Föstudagur 25. október, 2024
0.5 C
Reykjavik

Dalton, Timothy Dalton

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Timothy Dalton er minn James Bond og ef ég heyri einu sinni enn að Sean Connery sé hinn eini sanni James Bond þá gubba ég upp í mig og kyngi því öllu.

Hinn eini sanni James Bond er ekki til – bara uppáhalds.

Þegar Timothy Dalton tók við hlutverki James Bond af Roger Moore var hann svo ferskur að það brakaði í honum; frumraunin frá árinu 1987, The Living Daylights, er ein af uppáhalds Bond-myndunum mínum.

En það var ekki bara Dalton að þakka þetta með ferskleikann, heldur var farið að slá hressilega í Roger Moore – hann var úldnari í View To A Kill (skemmtileg mynd) en Sean Connery (í slöppustu Bond-myndinni) í Diamonds Are Forever.

Dalton var andstaða Moore (það liggur beinast við að bera þá saman).

- Auglýsing -

Moore túlkaði Bond sem mjúkan glaumgosa með allt á hreinu sem skyrpti út úr sér fimmaurabröndurunum um leið og hann barðist við illfygli sem áttu það sameiginlegt að þrá heimsyfirráð, á meðan Dalton var glerharður og mun líkari þeim karakter sem Ian Fleming skapaði upphaflega í bókunum.

Dalton dró upp nýja mynd af njósnaranum – hans Bond er alvarlegur en ekki leiðinlegur, eins og flest alvarlegt fólk er.

Hann barðist við trúverðuga andstæðinga – vopnasala og eiturlyfjabaróna, og var í uppreisn gegn yfirmönnum sínum.

- Auglýsing -

Í hinni Bond-myndinni sem Dalton lék í, Licence To Kill, frá árinu 1989, er Bond í hefndarhug og gefur skít í M og heldur í persónulega hefndaraðgerð þar sem engu er eirt. Sú mynd er sú blóðugasta og grimmasta í allri seríunni; hingað til.

Með alvarleika sínum og hörku, í bland við ómótstæðilegt bros, svartan húmor og andfélagslega hegðun, ruddi Dalton brautina fyrir Daniel Craig, sem tók við keflinu 17 árum eftir að Dalton lagði njósnaskóna á hilluna – í millitíðinni hafði Pierce Brosnan gert fína hluti.

Þá er Dalton að mínu mati besti leikarinn – hingað til – sem túlkað hefur þessa frægu söguhetju, James Bond.

Dalton dregur upp mynd af njósnara sem líður ekki vel með öll drápin sem hann hefur framið; hann er öróttur að innan – fallegur að utan – og stútfullur af dimmum hugsunum – þreyttur, en samt til í einn bardaga í viðbót. Ekki hægt að biðja um meira.

Dalton brýndi hnífana og varpaði ljósi raunsæis á hlutverkið, en Moore var rómantískur, sem passar bara ekki við karakterinn James Bond.

Þess má geta að Dalton lék áhættuatriðin sjálfur í myndunum tveimur; fór fram á ystu brún, eins og karakterinn upphaflega.

Timothy Dalton er eins raunverulegur sem James Bond og mögulegt er.

Timothy Dalton er og verður alltaf  minn James Bond.

Ps: Ef ég fengi einhverju ráðið yrði Tom Hardy næsti James Bond.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -