Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Ertu að deyja eða ertu að lifa?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er satt að okkur öllum sem lifum fylgir einnig dauði þó að við vitum ekki hvar, hvernig og hvenær hann mun heilsa okkur. Flest fólk lifir sennilega þannig að það spáir ekki sérstaklega í því. Þó er sumt fólk sem hefur verið snert af dauðanum á óþægilegan hátt eða óþarflega mikið. Hvort sem það er vegna þess það hefur misst einhvern náinn sér skyndilega eða ekki skyndilega, upplifað stríðshörmungar og massadauða í kringum sig þá er dauðinn orðinn raunverulegur lífsförunautur. Hann er stöðugt nálægur í minningum um ástvini og hvernig þeir eru ekki lengur og jafnvel í hugarangri spurninga um af hverju þeir séu ekki lengur. Dauðinn svarar okkur hins vegar ekki alltaf með skýrum svörum sem við erum vön úr fræðibókum skólans.

Við sem höfum þekkingu og skilning á lífinu vitum samt að það er víst að við deyjum.

Okkur er kennt að dauðinn er partur af lífinu. 

Bara ein önnur leið sem við þurfum öll að fara að lokum. 

Ég sé fyrir mér krossgötur með götuskilti á milli tveggja átta. Leið til hægri er lífið og leið til vinstri er dauði. Þegar kemur að þessum krossgötum trúi ég því að ég muni velja lífið. Mér finnst alltaf eins og það sé eitthvað sem ég get gert, bætt við mig og upplifað. Ég elska lífið það mikið þannig af hverju ætti ég að velja hina leiðina? Þarna kemur óhuggulega staðreyndin og myndin upp í hugann um mann sem stendur við krossgöturnar og neyðir mig til að fara hina leiðina. En ég vil það ekki. Það skiptir ekki máli hvað ég vil lengur. Hann er mættur. Togar í mig ákveðið á meðan ég rígheld mér í götuskiltið, öskrandi á hitt fólkið sem gengur lífsleiðina. Hann þvingar mig og dregur mig á á eftir sér þó ég reyni að klóra mig frá honum með fingrunum í mölinni. Ekki beint falleg eða uppörvandi mynd.

Hingað til hef ég farið mínar eigin leiðir í lífinu. Mér hefur einnig verið gert það ljóst að það sé göfugur eiginleiki að efla mig sjálfan sem einstakling. Vera fullur af metnaði, hugmyndum, dugnaði, manngæsku og framtakssemi. Þess vegna hef ég tekið lífið í mínar eigin hendur. Margt hefur orðið á vegi mínum, stundum ég sjálfur og stundum aðrir eða aðstæður. Vissulega hafa verið hindranir. En vegna þess hve stjórnsamur ég er orðinn gagnvart lífinu þá held ég áfram, stundum á hnefanum. Hef engan tíma til að vera fórnarlamb lífs míns. Draumar og þrár eru vísbendingar um eitthvað sem ég verð að gera en ekki bara hugsa. Ég get varla fengið hugmyndir að einhverju án þess að athuga hvort ég geti gert eitthvað með þær.

- Auglýsing -

Og svona lifi ég eða lifði ég öllu heldur því sumt hefur breyst undanfarið og nýlega.

Fyrir rúmum tveimur árum var nefnilega ein manneskja sem sneri öllu upp, niður, til hliðar og á hvolf í mínu lífi. Hún ætlaði ekki að gera það og vildi það sennilega alls ekki. Þessi manneskja kom að krossgötunum og var tekin.

Yngri en ég. Full af hugmyndum, í fullri sjálfsvinnu og styrk. Einstaklingur í uppbyggingu eins og ég. Ég vaknaði upp við martröð. Hvað var eiginlega í gangi? Er þetta bara svona. Búið. Bless og ekki meir sama hve mikið ég spyr?

- Auglýsing -

Vitneskjan mín um dauðann raskaðist. Það brenglaðist eitthvað. Ég varð að fórnarlambi óttans. Ég var alltaf smá hvattur áfram af ótta við að hafa ekki tíma síðar því hvað ef dauði minn bæri að. En ég trúði því ekki innilega heldur notaði sem innspýtingu til þess að drífa hlutum í gang. Aldrei grunaði mig að það væri í raun fyrirstaða til þess að hugsa svona í bókstaflegum skilningi.

Síðustu tvö ár hefur dauðinn verið með mér. Hann hefur eiginlega verið stærri hluti af mér en lífið. 

Í öllum þögnum birtist hann, í fuglasöng, í vindinum, í haföldunum, á fjöllunum, í tónlistinni og stundum meira að segja í dansinum. Hann lætur mig ekki vera. Og ég er svo hræddur og ég er reiður. Af hverju má ég ekki lifa í friði? Togstreitan innra með mér og reiðin er orðin svo mikil að ég finn fyrir öllum líkamsbreytingum. Er uppspenntur í öllum líkamanum með óútskýrða liðverki og meltingarverki. Fer í allar rannsóknir og myndatökur. 

Því ég ætla sko að finna hann! Ég ætla sko að finna dauðann áður en hann finnur mig! Því ef ég finn hann fyrst þá ræð ég ennþá. Þá vel ég leiðina. Þá stjórna ég.

Lífið mitt er þess vegna búið að snúast um þetta. Að deyja. Að vera hræddur við að deyja.

Ég er samt að gefast upp núna. Ég er í raun að fatta að þegar ég er í þögninni og held að dauðinn sé að banka að þá er það raunverulega LÍFIÐ að banka. Þegar fuglinn syngur, vindurinn þýtur, aldan rís, fjallið kallar, tónlistin ómar, dansinn dunar í hjartanu.

Líf í hjartanu. Ég var að misskilja það sem gerðist. Þetta átti að kenna mér að sleppa óttanum en ekki halda í hann. Jú það er rétt að hugsa að við höfum ekki tíma en það á ekki að vekja með okkur ótta heldur hvetja okkur til að fanga tímann sem einfaldlega er og líður með okkur. Hvetja okkur til að lifa.

Yin og Yang. Svart og hvítt. Ljós og myrkur. Já dauðinn er ein hlið á teningnum.

En teningurinn er lífið.

Það sem ég er að reyna læra og auðga er lífið. Því ég er á lífi núna í dag. Á meðan ég skrifa þetta. Það er vinna fyrir mig að snúa systeminu við sem ég er orðinn vanur. Vinna fyrir hugann minn og líkama minn að skilja.

Það sem þetta snýst um er að velja lífið á hverjum degi. Sleppa takinu á dauðanum. Sleppa takinu á að reyna stjórna dauðanum. Hann er og verður þarna. Hann er óþekkt barn. Hann er ótaminn villtur hestur. Vill vera frjáls. Á að vera frjáls.

En þó lífið sé endanlegt þá er það líka frjálst á meðan það er. 

Og góði guð hvað það er mikil gjöf að fá að eiga frjálst líf, líkama og huga til að sinna því.

Ég vil lifa á meðan ég er á lífi. Ekki telja niður í dauðann sem svo kannski kemur aldrei þegar ég á von á honum. Frænka mín hafði ekki hugmynd um hann. En hún lifði bara eins fallega og hún kunni þangað til. Ég ætla að breyta því sem áfallið kenndi mér yfir í það sem lífið hennar kenndi mér. Það snýst um val á hugsunum. Að velja það sem lífið gefur en ekki það sem dauðinn tekur.

Ertu að lifa eða ertu að deyja?

 Friðrik Agni Árnason

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -