Laugardagur 26. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

Er þetta þér að kenna?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er til meðvirkni. Sum meðvirkni er samt lærð hegðun út frá hegðun annarra. Þú hefur lært að trúa því að aðstæður og líðan annarra sé afleiðing gjörða þinna, jafnvel þó það eigi ekki við nein rök að styðjast. 

Ég ætla skrifa mig í gegnum þetta og reyna útskýra allar hliðar.

Kannski ert þú almennt frekar meðfæranleg manneskja. Þú hefur kannski ekki sterkustu skoðanirnar. Þú ert áhrifagjörn, vilt ekki vera ein á móti hinum og þorir þá jafnvel ekki að standa í eigin fætur og á eigin skoðunum.

En þú ert góð manneskja. Þú vilt öllum vel. Hin fullkomni heimur fyrir þér væri þannig að allir hefðu sömu réttindi, virðingu, tækifæri, skilning og umhyggju. Þér finnst óþægilegt að vera viðstödd ágreining á milli fólks. Þolir illa að vera í þannig rými og ferð jafnvel að taka á þig ábyrgð inn í aðstæðum annarra. 

Því þú vilt, eins og ég sagði, að heimurinn sé fallegur. Þú vilt það það mikið að þú reynir meira að segja að stjórna honum svo að hann verði fallegur, þannig að enginn rífst við neinn, reynir að láta öllum líða vel og geðjast að þér og hvert öðru. 

Þú ert auðvelt skotmark.

- Auglýsing -

Þú getur auðveldlega lent inn í aðstæðum með fólki sem ekki sér heiminn eins og þú. Það ber kennsl á þín karakterseinkenni, meðvirknina, áhrifin, þörfina á friði og þörfina á athygli og ást. Það veit að þú munt taka ábyrgðina. Og þar sem þetta fólk er haldið þeirri lífsskoðun að það beri aldrei ábyrgð á neinu, ekki einu sinni sjálfu sér, þá kemur þú inn eins og guðsgjöf.

Þetta fólk er kannski ekki vont fólk og þú ert ekki endilega betri manneskja en það. Sumt fólk er að einhverju leyti smá týnt vegna uppeldis, misnotkunar og annarra áfalla. Týnt á annan hátt en þú. Það hefur mótast og öðlast sína lífssýn út frá fortíðinni og kann ekki fara frá fortíðinni. Það er ekki tilbúið til þess að sjá að það er til annar heimur í nútíð og framtíð þar sem það getur sjálft borið ábyrgð á lífi sínu.

Það verður þeirra sannleikur og þægindarammi að vera í sinni fortíð og að vera fórnarlamb. Það er fórnarlamb alltaf. Það er í raun fórnarlamb sjálfs síns. Því það þekkir ekki annað.

- Auglýsing -

Þú ferð inn í aðstæðurnar, þú trúir kannski að þér sé ætlað að opna leiðina fyrir öðrum, leiðina frá myrkri yfir í ljósið. Þú öðlast jafnvel tilgang. Þú færð að vera við stjórnina og passa upp á. Heldur þú. Og allt í einu ertu ábyrg fyrir ekki bara þér heldur öllu og öllum. Þú ert í raun ekki við stjórnina.

Ástæða fyrir því að fólk telur sig vera ábyrgt er vegna þess því hefur verið talið trú um það í gegnum andlega misnotkun. 

Fólk hefur verið í samskiptum og aðstæðum þar sem það hefur verið misnotað andlega þar til sektarkennd og ábyrgð eru orðnar rétt eins og blóðið sem streymir um æðar þess. En það er líka að einhverju leyti vegna þess að fólk hefur ákveðna veikleika og brotna sjálfsmynd stígandi inn í aðstæðurnar. Ekki endilega þeim að kenna heldur hefur ákveðin sjálfsvinna ekki átt sér stað. Ein týpan fer í meðvirkni, hin í fórnarlamb. Verst er að það virðist vera sem þessar tvær ólíku manneskjur dragast mikið og oft að hvor annarri.

Af eigin reynslu get ég sagt þetta. Ég veit að mér finnst mjög mikilvægt að vita hvar mín ábyrgð byrjar og endar. Ef það er ekki skýrt þá er ég stöðugt á varðbergi um að mér verði kennt um mistök sem verða, eða jafnvel vanlíðan annarra þó það sé ekki mér að kenna. Ég hef bara of oft lent í þannig aðstæðum. Þá þróast það þannig að ég verð of ábyrgðarfullur, stjórnsamur og með fullkomnunaráráttu. Allt lífið fer að snúast um að gera allt upp á hundrað fyrir sjálfan mig og fyrir aðra.

Það gerist eitthvað og ég kenni sjálfum mér um. Eða eitthvað gerist hjá einhverjum öðrum og ég kenni sjálfum mér líka um það. Ég verð uppgefinn, augljóslega. Því þetta er of þung byrði.

En sjáið til að þetta er ekki allt bara í hausnum á mér eða bara út af því hvernig karakter ég er. Þetta er lærð hegðun út frá misnotkun. Bæði andlegri og líkamlegri. 

Andleg misnotkun er mjög alvarleg og ég hef þurft að skoða mín viðbrögð mjög ítarlega undanfarin ár. Skoða öll mín samskipti, hvort sem það er innan fjölskyldu, ástarsambands eða vinasambands.

Ein leiðin út úr óréttlátri sektarkennd er einfaldlega að neita að taka þátt. Ekki gefa gerandanum neina athygli. Í vissum aðstæðum er þetta bara leikur hjá fólki. Fólki sem líður ekki vel og eignast völd með því að níðast á öðrum. Ef þú veist hvað þú hefur gert. Veist hvað þú hefur sagt. Hefur deilt skoðunum þínum með fólki sem þú treystir og veist að þú hefur ekki gert neitt rangt þá skalt þú ekki dvelja í sektarkenndinni. 

Hinsvegar er það ekki endirinn á sögunni. Þannig losnar þú kannski við að finna fyrir sektarkennd og þú hefur fundið réttlætið gagnvart þér en hin manneskjan er samt ennþá að láta eins og hún sé særð og segir að þú sért slæm manneskja. 

Þá er eðlilegt að þú hugsir: Úff er ég svona slæm manneskja. Er allt mér að kenna?

Svarið er nei. Þú ert ekki vond manneskja. En það ekki breytir því ekki að kannski líður manneskjunni á hinum enda samskiptanna raunverulega eins og þú hafir virkilega gert eitthvað rangt. Þú getur ekki stjórnað því hvernig upplifun hennar er. Jafnvel þó þú sért alltaf með góðan ásetning og þú sért þessi týpa sem ég lýsi hér efst. Það þýðir ekki að þú getir ekki gert mistök. Og sum mistök eru ekki mistök út frá þinni upplifun en eru það engu að síður út frá upplifun annarra. Það verður að taka til greina.

Raunveruleikinn er sá að raunveruleiki okkar allra er ekki sá sami. Við getum ekki véfengt upplifanir annarra og ekki stjórnað þeim heldur. Sannleikurinn liggur sennilega mitt á milli þess sem ég segi og þess sem þú segir.

Kannski gerði ég eitthvað rangt fyrir þér. Og þú gerðir eitthvað rangt fyrir mér. Vandamálið er að við stöldrum oftast ekki nógu lengi við aðstæður til þess að komast að því vegna þess að réttlætiskennd okkar allra er of sterk. Stoltið okkar er of sterkt.

En við getum ekki gengið um í gegnum lífið á varðbergi, með hjartað í buxunum í viðbragðsstöðu gagnvart öllum og öllu. Haldandi að við berum ábyrgð á öllu. Við verðum hins vegar að horfast í augu við aðstæður sem koma upp og bera þá ábyrgð sem er okkar. Við þurfum að eiga í samskiptum. Dags daglega getum við einbeitt okkur að því sem við vitum og því sem stjórnum sjálf. Við getum lagt að okkur að bera virðingu fyrir hvert öðru, hugsa og meta áður en við tjáum okkur og reynt að brosa kannski til hvers annars aðeins oftar. Jafnvel að faðmast oftar án orða. Hafið þið prófað það?

Það er ekki þér að kenna. Kannski er það ekki heldur hinum að kenna. Af hverju þarf allt að vera einhverjum að kenna. Er lífið ekki bara röð atvika út frá gjörðum ólíkra upplifanna? Sumt hefur slæmar afleiðingar. Annað góðar afleiðingar. Sumt er heppni. Sumt er óheppni.

Berum ábyrgð á samskiptum okkar. En annars skulum við bara lifa lífinu eins fallega og við getum.

Friðrik Agni Árnason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -