Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Engin gúrka hjá Blaðamannafélaginu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á þessum tíma árs hægist á öllu og umtöluð gúrkutíð ríður yfir. Þá gefst gjarnan ráðrúm til að fara yfir hverju hefur verið áorkað á annasömum vetri og vormánuðum.

Engin lognmolla hefur verið hjá Blaðamannafélagi Íslands sem stendur á miklum tímamótum. Umbreytingum geta fylgt vaxtaverkir en fyrst og fremst er það gjöfult og spennandi verkefni fyrir stjórn og starfsfólk að byggja upp og efla félag blaðamanna sem faglegan vettvang, bæta kjör félagsfólks og stuðla að vitundarvakningu meðal almennings og hagaðila um mikilvægi blaðamennsku á Íslandi. Blaðamennska og frjálsir, öflugir fjölmiðlar eru forsenda upplýsts samfélags og lýðræðis og félagi blaðamanna ber að minna á mikilvægi þeirra við að halda almenningi upplýstum og stuðla að opinni, fjölradda umræðu um samfélagsmál þar sem ólík sjónarmið fá að njóta sín.

Eftirfarandi eru nokkur af stærstu verkefnum frá áramótum:

  • Kjarasamningar BÍ við Samtök atvinnulífsins og ýmis fjölmiðlafyrirtæki voru undirritaður, kynntir félagsmönnum og greidd um þá atkvæði. Afgerandi meirihluti samþykktu kjarasamningana sex og sérstök ánægja ríkti um hækkun á skattfrjálsum fjölmiðlastyrk sem ekki hefur náðst í gegn síðan árið 2009.

  • Vitundarherferð var hleypt af stað í fyrsta skipti undir yfirskriftinni Blaðamennska hefur aldrei verið mikilvægari. Eitt af markmiðum herferðarinnar var að veita almenningi innsýn í störf blaðamanna og vinnubrögð með það fyrir augum að auka skilning fólks á því hvers vegna blaðamennska og frjálsir fjölmiðlar eru forsenda lýðræðissamfélags.

  • Félagið stefndi ríkinu vegna takmarkana á aðgengi blaðamanna að hamfarasvæðum og náði í kjölfarið samkomulagi um sérstaka hamfarapassa sem tryggja blaðamönnum sambærilegt aðgengi og viðbragðsaðilar. Samkomulagið markar þáttaskil í samskiptum við stjórnvöld og er mikilvæg viðurkenning á hlutverki blaðamanna á hættutímum.

    - Auglýsing -
  • Gagnger endurskoðun fór fram á umgjörð og regluverki í kringum starfsemi félagsins með það að markmiði að færa rekstur félagsins í nútímalegra horf, tryggja að vel sé hugsað um eignir félagsmanna og að sjóðir þeirra séu sjálfbærir og reglur um úthlutanir styrkja gagnsæjar og skýrar:

    • Unnin hafa verið drög að starfsreglum félagsins sem gildir fyrir starfsfólk og þau sem gegna trúnaðarstörfum á borð við stjórn.

    • Unnin hafa verið drög að verklagsreglum skrifstofu sem er ætlað að auka gagnsæi, bæta innra eftirlit og tryggja aðgreiningu starfa.

      - Auglýsing -
    • Í fyrsta sinn hefur verið unnin fjárhagsáætlun fyrir félagið sem stjórn hefur samþykkt.

    • Unnið er að því að útbúa handbækur fyrir stjórnarfólk og aðra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, þar sem ábyrgð þess er skýrð og farið yfir verkefni og hlutverk stjórna, sjóða og nefnda.

    • Úthlutunarreglum Styrktarsjóðs BÍ var breytt til að tryggja sjálfbæran rekstur sjóðsins og áframhaldandi aðgengi sjóðfélaga að styrkjum vegna heilsufars og heilbrigði.

    • Stjórn Endurmenntunar- og háskólasjóðs, menningarsjóðs og orlofshúsasjóðs unnu reglugerðir fyrir sjóðina, sem ekki voru til, sem lagðar verða fram á framhaldsaðalfundi í haust.

    • Einnig vann stjórn sjóðsins úthlutunarreglur fyrir menningarsjóð, sem er stærsti sjóður félagsins, en engar reglur voru til um úthlutun styrkja annarra en styrkja vegna þriggja mánaða leyfis, en einnig reglur fyrir úthlutun náms- og ferðastyrkja, úr endurmenntunar- og háskólasjóði.

  • Hafist var handa við gerð fræðsluáætlunar og haldið nýliðanámskeið auk þess sem samningur var gerður við Félagsmálaskóla Alþýðunnar um fræðslu trúnaðarmanna sem hefst með skipulögðum hætti í haust.

  • Blaðamannaverðlaunin voru haldin með breyttu sniði og afhent á Kjarvalsstöðum sem þúsundir fylgdust með í beinu streymi og á annað hundrað mætti á vel heppnaða athöfn.

  • Blaðaljósmyndarafélag Ísland veitti árleg ljósmyndaverðlaun og setti upp sýningu á innsendum myndum í keppnina um Mynd ársins.

  • Tveir erlendir sérfræðingar í málefnum fjölmiðla héldu erindi á vegum félagsins: Anya Schiffrin, forstöðumaður tækni, fjölmiðla- og samskiptadeildar Columbia University‘s School of International and Public Affairs í New York, fjallaði um á hádegisverðarfundi BÍ um hvernig bjarga megi blaðamennskunni og Richard Fletcher, frá Reuters Institute flutti erindi við afhendingu blaðamannaverðlaunanna um stöðu blaðamennskunnar.

  • Starfsfólk og stjórn hefur ennfremur unnið að því að uppfylla skyldur félagsins samkvæmt lögum og reglugerðum, svo sem að setja persónuverndarstefnu sem tryggir að vinnsla og meðferð persónuupplýsinga félagsfólks sé skv. lögum og vinna gagnsæisskýrslu vegna höfundarréttargreiðslna að kröfu stjórnvalda.

  • Hafin var vinna við stefnumótun félagsins með þátttöku félagsfólks.

  • Unnin var samskiptastefna fyrir félagið til að móta lykilskilaboð og áherslur félagsins til næstu missera.

  • Þá hefur verið unnið að því að bæta upplýsingagjöf til félagsfólks um kjarasamningsbundin réttindi þess og félagið hefur sett í gang frumkvæðisathugun á því hvort atvinnurekendur fari í einu og öllu eftir kjarasamningum og tilteknar greinar hans skoðaðar sérstaklega.

  • Félagið hefur leitað til Þjóðskjalasafns sem hefur samþykkt að taka til varðveislu gögn í eigu félagsins og hafin er vinna við yfirferð og skrásetningu skjala.

  • Gerð var könnun á viðhorfi almennings til blaðamennsku og fjölmiðla.

Öll þessi verkefni eru hluti af stefnubreytingu undir forystu síðustu tveggja stjórna BÍ sem nauðsynlegt er að fylgja vel eftir. Enn frekari stefnumótunar er þörf og það krefst þátttöku félagsfólks að efla hagsmunagæslu frekar gagnvart stjórnvöldum og hlutverk félagsins sem faglegan vettvang og sameiginlega rödd blaðamanna ef takast á að styrkja stöðu blaðamanna á Íslandi.

Það eru ekki síður stór verkefni framundan; stofna þarf samráðsvettvang fjölmiðla því stéttin verður að snúa bökum saman. Skipuleggja þarf samtal við helstu hagaðila, jafnt á sviði stjórnmálanna og stjórnsýslunnar sem og í einkageiranum og víðar í samfélaginu með það að markmiði að auka skilning á mikilvægi blaðamennsku og efla hana um allt land. Liður í þessu er að auka fræðslu til félagsfólks, halda reglulega viðburði og málþing um málefni sem skipta stéttina máli og koma Glætunni á legg, sjálfstæðum styrktarsjóði blaðamanna, svo unnt verði að byrja að greiða út styrki sem fyrst til eflingar sjálfstæðrar blaðamennsku.

Upplýst samfélag þarf faglega blaðamennsku sem setur hlutina í samhengi og skýrir þá með hag almennings að leiðarljósi. Áframhaldandi úrbótavinna og uppbygging Blaðamannafélags Íslands er nauðsynleg til að auka veg faglegrar blaðamennsku til framtíðar, félagsmönnum og samfélagi til heilla.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður og Freyja Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -