Föstudagur 27. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Elskar þú mig?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég er nokkuð næmur á fólk. Eða ég tel mig vera það. Þó les ég ekki hugsanir. Veit ekki til þess að nokkur manneskja sé fær um það.

Að skynja tilfinningar annarra í kringum sig er eitt og að vita hvaða orðamyndanir eru á sveimi í kolli þeirra er annað. Málið er með að skynja eitthvað er alltaf hulið ákveðinni efasemd.

Þegar við segjum hlutina upphátt staðfestast hlutirnir fyrir okkur sjálfum og gagnvart viðmælendum okkar. Það er þó einnig háð því að við segjum alltaf sannleikann.

En gerum við ekki oftast ráð fyrir því að það sem er sagt sé satt? Nema ef um augljósar ýkjusögur, ljóð eða skáldskap sé um að ræða?

Ég geri oftast ráð fyrir því að það sem fólk segir við mig sé satt.

En stundum túlka ég það sem er sagt sem er sagt við mig á allt annan veg en því var ætlað að vera túlkað. Hafið þið lent í því?

- Auglýsing -

Og hafið þið líka lent í því að vita hvað ykkur langar til að segja upphátt við einhvern aðila en sleppt því? Kannski oft?

Við tölum oft um það sem við vildum að við hefðum sagt. Einhver segir eitthvað við okkur sem okkur finnst ósanngjarnt og við viljum svara fyrir okkur en gerum það ekki. Vissulega pirrandi aðstæður að vera vitur eftir á. Hvað heldur aftur af okkur?

Ég hins vegar er æ oftar að lenda í því að vilja segja hluti upphátt sem eru fallegir og innilegir. Kærleiksorðin. En finn hvernig þau staðnæmast í hálsinum.

- Auglýsing -

Komast ekki út. Það er að mestum hluta til vegna þess ég er hræddur um að vera væminn, bókstaflegur, berskjaldaður. En einnig gæti það verið hræðsla við höfnun. Því ég tek ekki orðin til baka. Þau eru komin út og lent í höndum þeirra sem taka við orðunum. Hvað ef það fólk eða sú manneskja bregst ekki við eins og við vonum eða eins og við höldum að hún muni gera, eða eigi að gera?

Samt, hverju höfum við að tapa? Eru viðbrögð annarra eina ástæðan fyrir því að við viljum tjá okkur? Við hengjum okkur upp á örlögin og grípum jafnvel til náttúrunnar og fífilsins: Elskar hann mig, elskar hann mig ekki?

Ég hef ætíð verið þannig að ég nota hið skrifaða orð sem einskonar varnarskjöld. Ég tjái það sem ég meina með því að skrifa. Þá er alltaf eitt lag á milli orða minna hjartans. Maki minn hefur fengið ófáar orðasendingar og heilu bréfin. Nýverið hef ég tekið upp á því að skrifa á messenger á Facebook eða jafnvel tekið upp raddskilaboð þar sem ég tjái mig. Það er aðeins meira instant og beinskeytt. Ég er að færa mig í áttina að því að geta sagt hlutina í persónu. Eitt skref í einu. Mig langar svo að vera manneskjan sem segi því fólki sem ég dáist að hversu mikið ég dáist að því og af hverju. Láta fólk finna að það skipti máli. Að það sé að gera heiminn betri með því að standa sig vel sem manneskjur. Stundum hugsa ég ákaflega um það fólk sem mér þykir vænt um eða ber mikla virðingu fyrir og/eða er stoltur af og fer yfir allt það sem ég vil segja upphátt við það fólk. Stundum hugsa ég það innilega að ég tárast við tilhugsunina eina að láta þessi orð falla. Þetta er allt að koma hjá mér og ég vinn nú sterkt að þessu markmiði. Að segja það sem ég meina og að segja það sem ég vil segja. Ekki í hausnum. Ekki þannig að fólk þarf að giska eða draga ályktanir.

Innst inni vona ég einnig að ég geti byrjað eitthvað snjóbolta effekt með þessu og ég uppskeri til baka kærleiksorð í persónu. Með aldrinum finn ég að ég þarf á þeim að halda og ég er tilbúinn til þess að taka þau til mín.

Við græðum á því að segja það upphátt. Það sem við græðum er útrás, ástarsambönd, þakklæti og jafnvel komumst við hjá þeirri kvöl að vera nöguð af eftirsjá.

Það sem við megum minna okkur oftar á er að við stöldrum stutt við hér á jörð og eitt það öflugasta sem við eigum í okkar farteski eru orðin og hvernig við notum þau á meðan við erum hér.

Ég vil alveg vita hvort hann elski mig. Ég vil heyra og upplifa ást. Ég vil gefa og staðfesta mína ást. Ég vil ekki draga ályktanir og gíska. Ég vil ekki að hann þurfi að spyrja:

Elskar þú mig?

Friðrik Agni Árnason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -