var staðið hafði eitt hundrað sextíu og sjö skotum verið hleypt af og drungaleg þögn lagðist yfir vettvanginn. Dagurinn var 23. maí árið 1934 og staðurinn var vegur nálægt Bienville Parish í Louisiana. Eftirreiðarsveitin samanstóð af fjórum lögreglumönnum frá Texas og þremur frá Louisiana. Bonnie og Clyde voru liðin lík. Margir eru þeirrar skoðunar að eina sök Bonnie hafi verið að falla fyrir röngum manni. Hún var Clyde trygg allt til enda og dauði lögregluþjóna varð lítilvægur í samanburði við samband þeirra. Ástin er vissulega blind. En saga og ferill Bonnie og Clydes er vissulega fjarri sögunni um Hróa hött sem rændi ríka og gaf fátækum.