Stjórnendur Krabbameinsfélags Íslands krefjast þess að frétt Mannlífs með viðtali við starfsmann sem þeir hafa gert að blóraböggli vegna rangrar skimunar verði fjarlægð. Sömuleiðis krefjast þeir þess að aðrir fjölmiðlar dragi nafnbirtingu starfsmannsins til baka. Félagið hafði áður falið frétt af heimasíðu sinni þar sem starfsmanninum voru færð blóm og honum þakkað fyrir góð störf. Þeir vissu ekki að Netið gleymir engu. Fréttin var enn til og þurfti aðeins krókaleiðir til að finna hana.
Stjórnendur Krabbameinsfélagsins hafa orðið uppvísir að því að bregðast bæði skjólstæðingum sínum og starfsfólki. Mistök við sýnatöku fólu í sér þá dauðans alvöru að fólk sem treysti á niðurstöðurnar bjó við falskt öryggi með líf sitt að veði. Staðfest dæmi er um slíkt og kona sem hafði mætt í skimun og greinst heilbrigð er skömmu síðar með ólæknandi krabbamein. Stjórnendur Krabbameinsfélagsins brugðust við tíðindum um dauðveikan skjólstæðing með þeim lítilmannlega hætti að benda á starfsmann sinn sem hefði gert mistökin. Félagið upplýsti að viðkomandi hefði glímt við veikindi og gaf til kynna að það væri ástæða mistakanna. Þessu til viðbótar upplýsti einn af lykilstarfsmönnum félagsins í Kastljósi að um væri að ræða konu.
„Að félagið bendi bara á mig finnst mér sárast og erfitt að kyngja,“ sagði starfsmaðurinn í samtali við Mannlíf. Þetta er skiljanlegur sársauki. Hvað sem fór úrskeiðis er það á ábyrgð yfirstjórnar Krabbameinsfélagsins og jafnvel æðstu ráðamanna í heilbrigðismálum. Það er mannslíf undir. Starfsmaðurinn lýsti því í samtali við Mannlíf að hann hefði gert mistök og þurft að gjalda fyrir það. Áður en viðtalið var birt var farið yfir það með starfsmanninum sem gerði smávægilegar athugasemdir sem farið var eftir í einu og öllu.
Afglöp Krabbameinsfélagsins eru tvíþætt. Í fyrsta lagi að skimun hafi reynst röng og ekki var hægt að bregðast við sjúkdómi í vexti sem varð ólæknandi. Ábyrgðin þar er ekki á gólfinu heldur í hásölum félagsins og á endanum hjá heilbrigðisráðherra. Þetta fólk verður að axla ábyrgð á því hvernig komið er. Skipstjóri ber alltaf ábyrgð á skipi sínu og áhöfn. Það sama gildir um fyrirtæki og félög. Ábyrgðin er hjá toppnum.
Önnur afglöp Krabbameinsfélagsins felast í því að hafa lýst sök á hendur starfsmanni sínum og auk þess fjallað um veikindi hans. Athugið að einungis örfáir mánuðir eru síðan félagið þakkaði starfsmanni sínum góð störf og tíundaði að hann hefði tekið tugþúsundir sýna. Nú kveður við nýjan tón og starfsmaðurinn er úthrópaður. Þótt félagið hefði ekki nafngreint starfsmanninn þá var hringurinn þrengdur með því að upplýsa að um væri að ræða konu og grun þannig varpað á örfáa starfsmenn Krabbameinsfélags Íslands.
Öllum má ljóst vera að öll yfirstjórn Krabbameinsfélagsins hefur brugðist. Félagið hefur búið að þeirri ímynd að vera lífsgjafi og bjargvættur. Stjórnin hefur dregið nafn þess niður í svaðið með svo grófum mistökum að fólk er agndofa. Til að kóróna allt annað krefst félagið þess að fréttir um starfsmanninn sem það úthrópaði verði fjarlægðar. Gefið er til kynna að Mannlíf og aðrir fjölmiðlar hafi skaðað starfsmanninn sem varð fyrir barðinu á stjórnendum félagsins. Félagið vill að farið verði með strokleður á málið og það afmáð. Vandinn er hins vegar sá að ekkert getur strokað út þjáningu konunnar sem fór í skimun. Þá getur ekkert strokleður afmáð þá framkomu sem félagið sýndi starfsmanninum með því að bera mál hans á torg. Það er ekki til það strokleður sem afmáir það sem gerst hefur innan dyra í Krabbameinsfélaginu,
Öll stjórn Krabbameinsfélagsins og lykilstarfsmenn þess eiga að segja af sér og víkja. Félagið verður að blása til aðalfundar í því skyni að bjarga félaginu frá þeirri glötun sem blasir við undir núverandi stjórn. Fréttirnar um félagið á mannlif.is verða ekki fjarlægðar. En það þarf að fjarlægja fólkið sem er að rústa ímynd þess.