Fyrir rúmum 12 árum kynntist ég konu minni. Yndisleg, hjartahlý og fyndin eru þau orð sem ég kýs að lýsa henni með. Eins og flestir þá á hún fjölskyldu. Hún á móður, föður, systur og bróður og önnur skyldmenni úr öllum áttum. Nánast um leið og ég kynntist fjölskyldu hennar kom í ljós að dýrmætustu fjölskyldustundirnar í þessari fjölskyldu eiga sér stað í sumarbústað. Á hverju ári eru farnar að minnsta kosti fjórar ferðir í sumarbústað. Þau fara hingað og þangað og til að byrja með fór ég ekki í þær allar, en eins og gengur og gerist þegar sambönd verða alvarlegri jókst mín mæting. Það er þó einn bústaður sem oftast er farið í. Sá er rétt fyrir utan Flúðir.
Nú er ég sjálfur malbiksbarn, en eftir að hafa farið reglulega á Flúðir undanfarin 12 ár þá horfi ég stundum á bílamengunina út um skrifstofugluggann í vinnunni minni í Ármúla og læt dreyma mig um að rækta tómata á Flúðum. Það mun kannski aldrei gerast, en Flúðir hafa einhvern mátt yfir mér. Ef Árbærinn, þar sem ég ólst upp, er undanskilinn þá held ég að ekki neinn annar staður bjóði mér upp á jafn fallegar minningar og Flúðir.
Allt fólk sem ég hef hitt þar er kurteist og alltaf til í að hjálpa. Ég fékk að taka upp tónlistarmyndband í íþróttahúsinu og á dúkkusafninu. Ekkert vesen. Þrír af bestu veitingastöðum landsins eru á Flúðum og í nærsveitunum. Gamla Laugin er full af sjarma. Traktoratorfæran og furðubátakeppnirnar um Versló eru stórkostleg skemmtun. Veðrið virðist vera betra þar en á öllum öðrum stöðum. Svo gerðist það síðustu verslunarmannahelgi að það rigndi, sem undir öðrum kringumstæðum væri leiðinlegt, en ég hef aldrei á ævi minni séð jafn stóra regndropa. Ég þurfti að taka ljósmyndir og myndbönd til að sýna fólki í vinnunni. Besta grænmeti landsins kemur þaðan. Meira að segja hefur ÁTVR-verslun bæjarsins þrisvar sinnum unnið til verðlauna sem ÁTVR-verslun ársins.
Ein minning sem ég hugsa reglulega um er þegar við konan tókum þátt í spurningakeppni sem fór fram í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum fyrir nokkrum árum. Af einhverri ástæðu enduðum við í liði með feðgum sem eru af svæðinu. Áður keppni hófst þá var tíminn notaður til að kynnast feðgunum. Þeir voru fljótir að byrja gorta sig og sögðust hafa lent í 2. sæti árið áður og við gætum treyst á þá til sigurs. Þeir voru báðir nokkuð í glasi þannig að við stilltum væntingum okkar í hóf. Þegar keppni lauk kom í ljós að liðið okkar lenti í 2. sæti en framlag þeirra feðga var þó aðeins eitt stig. Okkur stóð hins vegar á sama af því að það var svo gaman að vera með þeim. Þeir skemmtu sér svo vel og það var svo greinilegt að þeir elskuðu hvor annan að það smitaði út frá sér. Þeir voru innilega glaðir.
Ég á ótal slíkar minningar af svæðinu og þess vegna dreymir mig um að rækta tómata á Flúðum. En fyrst þarf ég að læra rækta tómata.
Pistill þessi birtist fyrst í nýjasta tölublaði Mannlífs