Þriðjudagur 28. janúar, 2025
-5.2 C
Reykjavik

Eiturbyrlun í Dúkskoti – „Glitti í spýjuna í myrkri sem á maurildi sæi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 13. nóvember, 1913, lést karlmaður á Landakotsspítala. Fannst lögreglu og læknum sitthvað grunsamlegt við andlát mannsins. Að krufningu lokinni og í ljósi niðurstöðu hennar, sá lögregla sér ekki fært annað en að taka málið til rannsóknar. Banamein mannsins var fosfóreitrun.

Í Morgunblaðinu 17. nóvember sama ár var haft á orði að voðaatburður hefði átt sér stað „sem eigi á sinn líka í annálum Reykjavíkur eða landsins, og þó víðar sé leitað.“

Í Morgunblaðinu hafði birst smágrein tveimur dögum fyrr þar sem greint hafði verið frá andláti Eyjólfs Jónssonar verkamanns, sem bjó í Dúkskoti, og sagt að grunur léki á að eitrað hefði verið fyrir honum. Í fréttinni 17. nóvember segir síðan: „Oss var þá kunnugt um, hvað um var að vera, en eftir tilmælum lögreglustjóra var eigi meira af þessu sagt þá.“

Eyjólfur Jónsson var 48 ára gamall, ættaður frá Barðaströnd. Hann var talinn hamhleypa til vinnu, en aurasál mikil og sínkur þegar um fé var að ræða. Hann bjó sem fyrr segir í Dúkskoti, Vesturgötu 13.

Eyjólfur var talinn sterkefnaður, hafði lánað mönnum fé og segir sagan að hann hafi einnig átt jarðir.Allt um það. Rannsókn leiddi í ljós, að Eyjólfur Jónsson hafði síðdegis, laugar- daginn 10. nóvember, heimsótt systur sína, Júlíönu Jónsdóttur, sem þá bjó með Jóni nokkrum Jónssyni á Brekkustíg, fyrir vestan bæ. Sagan segir að umræddur Jón hafi verið „ófús til vinnu og eigi allur þar sem hann er séður.“ Þegar þarna var komið sögu var Júlíana 46 ára.

Skyr með brennivíni

Laugardaginn 1. nóvember heimsótti Eyjólfur systur sína, liðið var á dag, klukkan á milli fimm og sex, og bauð Júlíana bróður sínum að borða og bar fyrir hann skyr. Júlíana blandaði skyrið dufti, hvítu að lit, sagði Eyjólfur síðar, og fannst honum óbragð að því.

- Auglýsing -

„Hvaða vitleysa,“ á Júlíana að hafa svarað umkvörtunum bróður síns. Setti hún þá brennivín í skyrið og sagði: „Ég setti dálítið brennivín saman við það. Láttu matinn í þig. Þú hefir gott af brennivíninu.“ Og það gerði Eyjólfur svikalaust.

Í Landsyfirréttardómum og hæstaréttar- dómum í íslenzkum málum, tbl. 01.01. 1917, segir his vegar að Júlíana hafi gefið bróður sínum kaffi með brennivíni út í eftir að hann hafði klárað skyrið.

Eftir að hafa klárað skyrið fór Eyjólfur sem leið lá niður í Iðnó, fékk sér þar aðra máltíð og hélt síðan heim til sín.

- Auglýsing -

Grunar Júlíönu um græsku

Um kvöldið fékk Eyjólfur innantökur og seldi upp. Var um „sárar kvalir fyrir bringspalirnar með áköfum uppköstum, og glitti í spýjuna í myrkri sem á maurildi sæi“ og varð þar ekkert lát á fyrr en undir morgun sunnudags. Taldi Eyjólfur víst að Júlíana hefði gefið honum einhverja ólyfjan og staulaðist á fætur þrátt fyrir að því færi fjarri að heilsan væri í lagi.

Dúkskot árið 1925.

Fór Eyjólfur heim til systur sinnar, en hún geymdi fyrir hann kistu sem innihélt meðal annars sparisjóðsbók með 705 krónum auk einhverra peninga. Eyjólfur grunaði systur sína um græsku og í ljós kom að sá grunur var réttlætanlegur; í kistunni var hvorki að finna sparisjóðsbókina né peningana.

Rænulaus á sjúkrahús

Í votta viðurvist krafði Eyjólfur systur sína bókarinnar og peninganna og þorði hún ekki öðru en að gera eins og hann bauð og lét hvort tveggja af hendi. Sparisjóðs- bókina hafði Júlíana geymt í kommóðuskúffu sinni.

Hafði þetta engan eftirmála og urðu næstu dagar tíðindalitlir. Að kvöldi 4. nóvember varð þar breyting þar á. Kvartaði Eyjólfur um veikindi og var Jón H. Sigurðsson héraðslæknir sóttur. Hann sinnti Eyjólfi alla vikuna, en sífellt dró af Eyjólfi og var hann að lokum, 11. nóvember, fluttur rænulaus á sjúkrahús. Þar skildi hann við tveimur dögum síðar, fimmtudaginn 13. nóvember.

Vitnisburður deyjandi manns

Á meðan Eyjólfur lá veikur heima hafði hann orð á því að hann teldi orsök veikinda sinna vera ólyfjan sem systir hans hafði sett út í skyrið. Hann bað þó menn þess lengstra orða að gera Júlíönu ekkert mein, átti hann enda von á að hann mundi braggast með tímanum.

Eyjólfi varð ekki að ósk sinni og andaðist, sem fyrr segir, 13. nóvember. Líkið var krufið og kom í ljós greinileg eitrun í öllum líkamanum. Flest benti til að eitrunin stafaði af fosfór, sem er seinverkandi.

Slær í brýnu

Böndin bárust að systur Eyjólfs og leitaði lögregla sér ýmiss konar upplýsinga á föstu- og laugardegi eftir andlát Eyjólfs. Í Landsyfirréttardómum og hæstaréttar- dómum í íslenzkum málum, tbl. 01.01. 1917, segir að sunnudaginn 5. október hafi Eyjólfur komið til systur sinnar þeirra erinda að ná þar í skjal sem átti að vera í kofforti sem hún geymdi fyrir hann. Þau systkin leituðu bæði í koffortinu en fundu eigi umrætt skjal. „Varð Eyjólfur þá reiður og bar upp á [systur sína], að [Júlíana og Jón] hefðu stolið skjalinu og ef til vill fleiru úr kuffortinu.“

Jón var ekki heima í þetta skipti, en Eyjólfur hafði í heitingum við systur sína þegar hann fór frá henni.

Morðhótanir á báða bóga

Síðar bar Eyjólf að garði heima hjá þeim skötuhjúum, annað sinnið daginn þann, og vildi leita betur að skjalinu. Jón var þá heima og upp komu illdeilur með þeim. Eyjólfur hugðist koma Jóni úr húsi og deilurnar urðu að áflogum.

Júlíana „greip þá í handlegginn á Eyjólfi, en hann barði hana með höndum og fótum; lauk svo að [Júlíana og Jón] komu Eyjólfi út.“

Flugu þá stór orð á báða bóga; sagðist Eyjólfur myndu drepa þau bæði og „Jón sagði þá einnig að rétt væri að drepa Eyjólf.“

Júlíana vildi í kjölfarið stefna Eyjólfi fyrir aðfarirnar, en að hennar sögn, síðar, var Jón því mótfallinn; slíkt yrði slæmt afspurnar. Þess í stað eggjaði hann hana til að ráða Eyjólfi bana. Fann hann það ráð að Júlíana skyldi „narra Eyjólf út á hafnargarðinn, sem verið var að hlaða úr í Örfirisey, hrinda honum niður af garðinum í sjóinn.“

Sjálfur vildi Jón þó ekki koma nálægt því að hrinda tillögu sinni í framkvæmd. Júlíana treysti sér ekki til verknaðarins og stakk þá Jón upp á eitri.

Urðu þau sammála um þá ráðagerð, en enn og aftur vildi Jón ekki koma nálægt því frekar; Júlíana „gæti sjálf keypt eða látið annan kaupa fyrir sig rottueitur í lyfjabúðinni.“

Og sú varð síðan raunin.

Skýlaus játning

Hvað sem öllu þessu líður þá urðu mála- lyktir að lokinni eftirgrennslan lögreglu þær, að um miðaftan, laugardaginn 15. nóvember, fór lögregla að heimili Júlíönu og tók hana fasta. Hún var síðan sett í varðhald.

Réttarhald yfir Júlíönu frestaðist því hún kvartaði sáran yfir lasleika, en þegar málið kom loks fyrir rétt, játaði hún tafarlaust að hafa byrlað Eyjólfi, bróður sínum, eitur. Sagðist hún hafa sett rottueitur í skyrið sem hún bar honum. Það hefði hún gert af ásettu ráði, með það fyrir augum að stytta honum aldur og komast þannig yfir fjármuni hans.

Sýndi Júlíana mikla iðrun við réttarhaldið.

Ekki ein í ráðum?

Jón var að sjálfsögðu handtekinn líka, en kom af fjöllum, sagðist ekkert um málið vita og „[h]ló hann að misgripum þeim, sem lögreglan væri að gera, er hún tæki sig fastan.“

Sagði Jón framburð Júlíönu allan ósannindi ein og sagðist hvorki hafa stungið upp á né eggjað hana til verknaðarins, hvað þá verið í vitorði með henni.

Jón sagði þó að hann hefði í eitt skipti heyrt Júlíönu stinga upp á því að gefa Eyjólfi eitur í kaffi og að hún hefði beðið hann að kaupa rottueitur til að byrla honum, en hann hefði vísað á bug öllu slíku ráðabruggi. Reyndar sagðist hann eftir á hafa talið litla alvöru vera að baki þessum vangaveltum hennar.

Sekt og sakleysi

Ekkert fannst við rannsókn málsins sem með óyggjandi hætti bendlaði Jón við glæpinn og var því eigi talið sannað að hann hefði verið meðsekur Júlíönu. Júlíana var hins vegar sakfelld og talið fullsannað að hún hefði með „ráðnum huga svift bróður sinn, Eyjólf Jónsson, lífi“ og héraðsdómarinn ákvað „refsingu hennar líflát.“

Dómurinn yfir Júlíönu Jónsdóttur var síðar mildaður.

Heimildir: Öldin tuttugasta, Landsyfirréttar- dómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum, tbl. 01. 01. 1917, Morgunblaðið 16. tbl (17.11. 1913)

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -