Um áramótin var ég á mörkum þunglyndis og í volæði þegar ég uppgötvaði að ég komst ekki með góðu móti í fötin mín lengur. Beltið var komið í seinasta gat og þanið til hins ítrasta. Ég var með yfirbragð rúllupylsu með plömmer og beran nafla. Eina huggunin var sú að ég hafði ákveðið í samráði við þekktan trúarleiðtoga að byrja árið á 15-20 daga föstu og ná þannig tökum á ástandinu.
Eftir bakslag á 10. sólarhring föstunnar er allt að nálgast jafnvægi og það hyllir undir þorramatinn á Hótel Búðum. Síðdegis verð ég búinn að fasta í 12 sólarhringa.
Nú skal tekið fram að ég er þaulvanur því að fasta í 3-7 daga en þetta er það lengsta sem ég hef náð í þessum efnum. Á fimmtudaginn mun ég rjúfa föstuna eftir 15 daga föstu.
Spurt er hvaða gagn er af föstunni. Svarið er að þar með hreinsast út gamalt frumudrasl og annar innvortist óþverri. Þá léttist ég um heil ósköp.
Tilgangurinn með öllu þessu er ekki sá einn að verða krúttlegri í sjón og á velli. Þetta snýst um að forðast í lengstu lög þá sjúkdóma sem tengjast offitu og ólifnaði. Helstu heilbrigðisvandamál þjóðarinnar eru einmitt tengdir lífsstílssjúkdómum og ég forðast þann hóp. Og það er ekkert grín fyrir samfélagið þegar fólk étur á sig stíflaðar kransæðar. Eitt slíkt tilvik áunnins hjartaáfalls getur kostað heilbrigðiskerfið á bilinu 70 til 100 milljónir króna.
Annar og ekki síðri ávinningur er sá að vera léttari á fæti og sigrast á hæstu tindum. Það er strembið að kjaga upp hlíðar ,með 20-30 kíló aukalega af fitu og vatni og munar öllu að losa sig við þann farangur.
Ég hef fengið ótal ráð til þess að vinna gegn ófögnuðinum sem kemur aftur og aftur, svona eins og flóð og fjara. Þau eru allt frá því að fara í skurðaðgerð, svokallaða ermi, eins og margir hafa gert eða sprauta mig daglega með lyfi sem vinnur gegn sykursýki. Ég óttast hvorutveggja og held mig við föstur og breyttan lífsstíl.
Vandinn er og verður aftur á móti sá að viðhalda batanum með réttu mataræði í framtíðinni. Þar er hugmyndin sú að lifa á grænmeti frá mánudegi til fimmtudags. Dagana þar á eftir verður fiski bætt inn í máltíðarnar. Einn kjötdagur verður í hverri viku. Sykur er algjör bannvara og hveiti leyfist aðeins í undantekningatilvikum. Unantekningin er ein bakarísferð á laugardegi eða sunnudegi.
Já, og nú kemst ég aftur í fötin mín. Sjáum svo til hvað gerist.
Myndin er tekin eftir 11 daga föstu.