Hvenær eiga þeir afturkvæmt í samfélagið? Sölvi Tryggva, Ingó veðurguð, Kolbeinn Sigþórs, KSÍ, og hver er næstur.
Me too umfjöllun í samfélaginu hefur náð hámarki síðastliðnar vikur og það veit enginn hvort covid sé ennþá, eða hvort eldgosið sé búið.
Við heyrðum það bara ekki fyrir víkingaklappinu
Þessi mál sem hafa fengið að grassera í þjóðfélaginu líta nú dagsins ljós með tilheyrandi umfjöllun og áfalli hjá almenningi þar sem allir samfélagsmiðlar loga. Það skal þó ekki ósagt að sumt af því sem fjallað hefur verið um eru sögur sem hafa verið á sveimi í samfélaginu í nokkur ár. Við heyrðum það bara ekki fyrir víkingaklappinu og gítarnum.
Fólk er reitt, vonsvikið og stundum óþarflega orðljótt í samskiptum og yfirlýsingum á opinberum vettvangi.
Sölvi Tryggva og Ingó eru einhverstaðar á Spáni, Klara situr ein eftir í KSÍ en er nú farin í leyfi í óákveðinn tíma, einnig er óvíst hvort hún hafi farið til Spánar. Kolbeinn kemur af fjöllum og kannast ekki við að hafa gert neitt af því sem hann er sakaður um. Þetta er víst allt í saman í „ferli‘‘
Kallið mig níska en 5 milljóna króna greiðsla fyrir eitthvað sem maður man ekki eftir er há upphæð.
Sumir velta því núna fyrir sér hvernig framtíð þessara manna sé. Eru þeir sem gera mistök eða brjóta af sér dæmdir úr leik af þjóðinni eða eiga þeir afturkvæmt.
Þessir einstaklingar sem hefur verið fjallað um eru ólíkir. Tónlistarmenn, fótboltamenn, sjónvarps- og útvarpsþátta stjórnandi, á mismunandi aldri. Þeir eiga það eitt sameiginlegt að enginn þeirra hefur gengist við því sem hann hefur verið sakaður um. Ekki ein mistök, brot, eða eftirsjá. Það að afsaka sig er ekki það sama og að biðjast afsökunar.
Enginn þeirra hefur sagst ætla að gera betur eða beðist afsökunar.
Á viðbrögðunum að dæma fær maður það næstum á tilfinninguna að þeim finnist umræðan nú bara hálf ósanngjörn.
Að sjálfsögðu ætti enginn, aldrei, að viðurkenna eitthvað sem hann hefur ekki gert- en er þetta þá allt saman lygi, uppspuni frá A til Ö, frá einum þjóðþekktum manni hins til næsta.
Ég veit það ekki.
Aftur á móti held ég, án þess að vita fyrir víst, að Íslendingar, geti fyrirgefið öllum þeim sem vilja gera betur. Þeim sem vilja laga það sem hefur ekki verið í lagi og unnið að því að vera betri fyrir komandi kynslóðir.
Það eru einstaklingarnir sem eiga afturkvæmt í samfélagið. Hiklaust að mínu mati, og er það eflaust mikið betri aðferð en að halda í vonina að þjóðaríþróttin okkar haldi áfram að vera gamla góða „gleymskan“.