Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Ef ég er ekki héðan, hvaðan er ég þá?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þurfum við að tilheyra ákveðnu landi?

Hinn vestræni heimur byrjaði að aðskilja fólk út frá því hver átti uppruna sinn í Evrópu og hverjir frá Afríku. Af þeim augljósu ástæðum að þetta fólk var ólíkt í útliti. Einn hópur var ljós yfirlitum annar dökkur. Geta má að þeir sem dekkri voru höfðu í raun verið til lengur sem mannfólk – en er þetta þó ekki pistill um sögu mannkyns en ákveðins samhengis er krafist til að skilja það sem kemur á eftir. Þó fólk hafi aðskilið sig snemma hvert frá öðru þá var það ekki fyrr en 1907 sem orðið rasismi eða þjóðernisfordómar var skilgreint sem orð og hugtak í orðabók Oxford.

Ekki einungis aðskilnaður og flokkun út frá litarhafti eða uppruna heldur gildismat sett á milli fólks. Virði fólks var aðskilið og mismunandi. Og hegðunin fylgdi svo eftir virði þess. Hátt virði samasem varfærnisleg og virðingarverð meðhöndlun, lágt virði samasem ofbeldisfull og óvirðingarverð meðhöndlun. Einhversstaðar varð til flokkunarkerfi á þetta gildismat líka en hvar nákvæmlega er ég ekki alveg viss. Þarf að rýna aðeins betur í sögubækurnar fyrir það og efnisplássið hér á vefnum leyfir mér ekki meira en smá yfirborðs klór.

Við erum greinilega þannig gerð að við þurfum ákveðna ramma. Skilning á umhverfi okkar og okkar hlutverki innan þess. Við setjum samhengi á milli hluta sem eru eins. Við meira að segja lærum og leikum okkur að því með spilum sem börn. Samstæðuspil. Svo staðsetjum við okkur sjálf innan þess sem er eins og við annars vegar og ólíkt okkur hins vegar. Okkur líður oft óþægilega nálægt því sem er ólíkt okkur. Getum við lært að þenja takmörk GPS kerfis okkar þannig að það sem er staðsett annars staðar verður allt í einu nálægt okkur án þess að GPS kerfið okkar hrynji?

Við erum eða ættum að vera fær um að líta framhjá þeim þáttum sem gerir okkur ólík og geta séð það sem gerir okkur lík. Eins og t.d. eðli okkar. Þarfir okkar. Réttur okkar á að lifa. Hann hlýtur að vera eins? Sama hvort fólk sé brúnt eða hvítt?

Liggur grunnurinn í þessari mismunun á því að við tengjum hvítt eða ljóst við hið góða en það sem er svart tengjum við, við hið illa? Hvenær lærðum við það? 

- Auglýsing -

Var það þegar dýrin fóru af stað í myrkrinu og það var ekki hægt að sjá? Við fórum í viðbragðsstöðu til að verjast gegn árásum, verja okkur sjálf og okkar flokk. Nóttin boðaði illt og sólarupprás boðaði gott. Gæti þetta kerfi verið jafn auðvelt og þetta? Það sem ég er að reyna að skilja er hvernig og hvenær varð það normið í fólks- flokkunarkerfinu að hið hvíta væri talið betra og verðugra? 

Dökkt fólk er ekki heimskt eða óþróaðra en það fólk sem er hvítt.

Sem dökk blönduð manneskja búsett í landi þar sem hvítt fólk hefur jafnan verið frá upphafi landnáms þá sker ég mig úr fjöldanum. Ég geri það einungis með því að hafa fæðst og andað. En ég fæddist jú inn í þennan heim hér á landi. Það vill þannig til. Ég fæddist ekki einhversstaðar og kom svo hingað. Það gerði hins vegar móðir mín. Fæddist óvart annars staðar en kom hingað sem ungabarn. Er ég meiri Íslendingur en hún þá eða? Er stigagjöf í hver er mesti Íslendingurinn? Hvítur, fæddur og uppalinn hér með 1000 ára íslenska ættarsögu best og svo koll af kolli? Verst þá auðvitað að vera þeldökkur aðfluttur í fyrra í leit að hæli vegna kúgunar í heimalandi. Eða kannski enn verra að vera af Arabablóði? Orðræðan finnst mér benda til þess að Arabaótti sé alveg hreint ótrúlegur í okkar samfélagi. Og já ég hef upplifað það á eigin skinni og ég hef þó ekkert skylt með þeim þjóðflokkum af mér vitandi. Nema það auðvitað að vera mannvera og vera ljósbrúnn á litinn með svart hár. Ég persónulega elska þennan menningarheim, matinn, tungumálið, fólkið, tónlistina og dansinn. En samkvæmt kommentakerfi þjóðarinnar lít ég út fyrir að vera í minnihluta. En það er þessi hræðsla sem skín í gegn. Hvaðan kemur hún?

- Auglýsing -

Ég er svo feginn og já í raun stoltur af því að vera allskonar hinsegin í þessu samfélagi. Ég er stoltur af því að ég sé ekki húðlit, kynhneigð, trú, klæðaburð, líkamsburð eða tungumál sem eitthvað sem aðgreinir mig frá öðru fólki. Kannski er það vegna þess að ég fæddist öðruvísi inn í akkúrat þetta samfélag og hef bara þurft að sætta mig við það og þreifa fyrir mér allt lífið þannig. Eða vegna þess að ég er heppinn með foreldra. Ég veit það hreinlega ekki. Ég skil ekki hvernig og af hverju fólk gæti talið sig vera betra en ég eða eiga meiri rétt en ég á einhverju sem er opið okkur öllum að upplifa. Eins og jöfn atvinnutækifæri og kjör, heimili, öryggi, menntun, ást, kynlíf og virðing. Það er hundrað prósent ofar mínum mannlega skilningi að einhverjum finnist það í lagi að ræna saklausum börnum lífi án þess að blikka, eða finnist það jafnvel bara sjálfsagt. Af því að þessi börn eru bara ljósbrúnir Arabar sem alast hvort sem er bara upp til að verða hryðjuverkafólk? Af því augljóslega er allt Íslamtrúað fólk hryðjuverkafólk. Það stendur í einhverri bók og á allskonar vel völdum miðlum.

Málið er að við getum fundið allan skít og alla réttlætingu fyrir hræðslu okkar ef við bara leitum nógu mikið á netinu.

En förum aðeins með nefið upp úr netinu og út úr rassgatinu á okkur og horfumst bara í augu í raunheimum.

Ég er hér, ég er brúnn, ekki hundrað prósent Íslendingur, hommi, finnst ólíkir menningarheimar forvitnilegir og gæti allt eins verið frá Palestínu eða Sýrlandi. En ég er það ekki nema að því leyti að vera frá plánetunni jörð. Og ef ég er ekki héðan hvaðan er ég þá?

Friðrik Agni Árnason

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -