Ég ánetjaðist ungur hárlakki. Tólf að verða þrettán þegar notkunin hófst. Notkun er kannski ekki rétta orðið, þetta var miklu frekar misnotkun.
Árið var 1984 og Duran Duran og Wham tröllriðu tónlistarheimi okkar unglinganna. Þessar hljómsveitir mótuðu tískuna mest á þessum tíma og þá sérstaklega fyrrnefnda hljómsveitin, en samt báðar.
Þar á bæ var málningin og hárlakkið ekki skorið við nögl og þetta var mikil útlitsbreyting frá „lummuhljómsveitum“ eins og Dire Straits og XTC, svo dæmi séu nefnd, þar sem hljómsveitarmeðlimir þóttu ekki svalir, fylgdu ekki tískustraumum og hugsuðu fyrst og fremst um tónlistina. Uss!
Auðvitað var fetað í tískuslóðina og allir fóru að láta hárið vaxa sem mest þeir gátu að aftan. Síðan var byrjað að reyna að greiða sér eins og fyrirmyndirnar og þá var gripið til hárlakksins, enda hélst það best.
Eftir ýmsar tilraunir með tegundir vorum við strákarnir sammála um að Elnett-hárlakkið væri best, hélt alveg gríðarlega vel, en gallinn var að það var svo vond lykt af því.
Elnett var ekki tískuhárlakkið, þetta var það sem ömmur notuðu. L´Oréal (sama fyrirtæki og framleiðir Elnett) var með svalasta hárlakkið sem hét Studio Line, eitursvalar auglýsingar, töff útlit á brúsunum og svo var góð lykt af því. En það hélt bara ekki nógu vel. Samt var Elnett notað mest, en miklu magni af ilmvatni var blastað í hárið og þannig hélst hárið vel og lyktin af okkur alveg ágæt, en ansi sterk.
Ég sé enn þá fyrir mér konurnar í íþróttahúsi Víðistaðaskóla þegar þær voru að reka á eftir okkur úr búningsklefanum, við spreyjandi Elnett í hárið á okkur og rosalega lengi að hafa okkur til. Eftir að undruninni sleppti hjá þeim hlógu þær sig máttlausar yfir þessum litlu mönnum sem langaði mikið að verða fullorðnir; úðandi hárlakki út og suður svo nánast ólíft var í klefanum – langt yfir mengunarmörkum.
Í dag nota ég ekki hárlakk; löngunin blossar stundum upp, en þá verður maður bara að muna að taka einn dag í einu; þannig hefst þetta.
Tískan í þá daga sem ég nefndi var skrýtin og mikið hefur verið gert grín að henni síðan þá. Menn sjá myndir af sér frá þessu „eitístímabili“ og hrista hausinn og skilja ekki hvernig þeir gátu verið svona hallærislegir.
En svona er nú tískan einu sinni; æðisleg á meðan er en hræðileg þegar liðin er.
Og það er einmitt þannig í dag.
Eftir nokkur ár veltast menn úr hlátri þegar þeir horfa á myndir af uppblásnum og helköttuðum steraboltum með risaskammt af strípum, vaxi í hárinu og hrikalega vel rakaða punga og svo löðrandi í brúnkukremi að þeir minna helst á kúk.
Tískan er alltaf jafnhallærisleg og hún er töff.