Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

En kannski er sumt mér að kenna?… Og það er allt í lagi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir ofbeldi, misnotkun, áreiti og áföll eyðum við flest miklum tíma í sjálfsvinnu.

Í þeirri vinnu felst heilunin og í heiluninni er oft talað um að skila skömminni, færa ábyrgðina á réttan stað og losna við hugsunina um að það sem gerðist hafi verið okkur sjálfum að kenna.

Það er talað um að fyrirgefa.

Tengið þið við það?

Finnst ykkur erfitt að fyrirgefa þeim sem hafa brotið ykkur? Finnst ykkur það eðlilegt?

Af minni reynslu af slíkri sjálfsvinnu var það aðallega fyrirgefningin gagnvart sjálfum mér sem ég þurfti á að halda. Skömmin og samviskubitið sem ég hafði rogast með á bakinu í fleiri ár var orðið svo þungur biti. Þegar ég náði sjálfsfyrirgefningunni þá var eins og einhver hafi lyft bitanum af mér og ég gat andað. Losunin varð það mikil að ég brast í grát. En það var einnig vegna þess ég áttaði mig á hve vondur ég hafði verið við mig í huganum í mörg ár. 

- Auglýsing -

Ég fattaði það bara ekki að ég var orðinn að mínum eigin geranda.

Gerandi minn skiptir mig engu máli. Þarna var ég ennþá lifandi og með framtíð höndunum á mér sem ég gat mótað á þann veg sem ég vildi. Gerandi minn hefur ekkert að gera með það.

Ég var alltaf að brjóta hugann um þessa skömm og ábyrgð. Fólk sagði við mig: Það var ekki þér að kenna. Þetta var ekki þér að kenna.

- Auglýsing -

Og það var ákveðin hughreysting í sjálfu sér að heyra. En innst inni var ég ekki viss um hvort ég trúði því. Og ég er það ekki ennþá.

Ég lenti í aðstæðum þar sem ég varð fyrir misnotkun. Það sem ég hef burðast með er skömmin út frá ákvörðunum sem leiddi mig í þær aðstæður. Kannski þarf fólk að lesa þessa setningu tvisvar.

Semsagt, ég sjálfur hef tekið vafasamar ákvarðanir sem koma mér í aðstæður sem eru ekki aðstæður sem ég vil vera í. En svo gerist eitthvað og þá er erfitt að snúa við.

Af hverju kem ég mér í þessar aðstæður?

Ástæðan er sú að ég er brotinn einstaklingur, eða var. Ég er þó nokkuð vel púslaður saman í dag. Athyglin nærði mig og ég leyfði aðstæðum að þróast lengra en ég hefði átt að gera. Innst inni vissi ég að eitthvað væri að. Eitthvað var bogið og rangt við hegðunina sem ég var vitni að og viðvörunarbjöllur voru að klingja en ég heyrði ekki almennilega í þeim. Egóið mitt var að flækjast fyrir mér. 

Þannig að ég hef lært af minni eigin mistnotkun að hugsa betur um sjálfan mig almennt svo að ég þurfi ekki á svona óheilbrigðri athygli að halda. Komi mér ekki í aðstæður þar sem fólk vill manni ekkert gott.

Ef lesendur hafa horft á þættina Baby Reindeer á Netflix þá finnst mér aðalpersónan þar svolítið tækla þessa skömm, eigin fordóma og eigin ábyrgð á aðstæðum nokkuð vel.

En höfum það á hreinu að það sem svo gerist í þessum tilteknum aðstæðum er ekki á okkar ábyrgð. Ef einhver brýtur á okkur. Sama í hvaða umhverfi það er þá er það ábyrgð þess sem brýtur á okkur. Sú manneskja tekur ákvarðanir sem fara gegn okkar vilja, misnotar sér jafnvel ástand okkar til að svala einhverri persónulegri þörf. Eða svala egóinu.

Þetta er smá flókið. En ég skrifa sem þolandi ofbeldis í þessu tilfelli.

Ég vil meina að ég beri ávallt ábyrgð á sjálfum mér og því sem ég geri. Tökum áfengisneyslu og aðstæður sem henni fylgja sem dæmi. Ég ber ábyrgð á því hvort ég drekki áfengi. Hvort ég drekki mikið eða lítið. Ég ber ábyrgð á því að átta mig á því hvort ég geti höndlað áfengi eða ekki. Það er á minni ábyrgð að gera eitthvað í áfengisneyslu minni ef ég er ávallt að lenda í því að geta ekki hætt að drekka þegar víman er orðin of mikil. Því getur ekki neinn annar stjórnað.

Aðrir geta haft áhrif á mig og leitt mig áfram í þeirri vegferð og stutt mig en ég þarf að vinna vinnuna sem snýr að því að annaðhvort hætta að neyta áfengis eða læra að neyta þess í hófi. Hinum megin við neysluna er ofneyslan sem er oft þess valdandi að við missum stjórn á raunveruleika okkar og umhverfi. Við verðum kærulaus og missum sjónar á því hver okkar gildi eru. Við missum raunvitund. Í því ástandi gætum við látist tilleiðast í athæfi sem við annars myndum aldrei taka þátt í.

Ef við tökum í taumana hjá okkur sjálfum og skoðum hvað er raunverulega að og hlúum að því þá ættum við aldrei að koma okkur í þannig aðstæður. Af því við höfum fundið sjálfsvirðingu okkar og gildi. Við höfum fundið okkar forgangsröðun.

Sjálfstyrking og sjálfsábyrgð er grundvöllurinn sem við verðum að efla betur á unglingsárum.

Bæði til að skapa einstaklinga sem þekkja sitt eigið virði, eru ólíklegri til að vilja flýja raunveruleikann og einnig einstaklinga sem eru ólíklegri til að vilja skaða aðra.

Ég vil ekki meina að kynferðisofbeldi, misnotkun og annarskonar árás sem við verðum fyrir sé okkur að kenna. Alls ekki. Ég er að tala um þá þætti sem við getum tekið í okkar eigin hendur. Þá þætti af okkar lífi sem við getum stjórnað ef við leggjum þá vinnu á okkur.

Ábyrgð og skömm í tilfelli kynferðisofbeldis er á herðum þess sem fremur ofbeldið. Við sem þolendur, sem lifum verknaðinn af verðum að finna leið til að horfast í augu við okkur sjálf ef við ætlum að lifa áfram heil. 

Hverju getum við stjórnað í eigin lífi?

Er allt öðrum að kenna og á ábyrgð annarra?

Eða er stundum eitthvað bara okkur sjálfum að kenna – og getum við gert eitthvað í því?

Ég hef tekið þennan pól í hæðina til að forða mér frá því að lifa sem fórnarlamb. Því ég vil það ekki. Ég hef of mikla ástríðu fyrir lífinu. Ég hef talað um það áður og oft fengið á mig einkaskilaboð þar sem fólk er ósammála mér og er triggerað af því að hlusta á mig. Finnst ég gera lítið úr þolendum ofbeldis og þeim sársauka sem þeir bera. EN ég er sjálfur þolandi. Ég hef rétt á að tala um hvernig ég tækla mína úrvinnslu og ég hef rétt á að vera á þeim stað sem ég er á í dag. Ég get ekki borið ábyrgð á hvernig aðrir vinna úr áföllum sínum. Það eina sem ég get borið ábyrgð á er hvernig ég geri það og hvernig ég deili því áfram sem hefur gagnast mér. Vonandi eru einhverjir sem lesa og taka að sér þá ábyrgð sem þeir eiga í eigin lífi. Kannski er tíminn núna þar sem þú getur skrifað niður hvernig þér líður. Brotið það niður í búta. Tengt það við fortíðina. Skoðað hvernig fortíðin er að angra þig í dag og af hverju. Hvernig þú getur breytt hugsunum sem fylgja sem gagnast þér ekki í núinu. Farið á netið og lesið þér til um það sem þú ert að upplifa. Hringt á sálfræðistofu og óskað eftir aðstoð.

Þú mátt lifa. Þú mátt harka af þér og dusta af þér áföllin þín. Þau eru þarna áfram en þú þarft ekki að lifa inn í þeim. Því þau eru liðin. Það er enginn sem segir að lífið sé auðvelt en það er vissulega áhugavert og fallegt að lifa því þrátt fyrir það. Og þú getur verið brothættur einstaklingur en sterkur á sama tíma. En það er ekkert aðdáunarvert við það að nota misnotkun þína sem persónuleika þinn og kenna henni um allt það sem illa fer í þínu lífi. Það er aðdáunarvert að sjá þig gráta, reyna að byggja þig upp, fylgjast með sigrunum þínum, stórum og smáum. Það er aðdáunarvert að fylgjast með þér reyna að vinna þig frá áfalli þínu. Því ég er að gera það líka. Við erum öll að gera það líka. Og ekkert okkar er í raun betri en þú í þeirri vinnu. Ekkert okkar betra en annað í því að lifa. Því öllu lífi fylgja áföll.

Spurningin er bara hvort við séum skipstjórinn á skútunni okkar sem siglir okkur í gegnum öldurnar eða hvort öldurnar taki yfir og fari með okkur í hið endalausa óveður.

Friðrik Agni Árnason

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -