Föstudagurinn 25. maí 2018 er dagsetning sem ég mun aldrei gleyma því það er dagurinn sem starfsmaður Eimskips drap mig næstum því.
Forsaga málsins er sú að ég var að labba yfir gangbraut rétt fyrir 9:00 í Álftamýri við heimili mitt þegar sendiferðabíll á vegum Eimskips keyrði næstum á mig. Ég þurfti að hafa mig allan við til þess að eiga möguleika á að forða mér frá bílnum. Það rétt hafðist. Rétt er að taka fram að þetta var upp við Álftamýrarskóla og er hámarkshraði götunnar 30 kílómetrar á klukkustund.
Áður en ég labbaði yfir götuna þá sá ég vissulega bílinn í mikilli fjarlægð en hann var svo langt frá að mér datt ekki í hug að hann yrði nærri mér þegar ég labbaði yfir götuna og ef svo væri þá myndi hann augljóslega stoppa. Eini möguleikinn þess að við myndum mætast væri ef hann væri langt yfir hámarkshraða og það reyndist raunin. Ég á erfitt með að trúa öðru en hann hafi verið á 50 kílómetra hraða, mögulega meira.
Ég var í áfalli. Ég sat á gangstéttinni að ofanda og horfði á eftir bílnum keyra í burtu. Hann stoppaði ekki til að athuga hvort það væri í lagi með mig, hægði ekki einu sinni á sér. Ekki neitt. Ég hefði auðvitað átt að spyrja Álftamýrarskóla hvort atvikið hafi náðst á myndavélar skólans og kæra svo málið til lögreglu. Mögulega hefði ég átt að hafa samband við fjölmiðla enda var þetta galin hegðun, sérstaklega upp við grunnskóla í 30 götu.
Ég gerði það ekki. Eftir á að hyggja voru það mistök.
Það sem ég gerði hins vegar var að senda Eimskip tölvupóst daginn eftir og greina frá þessu. Ég átti ekki sérlega von á miklu. „Sæll Brynjar. Takk fyrir að láta okkur vita, við biðjumst afsökunar á þessu og munum tala við bílstjórann til að tryggja að svona komi ekki aftur fyrir,“ hefði dugað. Ég fékk hins vegar ekkert svar.
Í júlí sama ár sendi ég svo annan tölvupóst þar sem ég kom skilaboðum mínum áleiðis og aftur fékk ég ekkert svar. Viðbragðsleysið kom mér svo á óvart að ég var byrjaður að gaslýsa sjálfan mig og farinn að efast um að þetta hafi í raun gerst.
En af hverju er ég að segja þessa sögu núna mörgum árum seinna?
Ég lenti í svipuðu atviki á föstudaginn í síðustu viku en sem betur fer þurfti ég ekki henda mér í jörðina til að halda lífi. Hins vegar þá hefði ég látið lífið ef ég hefði labbað úr vinnunni 1-2 sekúndum fyrr vegna þess að þegar ég ætlaði að labba yfir á grænu gönguljósi í Ármúla keyrði sendiferðabíll næstum á mig. Nú hef ég sent tölvupóst á viðkomandi stórfyrirtæki og ekki ennþá fengið viðbrögð.
Maður hefði haldið að þegar starfsmenn drepa næstum því almenna borgara þá sé það sett í forgang en svo virðist ekki vera. Kannski á það aðeins við í mínu tilfelli.