Sunnudagur 27. október, 2024
1.4 C
Reykjavik

Ég var feitt barn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég var feitt barn. Það hafði sínar afleiðingar. Við fituhlunkarnir urðum fyrir bæði beinu og óbeinu aðkasti vegna þess að við féllum ekki inn í normið. Sumir uppnefndu okkur. Í annan stað þá gátum við minna en hinir stæltu og snöggu.

Þetta var ekki eingöngu líkamlegt vandamál, heldur einnig andlegt. Þjáningin var sú að vera ekki eins og þessir mjóu. Unglingurinn var með lágt sjálfsmat og sá ekki fyrir sér að geta nokkurn tímann lifað eðlilegu lífi. Ég fitnaði löngu áður en stór hluti þjóðarinnar komst á þann stað. Enn þann dag í dag man ég skömmina sem hlaust af því að vera of feitur. Og ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég reyndi að stökkva yfir leikfimihestinn en brotlenti á pungnum. Hlátur æfingafélaganna bergmálar enn í gegnum áratugina.

Í dag er ég enn að glíma við holdafarið. Þetta er eins og flóð og fjara. Mér telst til að á lífsleiðinni hafi ég létt mig um 500 kíló í eilífri baráttu við að ná jafnvægi. Framan af lífsleiðinni hugsaði ég mest um að ná útliti sem félli að kröfum samfélagsins. Ég vildi verða tálgaður og helst með sixpakk. Seinna uppgötvaði ég að það gat falið í sér dauðann að kjaga um með líkamsþyngd sem var langt frá kjörþyngd. Það rann upp fyrir mér það ljós að lífið var að veði eða allavega vellíðan á efri árum.

Það er meira en hálf öld síðan ég var feita barnið sem var smánað af sjálfu sér og öðrum. Nú er staðan sú að þriðji hver einstaklingur á Íslandi er of feitur. Þetta er met ef litið er til OECD-ríkjanna. Mörg dæmi eru um að fólk sé farlama, langt um aldur fram. Fjölmargir láta lífið löngu áður en það er tímabært. Kostnaður heilbrigðiskerfisins og þar með samfélagsins er gríðarlegur. Það felst í því dýrkun á vanþekkingunni að halda því fram að það sé í lagi að vera of feitur. Kostnaðurinn vegna þess er himinhár fyrir alla. Og gjaldið sem feiti einstaklingurinn greiðir er skert hreyfigeta og vanlíðan.

Hitt er annað mál að það er bæði rangt og ljótt að smána þá sem glíma við offitu. Réttara væri að rétta þeim hjálparhönd, með einhverjum hætti. Offitusjúklingurinn og alkóhólistinn eru einfaldlega að glíma við sjúkdóma sem stórskaðar þá eða drepur.  Það þarf átak þjóðarinnar til að koma þessu fólki til bjargar. Fræðsla og hvatning í bland við hvers kyns lýðheilsuátak þurfa að vera markviss. Í rauninni ættu tvö stærstu stefnumál næstu ríkisstjórnar að snúast um þennan málaflokk og loftslagsmálin. Það þýðir gríðarlega áherslu á forvarnir og að upplýsa fólk um leiðir til að leysa vandann. Þessi ríkisstjórn hefur tækifæri til að bregðast við skelfilegu ástandi og jafnframt að stika leiðina út úr vandanum. Aðgerðarleysi er ekki í boði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -