Vandræðalegt dagsins var að maturinn á árshátíðinni var frekar lummulegur. Ég hló. Guð ég trúi ekki að það sé verið að bjóða okkur upp á þetta.
Svo þarf ég að ákveða hvort ég ætla að fara á Hornstrandir í sumar. Set það í to-do skjalið í símanum mínum. Ætti ég ekki að fara panta tíma í nudd, er svo bólginn og þreyttur á því. Sem minnir mig á að fara tékka mig inn aftur hjá sálfræðingnum. Hvert eru Stína og Gummi að fara í sumar? Til Hawaii í siglingu. Næs! Já og þau sjá sig fyrir sér á þilfarinu með kampavínið. Instagram móment. Þau hlakka til.
Hafa unnið fyrir þessu fríi rétt eins og ferðinni til Saudi Arabíu í fyrra og Japans árið áður.
Já þau eiga skilið frí. Við eigum skilið frí. Börn eru vinna. Vinnan er vinna. Vinirnir eru vinna. Fjölskyldan er vinna. Við erum vinna. Að fara á tónleika og happy hour er vinna. Að halda uppi samfélagsmiðlum er vinna. Að skrá sig á annað andlegt námskeið er vinna.
Verð að muna eftir að slaka á og sýna mér mildi. Sjálfsmildi.
Já, erum við að drukkna í vandræðum og vandamálum? Erum við að drukkna í eigin hneykslan á hvernig maturinn er úti að borða á fínum veitingastað? Eða hvernig vínið bragðast? Já meina við erum að borga fyrir þetta. Þetta á að vera okkur til geðs. Annars fær bara litli tvítugi þjónninn að heyra það! Við erum sko búin að vera dugleg að vinna og fara í ræktina og sjá um börnin að það er fásinna að við séum úti á laugardagskvöldi og allt er ekki eins og við viljum hafa það. Við eigum skilið frí, við eigum skilið að njóta, við eigum skilið ást.
Hvar fékk hún þessa nýju blússu annars? Sigga er spurð í saumóklúbbnum. Í Evu á Laugavegi. Lekkert. Og svo er hún líka búin að fara í strípur og blowout í dag. Mikil skvísulæti á henni. Þær fara allar yfir á Kalda eftir matinn. Ætla láta til sín taka. Fanga athyglina. Því þær vinkonur voru allar búnar að taka kvöldið frá fyrir löngu síðan. Nú skal skemmta sér. Þær tóku leigubíl heim kl. 21. Áfengið rann um æðarnar í aðeins of miklu magni og á ofurhraða. Flestar gleyma að taka íbúfen og drekka vatn fyrir svefninn. Börnin hoppa í rúmið kl. 7. Veggirnir þrengja að. Skapið tapast og sektarkenndin hellist yfir. Heitið um áfengislausan lífsstíl er tekið upp að nýju. Sigga skráir sig í Jógakennaranámskeið á Indlandi. Nú ætlar hún að tækla hið andlega.
…
Höfum við það ekki bara nokkuð gott? Langflest?
…
Börn eru að deyja. Saklaust fólk er að deyja. Við rífumst um húðliti, trúarbrögð og hvernig kynlíf þessi og hinn er að stunda. Við rífumst um hver ætti að syngja á glimmersviði til að heilla Evrópubúa og vinna bikar. Við rífumst um hvort það sé í lagi að klípa í rassa án samþykkis þegar fólk er í glasi. Í stóra samhenginu held ég að það sé gáfulegra að rífast ekki um neitt af þessu eða tala um það hvort við eigum rétt á skoðunum um þetta í raun og veru. Við þurfum ekki að taka afstöðu til þess hvort það sé í lagi að sprengja upp börn. Það segir sig sjálft. Býst ég við. Og allt hitt líka. Við þurfum ekki að hafa skoðun á því hvort einhver tilbiðji Allah eða Krist. Eða fíli brjóst eða typpi. Skiptir þetta í alvöru máli. Ef fólk er gott, nægjusamt og kærleiksríkt?
Hvert stefnum við miðað við þann stað sem við erum stödd á í dag?
Höfum við það of gott? Meira gott en við ráðum við? Það gott að okkur skortir siðferðiskennd?
Ég held að við séum fólkið sem hefur það gott. Við höfum vandamál og við höfum áhyggjur. Eru það alvöru vandamál og alvöru áhyggjur? Ekki spurning. Þau eru það á okkar lífsskala og vanlíðunar upplifunin er vissulega raunveruleg. En erum við að fara deyja yfir þeim? Bókstaflega semsagt?
Ég þori næstum að veðja að í flestum tilvikum sé bókstaflegur dauði ekki handan við hornið.
Farið út að borða. Fáið ykkur dýra vínið ef þið hafið efni á því. En í guðs bænum verið þakklát fyrir það líka.
Friðrik Agni Árnason