Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Er svona mikilvægt að deyja?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hún er 100 ára í dag!

Svona lauk afmælissöngi í veislu einni um daginn sem ég var viðstaddur. 

Að lifa heilan Þyrnirósarsvefn. Að hafa verið 40 ára árið 1964, á tímum sem ég skynja hafa verið skemmtilegasta tímabilið í sögu tónlistar og tísku. En í mínu tilfelli er það hughyggja ein. Þessi kona var þar í raun, í lífsins blóma. Ég er ekki einu sinni orðinn fertugur. Á stutt fjögur ár í þann áfanga, með Guðs leyfi. Reyndar vildi þessi merka kona meina að lífið hafi fyrir alvöru byrjað um sjötugt. Það er eitthvað sem róar mig við þá tilhugsun. Hjúkk, ég þarf ekki að flýta mér svona.

Því ég er að því og hef verið að því. Næstum eins og ég sé að reyna flýta mér að deyja en á sama tíma er það einmitt það sem hræðir mig mest, að deyja. Mín upplifun er sú að við flest erum einhvern veginn alltaf að gera allt svo hratt og með áhyggjur yfir því að komast ekki yfir nógu mikið á mettíma.

Á fagnaðarstundum sem þessum eins og að fagna langlífi góðs fólks þá reikar hugurinn að manns eigin lífi. Það er kannski við hæfi að ég tali um hvað ég hef einmitt lært af akkúrat þessari konu í dag, konudaginn. Þessi kona er mér ekki skyld með blóði heldur eignaðist ég hana sem tengda–ömmu fyrir fáeinum sautján árum.

Eitt skipti man ég eftir að hafa fengið hálfgert kvíðakast eftir heimsókn til hennar. Ekki að hennar sök nema mögulega óbeint. Ástæðan var sú að innra með mér var ég glíma við kvíða vegna heilsufars míns. Ég var að glíma við kvíða fyrir heimsóknina og löngu áður og alltaf í raun og veru. Á heimili hennar var ekki ögn af látum, stressi eða vott af hugarangri af neinu tagi. Við sátum í þögn, með kaffi og kex. Klukkan tifaði og sló nokkur slög. Inn á milli var rætt um daginn og veginn. Amma skoðaði myndir í síma hjá okkur hjónum frá undangengnum atburðum í okkar lífi, ferðalög og slíkt. Já maður hefur gott af því að skoða sig aðeins um, upplifa heiminn aðeins á meðan tíminn leyfir. Eitthvað í þessum dúr segir elsku konan. Svo kemur þögnin aftur, það er já-að og jæj-að aðeins.

- Auglýsing -

Allt er einhvern veginn svona, á léttvægum nótum. Hjartað mitt slær hægar og ég átta mig á að ég er í núinu. Kem út í bíl og fatta að ég hef heldur ekki áhyggjur af neinu en þá hellist það yfir mig. Ég er að deyja! Auðvitað er ég að deyja. Það getur ekki annað verið. Ef ég fyllist allt í einu svona mikilli rósemd og þakklæti, líð frá einu augnabliki til hins næsta þá hljóta þetta að vera endalokin. Eða guð minn góður, er þetta normið? Og er ég að missa af því?

Í annarri heimsókn spurði ég tengda-ömmu hvernig hún hefði það: Jú ég skrölti þetta svona.

Með kæruleysis tón. Hún lætur sig hafa þetta. Á meðan hún man eftir sínu fólki, sér og heyrir að einhverju leyti. Skilur hver við erum, lætur sig varða hvað verður um sitt fólk og líkaminn er ekki þjáður þá er lífið í ellinni bara notalegt. Það er þetta viðmót sem einhvern veginn kastar sí taugatrekkta mér undir smásjána. Hvað er ég að gera? Er ég að sjá lífið fyrir það sem það er?

- Auglýsing -

Er ég að sjá lífið sem lifandi líf en ekki deyjandi líf?

Í andspyrnu við þetta þá er nefnilega hið óstjórnlega sem hangir yfir okkur öllum, hinn svartklæddi frændi sem leiðir okkur inn um okkar hinstu dyr. Hann kemur og fer þegar honum þóknast með engum fyrirvara, eða engum nákvæmum fyrirvara allavega. Hann er óskiljanlegur að öllu leyti. Sérstaklega þegar hann heimsækir fólk sem á síst von á honum. Þannig atburður varð einmitt í mínu lífi fyrir stuttu síðan að Dauði frændi heimsótti allt í einu bestustu frænku mína og vinkonu. Ég varð svo reiður út í hann. Ég skildi ekki hvað hann var að spá. Ruglaðist hann eitthvað á heimilisfangi? Hann hefur ekki ennþá gefið mér nein skýr svör nú næstum tveimur árum síðar. En á þessari tímalínu, semsagt síðustu tvö ár hef ég verið hægt og rólega deyjandi. Ég keypti þann sannleika þegar þessi atburður varð. Eins og þetta staðfesti fyrir kvíðanum mínum að hann ætti rétt á sér. Sko! Ég vissi það. Þú ert víst að deyja. Sjáðu bara. Þannig þegar það kemur róleg stund þá skammast heilinn sín fyrir að vera ekki á varðbergi, býr sig undir orrustu og fer í leiðangur. Leiðangur sem snýst um að finna allt það sem mun draga Dauða frænda í heimsókn til mín. Verkur í hönd, verkur í maga, verkur í baki. Allt eru þetta fyrirboðar frænda. Heilinn hættir ekki fyrr en hann fær staðfestingu á hinstu heimsókninni.

Allir dagar verða að orrustupreppi fyrir orrustu sem kemur svo ekki. Kvíðinn minn segir hins vegar að það er betra að vera preppaður EF orrustan verður. Ég vil ekki bara allt í einu lenda út á miðjum vígvelli óundirbúinn er það?

Eða vil ég það kannski frekar? Mun ég einhvern tímann ná að vera fullkomlega undirbúinn hvort sem er?

Það sem ég er að átta mig á er að ég vil frekar vera tengda-amma. Líða frá einni stundu yfir í þá næstu. Innst inn skilur heilinn minn það þó að líkami minn sé ennþá í orrustupreppinu. Heili og líkami eru ekki alltaf alveg í flútti. Líkami minn hefur verið í orrustu ástandi svo lengi að hann skilur ekkert annað. Hann lifir bara til þess að undirbúa dauðann. En hvað er svona merkilegt við það að deyja. Er það mitt helsta markmið með lífinu?

Að flýta mér að gera allt sem mig langar til þess að gera með líkamann uppspenntan af ótta? Því á meðan ég er að gera það þá líður lífið og tíminn áfram.

Ég ætti kannski frekar að setja fókusinn á að læra af atburðum og læra af fólkinu sem ég dáist að.

Einblína á að lækna og frelsa líkamann frá heljargreipum Dauða frænda í staðinn fyrir að dvelja í hans fangi á meðan ég lifi enn.

Við fögnum langlífi, við syrgjum stuttlífi. Að baki langlífi er líf. Að baki stuttlífi er einnig líf.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er lykilatriðið að ef við erum hér þá þýðir það að við erum lifandi. Því ber að fagna.

Við ættum að flýta okkur fram úr ef heilsa leyfir til þess að lifa. Ekki vegna þess við erum hrædd við deyja. Heldur af því við erum einfaldlega spennt fyrir því að lifa þennan dag. Dagurinn þarf ekkert að vera yfirfullur af dagskrá en æ, getur hann allavega verið yfirfullur af þakklæti? Fersku lofti, næringu, knúsi, tónlist, lærdómi, samvinnu, samskiptum, hvíld og kærleika?

Ykkur finnst það eflaust klisja að enda þessa grein á þessum nótum. En klisjur eru oftast sprottnar út frá einföldum sannleika.

Skröltum þetta bara áfram, lifandi.

Friðrik Agni Árnason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -