Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Er ég bara svona heimskur?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Suma hluti skil ég vel, aðra ekki. Svo er jafnvel sumt sem ég get ómögulega skilið sama hve mikið ég reyni.

Nýlegt dæmi um óskiljanlega hluti nefni ég núverandi stöðu á Gaza, Eurovision og aðgerðarleysi yfirvalda heimsins gagnvart fólkinu sem nú er að þurrkast út.

Er eitthvað í þessu þjóðarmorði sem ég er ekki að skilja? Eða er þetta ekki þjóðarmorð? Er þetta sjálfsvörn?

Ég hef aldrei verið mikið gefinn fyrir pólitík. Ég forðast partý umræður sem fara að snúast um pólitík eins og heitan eldinn. Partý og pólitík fer ekki saman fyrir mér. Ég tengi alltaf pólitík við rifrildi milli fólks sem vill reyna breyta skoðunum hvers annars.

Stundum er sagt að hlutirnir séu svo flóknir. Stjórnmálamenn segja það jafnan. Stórum orðum er fleygt út í loftið sem við einfalda fólkið skiljum ekki. Það var flókið að taka ákvörðun um þátttöku okkar í Eurovision og deila sviði með listafólki  þjóðar sem nú er að eyða út hér um bil heilum þjóðflokki. Það fyrir mér virkaði ekki sem flókin ákvörðun til dæmis. Ég persónulega myndi ekki vilja vera í þessum sporum og láta eins og ég hafi aldrei heyrt fréttir eða lesið mér til um mannkynssögu. Þarna var ég soldið heimskur og vitlaus. Og hef örugglega bara verið að lesa ranga sögubók. Stjórnmálamenn og ráðafólk RÚV í þessu tilfelli veit betur og vita margt sem ég ekki veit.

Alltaf þegar kemur að ákalli almennra borgara um breytingar sem þeir telja augljósar þá eru svör ráðamanna við því alltaf svo flókin, óskiljanleg og loðin. Af hverju er það? Hvernig getur það verið að við venjulega fólkið sjáum heiminn alltaf í öðru ljósi en þeir sem ráða hér hvað sé gert og hvað ekki? Allt of oft er ákall um breytingar og betri meðhöndlun á hinum ýmsum málaflokkum eins og málaflokki hælisleitenda og flóttafólks, fatlaðra og eldri borgara.

- Auglýsing -

Hvað er það nákvæmlega sem er flókið við að styðja við fólk sem hefur misst allt og er í stöðugri lífshættu? Hvað er flókið við að búa til heim þar sem fatlað fólk hefur aðgengi að öllu því sama og ófatlað fólk? Eða að tryggja lífsviðurværi og þægindi fólks í elli sinni. Í hvað fara peningar okkar? Er það flókið líka? Erum við ekki rík þjóð? Eða erum við að fara hausinn?

Ég skil ekki allt. En ég skil ást, virðingu, sameiningu og samvinnu. Ég hef meira að segja lært eitthvað sem kallast hamingju-markþjálfun.

Ég skil að við eigum ást að gefa og við þráum sömuleiðis ást til okkar. Það veitir okkur hamingju að bæði gefa ást og þiggja hana. Við erum í stöðugri  hringrás kærleika. Það er það sem einkennir okkur mannfólkið og gerir okkur í raun stórbrotið. Við eigum öll ást innra með okkur og við eigum hana skilið. Við erum fallegar lífverur og erum fær um stórkostlegar uppgötvanir og sköpun.

- Auglýsing -

En á sama tíma höfum við búið okkur til kerfi sem byggir á því sem sameinar okkur ekki. Við höfum einblínt á það. Á okkar eigin kassa og okkar eigin mörk, landamæri. Við erum orðin hrædd við hvert annað. Í stað kærleika er komin hræðsla, hatur, græðgi og heift. Allt til að vernda kassann okkar. Til að vernda okkur og alla þá sem eru sammála okkur og eru eins. Helst eins á litinn líka.

Og það er sem sagt svo flókið að brjóta niður þessa kassa. Þeir sem starfa inn í kassakerfinu okkar sjá til þess að það sé flókið áfram en deila ekki nákvæmlega hvernig það er flókið.

Og ég, í minni heimsku held áfram að brjóta hugann um það. Því ég sé heiminn út frá minni fáfræði. Út frá barnalegri kærleiksbirnaspeki minni.

Á meðan jakkafötin og draktirnar storma um að tala um hvað sé flókið að binda endi á þjóðarmorð þá erum við kærleiksbirnirnir glærir og glimmerfellandi að bíða.

En mér finnst réttast að leiðtogar heimsins taki okkur nú í smá kerfiskennslu svo við séum með þetta jafn mikið á hreinu og þeir. Þá kannski hættum við að gera okkur að fíflum og trufla þá svona mikið með heimsku okkar. Þá vitum við það sem þeir vita.

Væri það ekki best?

Hvað skrái ég mig í næsta ‘Þetta er flókið’ námskeið?

Friðrik Agni Árnason

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -