Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Dánaraðstoð á dagskrá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur/ Henry Alexander Henrysson, heimspekingur. 

Þegar stór álitamál koma upp í íslensku samfélagi er það kunnur siður að gleyma efnisatriðum um stund og rífast þess í stað um hvað kalla eigi hlutina. Mér er ein slík umræða sérstaklega minnisstæð þótt hún sé kannski ekki dæmi um stórt álitamál. Hún fjallaði um stöðu Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og hvort stofnunin gæti leyst af hendi sama hlutverk og Landsiðaráð í nágrannalöndum. Ekki tókst að kveikja meiri áhuga á þessu efni en svo að eina umræðan sem ég man eftir var hvort rita ætti Landsiðaráð eða Landssiðaráð. Önnur efnisatriði náðu aldrei flugi.

Það hefði verið ágætt að hafa raunverulegt Landsiðaráð þessi misserin þegar kallað er eftir því að dánaraðstoð verði rædd í íslensku samfélagi og að hlutlaus skýrsla verði unnin fyrir Alþingi um efnið. Líklega mun umræðan að lokum festast í því, að íslenskum sið, hvort tala eigi um líknardráp eða dánaraðstoð. En það breytir ekki því að efnið er komið á dagskrá. Persónulega finnst mér engin ástæða til að fetta fingur út í að nýtt hugtak – dánaraðstoð – hafi náð flugi og finnst raunar að allir ættu að geta sammælst um það, hver svo sem afstaða þeirra er. Fjölmiðlar hafa verið duglegir undanfarið að skoða efnið ásamt því að pistlar hafa birst frá fólki sem vill halda umræðu um það lifandi. Dánaraðstoð er það hugtak sem virðist ætla að verða ofan á í umræðunni.

Samtökin Lífsvirðing hafa líklega, að öðrum ólöstuðum, átt þátt í að umræða um dánaraðstoð á sér stað þessi misserin. Þetta eru samtök sem vilja stuðla að uppbyggilegri umræðu og fræðslu um dánaraðstoð ásamt því að reyna að stuðla að því að Alþingi samþykki löggjöf sem opni á þennan möguleika svo fólk geti dáið með reisn. Slík samtök eru nauðsynleg í öllum lýðræðissamfélögum. Án slíkra samtaka um málefnalegar skoðanir er hætt við að þær komist ekki á dagskrá og fái ekki næga kynningu. Lífsvirðing hefur staðið sig býsna vel í þessu hlutverki sínu þótt persónulega hefði ég viljað sjá minni áherslu á sögur af fólki – bæði fagaðilum og sjúklingum – og meiri þunga á grundvallaratriði varðandi dánaraðstoð.

Meginþema þeirra sem vilja koma umræðu um dánaraðstoð „á dagskrá“, eins og það er kallað, er að fólki hafi rétt á að deyja með reisn. Ein birtingarmynd þessarar hugmyndar er að þetta sé frelsismál – frelsi í lífi og dauða, eins og það var orðað í nýlegri blaðagrein. Ef ólíkar fylkingar í afstöðu til dánaraðstoðar eru sammála um nokkuð þá er það mikilvægi þess að fólk fái tækifæri til að kveðja þennan heim á sem fallegastan máta sem orsakar sem minnstar þjáningar. Ég held að það hljóti að vera einkennilega kaldlynt viðhorf að mæla gegn því að fólk hafi rétt á að deyja með reisn. Hver sá sem hefur reynslu af því að sitja við dánarbeð náins aðstandanda þekkir það hversu mikilvægt siðferðilegt gildi virðing er við þær aðstæður. Spurningin er hvort líknandi meðferð við lífslok dugi eða hvort heilbrigðisstarfsfólki beri að aðstoða sjúklinga yfir móðuna miklu með afdrifaríkara inngripi.

Það er ástæða til að benda á eitt varðandi þetta meginþema í röksemdafærslum fólks sem styður lagasetningu um dánaraðstoð og telur hana í raun teljast til mannréttinda. Sérstaklega í ljósi þess hversu sammála allir aðilar eru um að mannúðlegir valkostir eigi að standa alvarlega sjúku fólki til boða. Til að útskýra hvað ég er að fara mætti kannski grípa til ákveðinnar samlíkingar. Það myndi teljast gróft brot á mannréttindum tiltekinnar persónu að koma í veg fyrir að hún fái að njóta ástar annarrar manneskju ef báðir aðilar bera sterkan hug til hvors annars. Saga bókmennta og lista er full af dæmum um það hvernig við lítum slík brot á réttindum fólks. En þó getur það varla talist til mannréttinda að einhver sé ástfanginn af manni. Slíkur réttur krefst einhvers af öðru fólki sem við getum ekki ætlast til að sé til staðar. Ef allir hefðu rétt á að vera elskaðir þá væri ég hræddur um að það þyrfti að ræsa út ansi stóran hóp fólks til að fullnægja þeim réttindum. Það er aðeins ef það er almennt og vel ígrundað viðhorf innan samfélags (eða þess hóps sem á að framfylgja réttindum) sem okkur ber að mæta óskum einstaklinga um að hagsmunir þeirra nái fram að ganga.

- Auglýsing -

Eitt er þó mikilvægt að hafa í huga að mínu áliti. Maður kann að setja spurningamerki við röksemdir þeirra sem vilja sjá löggjöf um dánaraðstoð á Íslandi. Persónulega sé ég ekki hvernig það getur talist til mannréttinda að manni sé veitt læknisfræðileg aðstoð við að binda enda á líf sitt. Og ég hef enn ekki séð hvernig löggjöf á að líta út sem er ekki stútfull af siðferðilegum álitamálum sem saman skapa margar óyfirstíganlegar hindranir. En það þýðir ekki að maður taki undir málstað þeirra sem telja dánaraðstoð siðlausa eða siðferðilega ámælisverða. Því fer fjarri. Fagfólk víða um heim hefur málefnalegar ástæður til að taka þátt í því ferli og gerir það í fullri sátt við samvisku sína. Einnig finnst mér það einkennileg skilaboð til fólks sem þráir líkn og hefur ákveðið að leita sér dánaraðstoðar, að það sé þar með verða þátttakandi í siðlausu ferli. Slík skilaboð eru bæði yfirlætisleg og meiðandi og vona ég þau heyri brátt sögunni til, þótt ég efist á sama tíma um að dánaraðstoð verði lögleidd á Íslandi í náinni framtíð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -